31 desember 2006

Heldur

þú með Saddam eða okkur var ég eitt sinn spurð á köldum desemberdegi af Guðna Ágústssyni þegar ég ásamt slatta af öðrum mótmælendum vildum minna ríkisstjórnina á þau voðaverk sem framin voru í Írak í okkar nafni í boði Halldórs og Davíðs.

Ég veit að Tígris-Hitler var ekki góður maður og stóð sjálfur fyrir hryllilegum voðaverkum. En það réttlætir ekki það sem gerst hefur í Írak undir handleiðslu USA-Stalíns. Hvenær mun fólk átta sig á að morð réttlætir ekki annað morð. Að tönn fyrir tönn og auga fyrir auga er hin fullkomna leið mannkyns til glötunar.

Eitt er það sem mér finnst ganga út yfir öll velsæmismörk hjá fjölmiðlum í tengslum við þetta og það er að sýna myndir af Saddam við það að deyja, með snöruna um hálsinn og nú var maður að frétta að hægt er að nálgast upptökur eða myndir af því hvernig hann er myrtur. Þetta finnst mér mikil vanvirðing við aðstandendur hans, hvort sem að hann var böðull eða ekki. Hvað verður næsta snuffið fyrir okkur sem erum orðin ónæm fyrir viðbjóðnum: kannski væri hægt að sýna nauðganir hermanna á barnungum stúlkum í beinni frá Fallujah?

Vesturveldunum hefur tekist að búa til píslavott úr Saddam, með því að hengja hann við upphaf Eid al-Adha, sem er hátíð hinnar miklu fórnar, stund fyrirgefningarinnar, sú stund sem Saddam ásamt öðrum leiðtogum í hinum múslímska heimi hafa notað til að fyrirgefa glæpamönnum og sleppa nokkrum völdum mönnum eða konum úr haldi. Ekki ósvipað og gerðist þegar Jesús var fórnað en Barabas fékk að ganga laus. Tekist hefur að búa til einskonar Jesús úr Saddam. En kannski var það tilgangurinn með þessu. Búa til grundvöll fyrir meiri átök og kynda undir borgarastyrjöldina í Írak.

30 desember 2006

Fann

þessa hriflu um tvö af ensku smákverunum mínum rétt í þessu, var að goggla sjálfa mig eins og ég geri stundum, því þá finn ég líka stundum svona gersemar.

Contemporary Poetry With An Eye Towards Resistance

The Messenger and The World
Birgitta Jonsdottir
Beyond Borders
http://this.is/poems
$15.00 - The Messenger
No price info. - The World


Beyond Borders Chapbook Series is the publisher of the two most recent chapbooks by Birgitta Jonsdottir. Adding to the imaginative appeal of her words, is the artwork, also the creation of the poet. Birgitta is from Iceland. She brings with her work a voice that transcends borders and speaks to those seeking peace in a world far removed from it. Her poetry reflects on the gods and goddesses of an Icelandic past, as it intones the future.

With articulate skill, she draws our attention to social and environmental concerns; the fact she does this so well in a language other than her own is another reason to praise her writing. Here is yet another reason: within the pages of these two collections, she gives voice to issues that touch our souls, as she reflects on the world that is the place of our both our dreams and our collective nightmares.


Take a few moments to consider these opening lines in Huginn og Muninn—


"The black bodies of the ravens,
touching boundaries of time.

Scanning for news . . .

They feed on knowledge,
feed on gossip,
spit it in the hungry ears of Odin."

"They even soar within the undreamt dreams,
and within the thoughts that are being born."

Asgardur is a dwelling recreated that reverberates with gods, misrembered by mankind:

"There are the glorious palaces
of forgotten times.
There you can drink the magic brew
Sweet with honey dew
-soothe the soul."

"The Gods play with their powers
seductively raw
soft or brutal.

The Gods of elemental nature.
Mirrors of our desires."


From her chapbook, The World, the poem Heroes reminds us of the true heroes too often overlooked in the jumble of news headlines that intrude upon the contemporary conscious mind:

"It takes courage beyond words,
to settle on a new soil,
where all that was is not
but a distant memory. . .

The true heroes of the our world,
leave behind their small fortunes,
their education,
their family,
their culture. . .

wash dishes,
clean toilets,
work the fish.
with doctor degrees,
in our Western World."

"They are the voices that build bridges
between cultures
Embrace our differences."

Birgitta's poem, Horror of War, focuses on the repugnance of war and the abhorrent reality that defines it. It is a piece dedicated to a child who died during the opening days of the Iraq war. Here is a section of the poem:

"Headless bodies
Burned flesh
Smell of decay
a wedding band
on a slim delicate finger
Shades of memories
a future that can never be

A lonely head in a lush green field
eyes wide open
In the hollow a reflection
of untold love …

These are images
we should put in a frame
Mount them in our homes
so we never forget;
the true horror of war"

Finally, in The Shadows, once more the poet's use of imagery resonates with intensity as it transcends the ordinary:

"Heart shaped clouds
cry of ravens
A mysterious union of souls
weaving bright threads
between worlds
between the hearts of the poets

We were ripe

Now it is all gone
washed away in
oceans of lies . . ."

Birgitta Jonsdottir was born in 1967, in Reykjavik, Iceland. She has lived in Denmark, Sweden, Norway, England, the United States, Australia and New Zealand. Her poetry has been translated into 12 languages and has been published in anthologies, TV, radio, magazines, newspapers, and on the Internet. She is a member of United Poets and the Icelandic Writers Union. You may buy her books through Beyond Borders. Birgitta now lives in Iceland and is busy working on a number of projects (as well as translating two books of poetry).

Terry Lowenstein

©2006 The Centrifugal Eye - Collected Works - All Rights Reserved.

26 desember 2006

Jæja, mind over matter

svínvirkar fyrir mig. Ég fór í heitt bað í gær og kyrjaði innra með mér, mér líður frábærlega, ég er að springa úr orku. Ég er heil heilsu og bla bla bla. Ég var alveg hundveik fram að þeim tíma. Þegar ég svo var búin að setja saman eitt legó harry potter skip og eta heil ósköp að ýmsum berjum: þá var ég heil heilsu.

Aðfangadagur var svona hjá okkur: Við Neptúnus höfum komið okkur saman um það að matarhefðir okkar á jólunum einkennast af því að hafa aldrei sama matinn tvisvar. Við borðum ekkert með andlit: fisk, fugl, ferfætlinga ýmsa. Hann fékk að velja jólamatinn í ár og vildi endilega lasagna. Því útbjó ég slíkt með nokkrum lúxustilbrigðum. Þistilhjörtu og skringilegir sveppir, allskonar ristuð fræ og aspassósa. Ég hafði ferskt salat með þessu og svo prófuðum við að eta laufabrauð með í stað hvítlauksbrauðs. Það var eins og Delphin segir það geggjað gott. Fyrr um daginn rauk ég út að ná síðustu jólagjöfinni í hús. Bol fyrir Neptúnus sem á stendur "bankanum þínum er sama um þig". Gerði vöruskipti við Sigga Pönk, hann fékk bók og ég fékk bol. Þá kom dóttir mín til okkar rétt fyrir tvö og við rukum út á Jazzinum að ná í ættarhöfðingjann: hana ömmu í rútuna.

Keyrðum hana á áfangastað og krakkarnir léku sér við hvolpinn Kóp og ég færði Grétu frænku langþráð málverk eftir mig. Hún var mjög ánægð með málverkið sem ég valdi að gefa henni. Svo kom bróðir minn og við vorum í eitt andartak næstum öll á einum stað.
Svo brunaði ég heim með krakkafjöld og við tókum upp gjafir frá dóttur minni og hún tók upp gjafir frá okkur og okkar hlið fjölskyldunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er hjá okkur á aðfangadag og það var mjög sérstök tilfinning. Hún var alsæl með gjafirnar og við líka og svo þurfti ég að bruna með hana á hitt heimilið um fjögur. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa hana þó eitthvað hjá mér, þegar hún bjó erlendis þá var það svona happa og glappa hvenær og hvernig við myndum hittast.

