17 desember 2006

Ég ætla að reyna að nota þetta stutta frí til að vinna í þýðingunni á dagbók kameljónsins og samtölum við drauga. Annars iða ég bókstaflega í innra skinninu, þrái svo mikið að finna tíma til að vinna í bókunum sem búa innra með mér og þurfa að komast á blað. Það er vitað mál að ég mun ekki fá ritlaun enda það fyrirkomulag ákaflega furðulegt og til þess gert að setja rithöfunda í stöðuga pressu. Þetta er svo furðulegt land og fólkið með. Allir í akkorði og gæðin eftir því. Skil ekki þetta fimm stjörnu bókaflóð. Tæknilega séð ættum við að hafa Nóbelshöfund ár hvert miðað við snilldina sem vellur hér fram ár hvert.

Ég var svo lánsöm að detta ung að árum inn í heimsbókmenntirnar og verð að segja að þó við eigum marga hæfa höfunda hérlendis þá háir það þeim, þetta akkorð. Væri betra ef bækur fengju sinn tíma til að gerjast og fá gagnrýnan yfirlestur og ritstjórn. Þær margumlofuðu íslendingabækur nútímans sem ég les fá mig oftar en ekki til að hugsa, "æjæj bara ef þarna hefði verið skorið niður um helming" allt of mikið um að bækur séu fullar af einhverri stephen king uppfyllingu. Þó teljast þær til meistaraverka meðal bókmenntarýna en kannski bara í ár á meðan flóðið er slíkt að ekki gefst tími til að lesa nema brotabort, flestir lesa þeir sömu tíu bækurnar og margar jafngóðar bækur "meistaraverkana" fljóta hjá án þess að vekja eftirtekt.

Mér leiðist þetta flóð og hef aldrei haft gaman af því. Það minnir mig stöðugt meir á flóðbylgju sem skilur eftir sig eintóma eyðileggingu. Kannski eru bækur ekkert annað en skelfirinn, fjöldaframleiddur í Kína til að kasta peningum í af einhverri skyldurækni gagnvart þeim sem þykjast lesa á meðan bækurnar hljóða í bókaplastinu uns þær enda í kolaportinu.

NB: Ég hef svo sem reynt að koma að hugmyndum hjá RSÍ um hvernig bæta mætti ritlaunakerfið en ekki fengið nein viðbrögð. Hef kynnt mér hvernig slíkir ríkisstyrkir eru í framkvæmd í öðrum löndum og boðið þeim sem í stjórninni sitja að spjalla um þessa hluti. Ég held að ég sé enginn öfgamanneskja en kannski lifi ég í algerri sjálfsblekkingu. Ég var eitt sitt bitur yfir öllu bullinu og skil ekki af hverju ég fékk mín fyrstu ritlaun upp á heila tvo mánuði en svo aldrei síðar. En í raun og veru þá snýst þetta ekki um mig sem rithöfund heldur frekar úttútnaða siðferðiskennd mína og víða er pottur brotinn þegar kemur að þessu blessaða bullkerfi sem heitir launasjóður rithöfunda. Skil ekki af hverju það er ekki tekjutengt og af hverju forlögin borga ekki sínum metsöluhöfundum bara laun eins og önnur fyrirtækjum er gert að borga fólki laun fyrir sína vinnu.

En núna kallar geymslan á mig, brimfull af fötum handa rauða krossinum sem skulu út í dag:)

Engin ummæli: