28 september 2006

Dauðalón

Sá eitt sinn inn í heim dauðans
uppstoppaðir hrafnar og svört tré
í jökuleðju
svo langt sem augað eygði

Óttinn birtist sem svartur hvolpur
sem sleikir sár húsbónda síns

Sorgarhjúpur og sótsvartar hugsanir
Dauðalón og illvirkjun
lama huga og hjarta

En ekki skal gráta gljúfurbúann
heldur safna liði

Enn er von - þó foss hljóðni
Enn er von - sverðin hárbeittar tungur sannleikans
Enn er von - hiti í jökuleðju
og á greinum svartra tráa
glittir í iðagræn lauf

Á eftir þessum vetri kemur vor
eins og alltaf

Þó þessi nótt sé dimm
og dimmari enn
er alltaf dimmast fyrir dögun

Á eftir verður byrjað að safna vatni í Hálslón


Þessi dagur markar tímamót í baráttunni um náttúru Íslands.
Á þessum sama degi, klukkan 22.00 verða Reykjavík og nágrannabyggðir myrkvaðar, til að hægt sé að njóta stjörnuhiminsins.
Þess vegna hvetjum við alla til að sýna andstöðu sína við Kárahnjúkavirkjun með því að safnast saman við Reykjavíkurtjörn í táknrænni athöfn, þar sem við munum fleyta kertum til að minnast þeirra atburða sem nú eiga sér stað. Munið að hafa með ykkur flotkerti og gjarnan sorgarbönd. Á sömu stundu munu íbúar við Lagarfljótið fleyta kertum á Fljótinu.

Sorgardagur

Ég trúi því ekki enn að þetta sé að fara að bresta á. Ég trúi því ekki að ég búi í slíku bananalýðveldi. Allt frá upphafi hafa raddirnar sem hafa látið málefni Kárahnjúkavirkjunar varða, sem hafa sýnt virka andstöðu orðið sífellt fleiri. Af hverju? Varla út af því að þetta mál sé tapað mál, varla út af því að þeir sem eru andsnúnir þessari heimatilbúnu hamförum séu einhverjir vanþroska lopapeysu álfar. Ég held að ástæðan fyrir því að sífellt fleiri hafi sýnt andstöðu sína sé einfaldlega sú að okkur sem höfum verið í þessari baráttu hefur tekist að koma upplýsingum til almennings um hina hliðina á málinu. Það er reyndar eitthvað sem ríkisstjórn þessa lands hefði átt að gera. EN við búum ekki við raunverulegt lýðræði. Það er ástæða fyrir því að fyrir þúsundum ára leit Platón á lýðræði sem meingallað þjóðfélagsform, einmitt útaf hættunni á valdníðslu eins og við erum að upplifa hérlendis.

18 september 2006

Mér

tókst hið ómögulega. Að þýða tvær bækur, að brjóta um eina bók, að skrifa eina ljóðabók, að byrja í nýrri vinnu og halda geðheilsu í öllu þessu fári á þessu ári. Að ógleymdu allri sjálfboðaliðavinnunni sem ég þó hef skorið við nögl.
Ég held að sjaldan hafi ég lært eins mikið um sjálfa mig eins og í þessari hálfs árs geðveiku vinnutörn.
Kannski vegna þess að mér tókst að sleppa sjálfsvorkunarfuglinum emjandi út úr lífi mínu. Engar fleiri krossfestingar í eldhúsinu. Ég hef aftur á móti fengið smá bölsýni í blóðið. Sá Al Gore myndina og þrátt fyrir að í henni væri smá von þá er enn svo langt í að fólk fari að gera eitthvað til að hoppa út úr vítahringnum sem við erum búin að koma okkur í. Svefngenglar.

En nóg um það: fór á Þingvelli með Delphin og Guðborgu Gná um helgina. Fórum leið sem ég hef ekki gengið áður. Langi stígur og enginn var á ferðinni nema við, löbbuðum inn í vættagjá og hámuðum í okkur aðalbláber og krækiber, fullkomin hrútaber og böðuðum okkur í úðanum af Öxarárfossi.

Sá líka myndina hans Nick Cave. Hún er víkingamynd ástralalalala og meðan ég horfði á hana mundi ég af hverju ég vildi ekki búa í Ástralalalíu. En samt var eitthvað við þetta land. Eitthvað sem skaut rótum og ég held að ég muni alltaf sakna einhvers sem mér er fyrirmunað að skilja. Kannski framandleikanum. En myndin var góð, nei hún var meira en góð. Hún syngur í mér eins og hlátur Kookaburra, sem mér þótti frekar óhugnalegur um dimmar nætur í húsinu við jaðar skógarins, en þessi söngur sem minnti á barnsgrátur laumaði sér inn í mig og mig dreymir um að fanga hann ásamt hitanum sem ég sakna án afláts.

07 september 2006

Skapandi dagur gegn stóriðju

Listamenn taka höndum saman og sýna stuðning við náttúruvernd á Íslandi með listsköpun og tónlistarviðburðum á laugardaginn þann 9. september. Ávallt bætast fleiri og fleiri í hóp þeirra sem eru tilbúnir til að mótmæla þeim stóru mistökum sem ríkisstjórn Íslands er að gera núna og eru allir hvattir til að mæta í miðbæ Reykjavíkur og sýna baráttunni gegn stóriðjustefnunni stuðning og hvetja ríkisstjórnina til verka í átt að uppbyggingu umhverfisvæns samfélags sem stuðlað getur að atvinnusköpun í sátt og samlyndi við náttúruna. Öllum er opið að taka þátt með beinum hætti, hvort sem þeir vilja lesa ljóð, spila, mála eða hvað sem þeim dettur í hug.