Þá var að klára tiltekt og byrja að elda matinn: við vorum klukkutíma of sein að borða sem var allt í lagi. Strákarnir fengu allt það sem þá dreymdi um og gott betur: og ég fékk líka allt sem mig langaði í, fékk Draumaeyjuna til að leika með mér frá strákunum og Sendiherrann til að lesa. Fórum í smá singstar og töluðum við ættingja í síma og svo man ég ekki meira vegna þess að jólaflensan tók yfir.

En allavega þá er ekki hægt að ná þeim anda sem hér ríkti með orðum. Það var eitthvað friðsælt, eitthvað kátt, eitthvað rólegt, eitthvað æst, jú nú veit ég :himnaríki á jörð: Gleðilegt nýtt ár:)

Blogga ekki aftur fyrr en á nýju ári.... ætla í dag að finna foss ef ég mögulega get og skreyta fleiri piparkökur með marsipan og óhollum litum.

25 desember 2006

Vaknaði

í nótt og var andvaka á meðan flensa tók líkama minn yfir. Þvílíkur tími til að verða veik. Bið því vini mína forláts sem enn hafa ekki fengið frá mér jólakveðju.

Aðfangadagur var óvenjuskemmtilegur hjá okkur. Skrifa um hann þegar ég er orðin hressari. Skelli hér nokkrum myndum.

Birtukveðjur að vanda úr himnabjörgum.



23 desember 2006

Gleðilega birtuhátíð


Kæru vinir til sjávar og sveita, ég óska ykkur gleðilegra jóla.

Mín persónulega ósk fyrir næsta ár er að mér takist betur til með að vernda jörðina okkar og að fólk vakni til meðvitundar um þá einföldu staðreynd að einstaklingar geta breytt heiminum, fyrst og fremst með því að breyta sjálfum sér og horfast í auga við ótta sinn. Breytingar er það afl sem fær heiminn til að snúast. En breytingar án mannúðar eru miskunalausar.

p.s. Ég sendi ekki pappírskort og hef ekki gert í tíu ár af tilitsemi við jörðina:) Þó auðvitað þau kort sem ég hef fengið í ár hafi hrundið brosi á mitt andlit.

Og að lokum langar að deila með ykkur Lífsreglunum fjórum; ágætt veganesti inn í nýtt ár. Takk fyrir allt þetta gamla og góða.

Með birtukveðjum: Birgitta

Vertu flekklaus í orði
Talaðu af heilindum. Segðu aðeins það sem þú meinar. Passaðu að nota ekki orðið gegn þér eða til að slúðra um aðra. Beindu krafti orða þinna í átt að sannleika og kærleika, því orðið er eins og svartagaldur ef þú notar það án umhugsunar.

Ekki taka neitt persónulega
Ekkert sem annað fólk gerir er þín vegna. Það sem aðrir segja og gera er speglun af þeirra eigin veruleika, þeirra eigin hugarástandi. Þegar þú hættir að taka skoðanir og gjörðir annarra nærri þér, verðurðu ekki lengur fórnarlamb ónauðsynlegrar vanlíðunar.

Ekki draga rangar ályktanir
Hafðu hugrekki til þess að spyrja spurninga og til að biðja um það sem þú raunverulega vilt. Hafðu samskipti þín við aðra skýr svo þú komist hjá misskilningi og sárindum. Þessi eina lífsregla getur umbreytt lífi þínu.

Gerðu alltaf þitt besta
Þitt besta mun breytast á hverju andartaki við ólíkar aðstæður. Burtséð hverjar kringumstæðurnar eru, gerðu einfaldlega alltaf þitt besta og þú munt hætta að fordæma, fara illa með þig og fyllast eftirsjá.

22 desember 2006

Vin

Las upp í Vin sem er athvarf fyrir geðraskaða þann tuttugasta. Hef ekki komið þarna áður, mjög fallegt athvarf og ég skemmti mér vel við spjall og laufabrauðaát. Ég ákvað að gefa Vin 20 eintök af Dagbók kameljónsins, ég deildi þeim svo út eins og jólasveinn. (Finnst að við ættum að bæta við einum jólasveini sem gæti heiti Bókarýnir eða Bókahrellir eða Bókaormur.)

Allavega þá fannst mér frábært að fá að lesa upp fyrir fólkið þarna og að spjalla bæði við gesti og starfsmenn. Það er mjög ánægjulegt að svona staðir finnist fyrir fólk með geðraskanir. Held að Bóbó frændi hefði haft mjög gaman af því að kíkja á svona stað og jafnvel Valdi afi líka. Fordómar gagnvart geðveiku fólki eru enn til staðar en það er ekki eins áberandi og áður.

Jæja það er best að halda áfram að gera piparkökulistaverk: set myndir inn í dag af listaverkunum. Mér er að takast að gera ljótustu skrímslakökurnar að litríkum abstraktlistaverkum. Það verður gaman að éta ódauðleg listaverkin, þessi gjörningur minnir mig á sandmandölur.

Og eitt enn, ég ætla eftir jól að gerast bókadraugur og skilja dagbókina eftir víða um borg handa fólki að lesa. Ég gerði svipað fyrir 10 árum eða svo þegar ég var orðin dauðleið á að halda málverkasýningar. Ég þvældist um nágrenni mitt og skildi málverk eftir í umhverfinu. Ég kallaði þetta ruslatunnusýningu en oftar en ekki skildi ég málverkin við ruslatunnur eða upp á kirkjugarðgirðingum.

Og enn eitt enn sem ekki má gleymast: Ég er að fara til Suður-Ameríku: Granadaskáldahátíð í febrúar: fékk loks að vita að ég hef fengið styrk og þá get ég leikið Sendiherra Íslands á framandi slóðum í enn eitt skiptið.

21 desember 2006

Skúbb:

júhú loksins fæ ég að skúbba
Hér og nú hefur verið lagt niður og síðasta tölublað DV kemur 29. des

spurningin hvenær eigum við að stofna niður með fríblöðin samtökin? kannski gerist þess ekki þörf, kannski lognast þau út af og deyja á næsta ári

hef tekið eftir því hér í stigaganginum hjá mér að enginn tekur blöðin með sér upp þau enda öll í endurvinnslunni eða ruslatunnunni ef ég er ekki vakandi yfir að bjarga þessu vikulega tonni af pappír frá þeim örlögum að verða urðuð í stað þess að umbreytast í mjúkan sænskan klósettpappír

19 desember 2006

einkennandi þversögn

Pútín ræðir vopnasölu og frið við Sýrlandsforseta

17 desember 2006

Ég ætla að reyna að nota þetta stutta frí til að vinna í þýðingunni á dagbók kameljónsins og samtölum við drauga. Annars iða ég bókstaflega í innra skinninu, þrái svo mikið að finna tíma til að vinna í bókunum sem búa innra með mér og þurfa að komast á blað. Það er vitað mál að ég mun ekki fá ritlaun enda það fyrirkomulag ákaflega furðulegt og til þess gert að setja rithöfunda í stöðuga pressu. Þetta er svo furðulegt land og fólkið með. Allir í akkorði og gæðin eftir því. Skil ekki þetta fimm stjörnu bókaflóð. Tæknilega séð ættum við að hafa Nóbelshöfund ár hvert miðað við snilldina sem vellur hér fram ár hvert.

Ég var svo lánsöm að detta ung að árum inn í heimsbókmenntirnar og verð að segja að þó við eigum marga hæfa höfunda hérlendis þá háir það þeim, þetta akkorð. Væri betra ef bækur fengju sinn tíma til að gerjast og fá gagnrýnan yfirlestur og ritstjórn. Þær margumlofuðu íslendingabækur nútímans sem ég les fá mig oftar en ekki til að hugsa, "æjæj bara ef þarna hefði verið skorið niður um helming" allt of mikið um að bækur séu fullar af einhverri stephen king uppfyllingu. Þó teljast þær til meistaraverka meðal bókmenntarýna en kannski bara í ár á meðan flóðið er slíkt að ekki gefst tími til að lesa nema brotabort, flestir lesa þeir sömu tíu bækurnar og margar jafngóðar bækur "meistaraverkana" fljóta hjá án þess að vekja eftirtekt.

Mér leiðist þetta flóð og hef aldrei haft gaman af því. Það minnir mig stöðugt meir á flóðbylgju sem skilur eftir sig eintóma eyðileggingu. Kannski eru bækur ekkert annað en skelfirinn, fjöldaframleiddur í Kína til að kasta peningum í af einhverri skyldurækni gagnvart þeim sem þykjast lesa á meðan bækurnar hljóða í bókaplastinu uns þær enda í kolaportinu.