Ætlunin er að byrja daginn kl. 13 á Hlemmi með karnivalgöngu sem fer niður Laugaveginn og endar á Austurvelli. Í hana eru allir hvattir til að mæta í búningum eða einhverju litríku gervi, taka upp hlóðfæri, dansa, syngja eða bara vera með. Á Austurvelli verða síðan tónleikar, uppákomur og lifandi málverk mun skapað af gestum og gangandi sem síðar verður gefið núverandi ríkisstjórn sem ábyrg er fyrir stærstu umhverfisspjöllum af mannavöldum í allri Íslandssögunni. Meðal þess tónlistarfólks sem fram mun koma má nefna Mr. Sillu og Mongoose, Ghostdigital, Palindrome, Cocktail Vomit, Bent og Magga Legó.

Einnig verður opnun í Gallerí Gyllinhæð og silkiþrykk fyrir utan Nakta apann. Þangað getur fólk komið með flíkur og töskur til að láta prenta á. Þeir sem vilja vita meira eða gefa kost á sér við aðstandendur dagsins er bent á að skrifa tölvupóst á skapandiskodun@hotmail.com.

Allir þeir sem vilja stuðla að verndun íslenskrar náttúru og uppbyggingu umhverfisvænna atvinnuvega eru hvattir til að mæta á staðinn og tjá skoðun sína.

04 september 2006

Skemmtilegur

dagur hjá mér í dag...
Einn af þessum fullkomnu dögum þar sem allt gengur upp nema tæknin!
Í fyrsta lagi kláraði ég að þýða bók númer tvö síðan í mars á þessu ári. Samræðubók Gorbachev og Ikeda. Vinur minn Jón Karl þýddi reyndar samræðuþátt Gorbachev. Þetta var nokkuð mikið torf að fara í gegnum til að komast að kjarnanum. En mjög merkileg og mikilvæg bók sem fékk mig til að fara að lesa aftur heimspeki. Gorgías eftir Platón aftur á náttborðið og ætla svo að detta í hans fullkomna hugmyndaheim, já hugrænt fyllerí á þessum bæ. Ég kláraði að þýða á laugardagsmorgunn... og er núna að pússa, fægja eins og silfrið sem ég nenni aldrei að pússa fyrr en það er orðið svart.

Í öðru lagi þá fékk ég óvænt viðtal upp í hendurnar í dag. Langaði að fjalla um tónleika Patti Smith annaðkvöld og auðvitað langaði mig að taka við hana viðtal. Spurði og fékk. Alveg stórkostlegt að spjalla við þesssa manneskju. Hún hefur svo mikla útgeislun og rosalega djúp og falleg augu. Ég vona að mér hafi tekist að ná kjarna hennar að einhverju leiti inn í þetta viðtal sem ég varð að vinna á mettíma svo það myndi ná í blaðið á morgunn.... svo spjallaði ég smá við gítarleikarann hennar hann Lenny og komst að því að við eigum sameiginlega vini, einn reyndar lést í fyrra, en þetta er svo skemmtilega lítill heimur.

Í þriðja lagi þá fékk ég skemmtilega pöntun á smákverasafninu : komplet:

Og í fjórða lagi þá mun það fara gerast á næstu dögum að ég fái minn fasta bústað á bokmenntir.is

Málið er það að ég hef alltaf haft furðuleg kvikindi lifandi í hausnum á mér, eitt heitir: sjálfsvorkunarpúkinn, annað er hinn illræmdi dómari og það þriðja og jafnan mest óþolandi er áköpuð hugmyndakerfi um mig og allt og alla. Ég er semsagt búin að vera að drepa þessi sníkjudýr með öllum tiltækum ráðum og viti menn ég held að mér sé að takast það.
En semsagt þessi kvikindi hafa alltaf verið að hvísla að mér að ég sé ekki nógu góð þetta eða hitt og þar af leiðandi þá hefur þetta kameljón verið alveg skelfing óframfærið á hinum undarlegustu sviðum. En allt horfir þetta til betri vegar og ég stend í eldhúsinu eða sit og malla gull úr galli í gríðarstórum potti þakklætis og svívirðilegrar bjartsýni ....

i will not strive oh yeah
i love my life oh yeah

02 september 2006

Sonur minn


líkti mér við kakkalakka þegar ég fékk enn einu válegu fréttir lífs míns fyrir tveimur dögum. Sama hve á dynur þá lifi ég það af rétt eins og kakkalakki. (hann reyndar sagði að ég væri ekki eins ljót og kakkalakki blessaður) Ég ætti kannski að breyta heitinu á blogginu mínu í dagbók kakkalakkans! Annars þá veit ég fyrir víst að mínar hremmingar svona almennt á lífshlaupinu er búnar. Síðustu dreggjar því sem næst 40 árum af eilífu drama og harmleikjum. Og því til sönnunar að þetta dæmi, sem gaf mér hið skemmtilega viðurnefni kakkalakkinn, umbreyttist úr gallsúrri ediksúpu í framandi ávöxt. Lífið er eintóm alkemía og ég er að verða betri í að breyta kringumstæðunum í gull:)

þökk kyrjuninni og leynifélaginu