NB: Ég hef svo sem reynt að koma að hugmyndum hjá RSÍ um hvernig bæta mætti ritlaunakerfið en ekki fengið nein viðbrögð. Hef kynnt mér hvernig slíkir ríkisstyrkir eru í framkvæmd í öðrum löndum og boðið þeim sem í stjórninni sitja að spjalla um þessa hluti. Ég held að ég sé enginn öfgamanneskja en kannski lifi ég í algerri sjálfsblekkingu. Ég var eitt sitt bitur yfir öllu bullinu og skil ekki af hverju ég fékk mín fyrstu ritlaun upp á heila tvo mánuði en svo aldrei síðar. En í raun og veru þá snýst þetta ekki um mig sem rithöfund heldur frekar úttútnaða siðferðiskennd mína og víða er pottur brotinn þegar kemur að þessu blessaða bullkerfi sem heitir launasjóður rithöfunda. Skil ekki af hverju það er ekki tekjutengt og af hverju forlögin borga ekki sínum metsöluhöfundum bara laun eins og önnur fyrirtækjum er gert að borga fólki laun fyrir sína vinnu.

En núna kallar geymslan á mig, brimfull af fötum handa rauða krossinum sem skulu út í dag:)

16 desember 2006

Gleðilegt


bókaflóð! Hafið þið einhverntíman séð jafn fallegt og svipfagurt barn?? Dundaði mér við þetta fyrir 7 árum og fann þetta þegar ég var að taka til á servernum. Vefþjónninn orðinn feitur af rusli. Ég er bara einn nokkuð ánægð með þessa fyrstu stafrænu klippimynd mína.


Pantaði mér ILLUMINATED POEMS eftir Allen Ginsberg og Eric Drooker handa sjálfri mér í eitthvað gjöf. Vonandi fæ ég jólabókina frá bókaflóðinu já flóðbylgjunni 2003 eða jafnvel 1989 í jólagjöf frá einhverjum.

Annars hitti ég kött í dag sem var stór og mikill, hann stökk í fang mér þegar ég klappaði honum og slefaði og malaði og af honum hrundu hárin bröndótt. Ég veit ekki hvað hann hét en ég varð að skilja hann eftir þegar gestgjafinn kom. Hann stóð við gluggan kaldur og hrakinn og ég full af sektarkennd. Mikið var hann annars yndislegur og ég ætla rétt að vona að þeir sem annast hann séu honum góðir annars legg ég svo á og mæli með að þau verði sýnishorn af hund í næsta lífi.

Það

hefur verið áhugavert að fylgjast með dramanu í Hádegismóunum undanfarna daga. Ég hef greinilega hætt á fullkomnum tíma. Ég verð samt að bæta nokkru við misvitra umræðuna sem ég hef séð um þetta mál allt. Eitt er víst: það eru englar í þessu máli öllu. Allir eru þessir blessaðir menn sem þarna bítast á lausir við alla sjálfsrýni á sína starfshætti í gegnum tíðina og enginn þeirra myndi komast inn fyrir gullna hliðið á heiðarleikanum einum saman enda eru þeir blessunarlega lausir við slíkt. Leynimakkið á Blaðinu var vægast sagt óspennandi. Það eina sem ég lærði í skátunum forðum daga væri að það væri ljótt að hvíslast á fyrir framan aðra. Þessir kallar voru alltaf eitthvað að pukra og hvíslast á. Komu svo með allsherjar breytingar á öllu sem áður var á fundum sem allir máttu vera með á þegar fréttirnar sem þeir voru að segja okkur um okkur voru þegar komnar á vefmiðla landsins.

Blaðið er ofurselt auglýsingadeildinni, það hlýtur að vera frekar pirrandi að reka ritstjórn undir slíku ofurvaldi. Það hlýtur líka að vera pirrandi að horfast í augu við hve margir flúðu Blaðið eftir að SME tók við, hef aldrei unnið á vinnustað þar sem jafn mikil óánægja grasseraði. En það er kannski ekkert skringilegt þegar yfirmannahrokinn var orðinn slíkur sem hann var. Ásgeir var laus við allt slíkt og ég held að margir hafi saknað hans. Það má kannski segja um Janus að hann sé klár umbrotsmaður en hann er algerlega glataður yfirmaður og vonandi tekur hann ekki að sér að stjórna í nánustu framtíð það bara á ekki við hann. Enginn af þessum köllum er alslæmur en þeir ættu allir að hugsa vel um lögmál orsaka og afleiðinga, því enginn þeirra er fær um að komst út úr eigin fórnarlambspytti og réttlætingabullinu.

En horfum ekki framhjá þeirri staðreynd að öll blöð sem eru algerlega háð auglýsingum og fólk fær án þess að biðja um þau inn um bréfalúguna, já slík blöð eru hreinlega ekki trúverðug. Ég segi því niður með helvítis fríblöðin, ég er hætt að geta lesið þau vegna ógeðs á því hve auglýsingunum er klínt framan í mig á sífellt ógeðfeldari hátt, eins og í miðri grein í formi hringja eða sem gervi forsíða. Hvenær mun þessu pappírsflóði sem ekkert inniheldur nema fréttir um fyrirtæki og vörur sem reynt er að dulbúa sem faglegri umfjöllun linna. Þegar ég kem niður í sameign á morgnana þá er eins og stífla hafi brostið og gangurinn er fullur af innihaldslausum blöðum sem hafa ekkert að segja mér sem ég hef ekki þegar lesið annars staðar.
Fríblöðin eru ekki bara uppfull af lélegri blaðamennsku og ljótum auglýsingum (ég hef því miður aukið við hið síðarnefnda) heldur eru þau líka að ganga frá blaðamannastéttinni sem slíkri.
Akkorðsvinnan á Blaðinu var slík dag hvern að hún minnti mig einna helst á þann stutta tíma sem ég vann í frystihúsi. Allt drifið í gegn á methraða, eru ormar í blaðinu, það tekur enginn eftir því. Allt í gegn um maskínuna því neytendur gera engar kröfur. En hvernig fer það með góða blaðamenn að þurfa að vinna stöðugt undir slíku álagi þar sem fyrirtækjastefnan er að greiða aldrei yfirvinnu en alltaf ætlast til hennar. Ég minni fólk á þá speki að ekkert sé ókeypis og það er ekkert nema blekking að halda að þessi blöð séu frí. Þeirra markmið er að troða upp í almenning auglýsingar og ekkert annað liggur þar að baki. Fann aldrei örla á neinni hugsjón hjá Kalla og Steini Kára nema að græða peninga. Heyrði aldrei talað um einhvern metnað um gæði blaðsins, miklu frekar um hve vel hefði tekist að belgja það út af auglýsingum.
Þannig er nú það og ég verð að viðurkenna að þó ég hafi unnið þarna í 9 mánuði þá las ég blaðið aldrei. Gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir en fannst bara of erfitt að finna efni innan um allar auglýsingarnar. Las á netinu það sem ég vildi fræðast um. Reyndar eru netmiðlarnir að verða ömurlegri með hverjum deginum vegna sama vandamálsins, auglýsingar sem byrja allt í einu að tala og syngja. Arg en í það minnsta var engum pappír fórnað í það.

Að sjálfsögðu er ekki við blaðamennina að sakast, þau hafa mörg hver átt í hatrammri glímu við tímann og mörg þeirra gert stórgóða hluti miðað við það sem þeim er boðið upp á. Spurning hvort þau ættu ekki að setja skýrari mörk og koma sér út úr þessu akkorðsaðferðum þar sem lítill tími er til að stunda vinnubrögð sem kalla mætti vönduð án þess að flokkast undir stjörnublaðamenn. (hvað er annars þetta stjörnublaðamannabull minnir mig á stjörnupopp)

14 desember 2006

Í minningu






Baiji höfrungana sem formlega var lýst útdauðum í gær. Var að lesa mér til um þá áðan og komst að því að þeir dóu út meðal annars út af áhrifum af byggingu stærstu stíflu í heimi. Baiji lifði í ferskvatni í Kína. Ég hef reynt að vekja athygli á annarri tegund höfrunga í útrýmingarhættu og hvet alla sem er annt um lífríki jarðar að skrifa undir áskorun sem ég útbjó fyrra til ríkistjórnarinnar í Pakistan en þar búa hinir blindu hvítu höfrungar og eru næstir á listanum til að hverfa að eilífu.

Hér er linkur í frétt um þetta af CNN og hér er undirskrifarlistinn minn fyrir blindu höfrungana sem einnig búa í ferskvatni.

Hef alla tíð elskað höfrunga allt frá þeim tíma sem ég sá þá hoppa og skoppa upp úr haffletinum þegar ég var út á sjó með pabba í bernsku.

11 desember 2006

Það

fólk í bókabransanum sem nýtur jólabókaflóðsins ætti kannski frekar að vinna við slátrun búfénaðar eða við að stjórna frystihúsi þar sem tarnavinna er nauðsyn svo hráefnið skemmist ekki, en við bókmenntir.

Helgin

þessi var alger fjölskyldu og vina helgi. Ég held að ég verði heimakærari sem árin líða. Nenni ekki að fara neitt út á skemmtanir í desember vegna offramboðs. Fæ hræðilegan valkvíða og enda með að fara bara snemma upp í stóra mjúka rúmið mitt með Ísidór ísbjörn mér við hlið og eldgamlar jólabækur. Þá eru dökkar súkkulaðirúsínur aldrei langt undan og fátt notalegra en að sofna útfrá einhverri bók. Er að ljúka við Gunnlaðarsögu. Mér finnst hún frábær en samt fullvæmin á köflum. Ég ætla ekki að kaupa neinar jólabækur í ár. Bíð eftir að þær bækur sem mér ber að lesa í þessu lífi detti í fang mitt eins og þær gjarnan gera. Ég kaupi aldrei neitt dót, nema kannski prentara og ristavélar en samt sogast að mér dót úr öllum áttum og bækur, ég held að innra með mér búa lítið dýr sem heiti bókasegull og hann hefur einstakt lag á að soga til síns alls konar furðulegar bækur sem flögra inn um bréfalúguna mína. Verð reyndar að viðurkenna að ég er að safna bókum eftir Alan Moore (v for vendetta gaurinn) og Sacco og fleiri teiknimyndasöguhöfunda (graphic novel) og kaupi þær gjarnan á amazon, svo er líka verið að safna jack vance en hans bækur kaupi ég notaðar í gegnum amazon marketplace. Þær eru aðallega fyrir herra N, en ég dett í þær líka þegar ég hef nægan tíma. Enginn höfundur með eins ótrúlega mikinn og undarlegan orðaforða og vance.

Ég hreinlega elska að versla á netinu. Ég á bágt með að pína mig til að ráfa um verslanir, verð svo utan við mig að skyndilega er ég búin að kaupa eitthvað allt annað en ég ætlaði að kaupa og ráfa um í óráði uns ég finn leiðina heim. Held að það sé lyftutónlistin sem geri mér þetta. Hún er svo hryllileg að maður verður að loka á öll skynfæri.

Bakaði eðal döðluköku fyrir herra N sem heppnaðist afar vel. Ég er búin að vera að ýta því undan mér í meira en mánuð að baka hana og svo var þetta ekkert mál. Merkilegt þetta fyrirbæri sem heitir að mikla fyrir sér hlutina. AKA að gera úlfalda úr mýflugu. Ég er rosalega góð í þessari íþrótt. Þarna er kannski minn fyrsti möguleiki á að vinna mér inn meistaratitil í einhverju.

10 desember 2006

Þetta er besti


vefurinn sem ég hef fundið til að gleða aðra í verki með jólagjöf sem er þrunginn góðum fyrirheitum og afleiðingum. Kíkið endilega í vefverslun the Hungersite. Ég keypti handa ótilgreindum ættingja þetta. Ég ætla að gefa sjálfri mér þetta. Það sem er notalegt við þessa búð er að í hvert skipti sem þú verslar þarna ertu að gefa mat. Þessi vefur er fyrsti vefurinn sem naut mikilla vinsælda með kerfinu one click a day. Þá smellti maður á hnapp og gaf bolla af mat fyrir hvern smell. Núna eru þeir komnir með allskonar aðra möguleika eins og styrkja konur til að fara í mamogram til að leita að brjóstakrabbameini og gefa skólabörnum bækur í löndum þar sem fátækt er mikil.

Ég fæ annars alltaf algert óbragð í munninn yfir öllu þessu jólafári. Ég neyddist til að fara í Smáralind í gær vegna þess að yngri syni mínum var boðið í afmæli þar. Ég var stödd í Hagkaup á meðan að versla föt á drenginn enda vex hann sem baunaspíra og allt í einu byrja Nylon að syngja. Ég vissi ekki hvert ég gæti flúið en skaut mér út hið fyrsta. Og svona var þetta allsstaðar í Smáraland. Það átti að fá mig til að standa í bókabúðum og trufla fólk við innkaup með því að lesa upp úr bókinni sem ég var að þýða og ég hreinlega gat ekki fengið mig til þess.

Ég er reyndar svo skringileg að ég reyni að hafa jól á hverjum degi. Hver dagur gæti svo sem verið síðasti dagurinn á lífi. Ég nenni ekki að stressa mig á þessum árstíma. Ég nenni ekki að setja einhverjar himinháar væntingar um að þetta eigi að vera mest spes dagur ársins. Ég nenni ekki að borða á mig gat út af því að núna er desember og ég nenni ekki að taka þátt í þessu bulli. Aðal ríkidæmið í kringum jólin er tíminn sem maður fær til að njóta með sínum nánustu, þó ár og dagur sé síðan manni tókst að smala öllum saman, enda skilja haf og heimar alltaf einhverja frá.

Pétur Blöndal

lítur svo á að allir aðrir hugsi og geri eins og hann, eða ættu að gera það. Þeir eru reyndar fjölmargir ráðamenn og konur sem gera þessi herfilegu mistök en Pétur er ef til vill sá þingmaður sem gerir í því að afhjúpa það.

Reyndir virðist flokkurinn hans líta á sig sem valdaflokk. Ég hélt alltaf að fólkið inn á þingi væri þarna í vinnu fyrir mig. (ég veit að ég er frekar einföld) Mér finnst verst að ekki er hægt að reka þetta fólk fyrir léleg vinnubrögð. Hefði verið gaman að sjá einhvern axla ábyrgð á Íraksmálinu á sínum tíma, á Kárahnjúkaklúðrinu, á eilífum svikum við öryrkja og gamla fólkið.

Hvernig væri annars að hafa sérstakt framboð fyrir glæpamenn. Minnihlutahópur sem þarf sinn þrýstihóp á þingi og Árni gæti leitt þann flokk með hljómfagurri röddu. Annars gæti ég nú tuðað út í hið óendalega yfir ömurlegu réttarkerfi landsins.

Fólk sem klifrar upp í krana fær hærri sektir en barnaníðingar, það fær lengra skilorð en nauðgarar. Skil ekki af hverju nauðgun er ekki bara nauðgun og af hverju nauðgun telst ekki til ofbeldis af verstu gerð.

Annars þá held ég að það sé kominn tími fyrir grasrótina að sanna sig í þjónustuhlutverkinu á þingi. Valdaþreyta og valdahroki ríkisvaldins hreinlega orðið hættulega kærulaust.

06 desember 2006

Skringilegt líf kameljónsins

Í hittifyrra stóð ég fyrir utan hótel Borg með skilti í brunagaddi þar sem ég minnti ásamt nokkrum öðrum félögum mínum ráðamenn landsins á jólagjöf Íslendinga til Íraka: samábyrgð okkar á ástandinu í Írak. Í dag söng ég jólalög með fólkinu sem reyndi að horfa fram hjá okkur og skiltunum okkar á þessum sama stað nema bara inni í hlýjunni. Gæddi mér á ora grænum og laufabrauði. Vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Varð að fara út í göngutúr í miðju kafi til að hugsa skýrt.

Hvernig breytir maður heiminum? Úti eða inni??!!

p.s. sérstakt áhugamál mitt og langtímaverkefni er að finna leið til að virkja hinn almenna borgarar (ef hann er þá til) til að skynja og trúa því að það sem hann gerir hefur áhrif.