hefur verið áhugavert að fylgjast með dramanu í Hádegismóunum undanfarna daga. Ég hef greinilega hætt á fullkomnum tíma. Ég verð samt að bæta nokkru við misvitra umræðuna sem ég hef séð um þetta mál allt. Eitt er víst: það eru englar í þessu máli öllu. Allir eru þessir blessaðir menn sem þarna bítast á lausir við alla sjálfsrýni á sína starfshætti í gegnum tíðina og enginn þeirra myndi komast inn fyrir gullna hliðið á heiðarleikanum einum saman enda eru þeir blessunarlega lausir við slíkt. Leynimakkið á Blaðinu var vægast sagt óspennandi. Það eina sem ég lærði í skátunum forðum daga væri að það væri ljótt að hvíslast á fyrir framan aðra. Þessir kallar voru alltaf eitthvað að pukra og hvíslast á. Komu svo með allsherjar breytingar á öllu sem áður var á fundum sem allir máttu vera með á þegar fréttirnar sem þeir voru að segja okkur um okkur voru þegar komnar á vefmiðla landsins.
Blaðið er ofurselt auglýsingadeildinni, það hlýtur að vera frekar pirrandi að reka ritstjórn undir slíku ofurvaldi. Það hlýtur líka að vera pirrandi að horfast í augu við hve margir flúðu Blaðið eftir að SME tók við, hef aldrei unnið á vinnustað þar sem jafn mikil óánægja grasseraði. En það er kannski ekkert skringilegt þegar yfirmannahrokinn var orðinn slíkur sem hann var. Ásgeir var laus við allt slíkt og ég held að margir hafi saknað hans. Það má kannski segja um Janus að hann sé klár umbrotsmaður en hann er algerlega glataður yfirmaður og vonandi tekur hann ekki að sér að stjórna í nánustu framtíð það bara á ekki við hann. Enginn af þessum köllum er alslæmur en þeir ættu allir að hugsa vel um lögmál orsaka og afleiðinga, því enginn þeirra er fær um að komst út úr eigin fórnarlambspytti og réttlætingabullinu.
En horfum ekki framhjá þeirri staðreynd að öll blöð sem eru algerlega háð auglýsingum og fólk fær án þess að biðja um þau inn um bréfalúguna, já slík blöð eru hreinlega ekki trúverðug. Ég segi því niður með helvítis fríblöðin, ég er hætt að geta lesið þau vegna ógeðs á því hve auglýsingunum er klínt framan í mig á sífellt ógeðfeldari hátt, eins og í miðri grein í formi hringja eða sem gervi forsíða. Hvenær mun þessu pappírsflóði sem ekkert inniheldur nema fréttir um fyrirtæki og vörur sem reynt er að dulbúa sem faglegri umfjöllun linna. Þegar ég kem niður í sameign á morgnana þá er eins og stífla hafi brostið og gangurinn er fullur af innihaldslausum blöðum sem hafa ekkert að segja mér sem ég hef ekki þegar lesið annars staðar.
Fríblöðin eru ekki bara uppfull af lélegri blaðamennsku og ljótum auglýsingum (ég hef því miður aukið við hið síðarnefnda) heldur eru þau líka að ganga frá blaðamannastéttinni sem slíkri.
Akkorðsvinnan á Blaðinu var slík dag hvern að hún minnti mig einna helst á þann stutta tíma sem ég vann í frystihúsi. Allt drifið í gegn á methraða, eru ormar í blaðinu, það tekur enginn eftir því. Allt í gegn um maskínuna því neytendur gera engar kröfur. En hvernig fer það með góða blaðamenn að þurfa að vinna stöðugt undir slíku álagi þar sem fyrirtækjastefnan er að greiða aldrei yfirvinnu en alltaf ætlast til hennar. Ég minni fólk á þá speki að ekkert sé ókeypis og það er ekkert nema blekking að halda að þessi blöð séu frí. Þeirra markmið er að troða upp í almenning auglýsingar og ekkert annað liggur þar að baki. Fann aldrei örla á neinni hugsjón hjá Kalla og Steini Kára nema að græða peninga. Heyrði aldrei talað um einhvern metnað um gæði blaðsins, miklu frekar um hve vel hefði tekist að belgja það út af auglýsingum.
Þannig er nú það og ég verð að viðurkenna að þó ég hafi unnið þarna í 9 mánuði þá las ég blaðið aldrei. Gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir en fannst bara of erfitt að finna efni innan um allar auglýsingarnar. Las á netinu það sem ég vildi fræðast um. Reyndar eru netmiðlarnir að verða ömurlegri með hverjum deginum vegna sama vandamálsins, auglýsingar sem byrja allt í einu að tala og syngja. Arg en í það minnsta var engum pappír fórnað í það.
Að sjálfsögðu er ekki við blaðamennina að sakast, þau hafa mörg hver átt í hatrammri glímu við tímann og mörg þeirra gert stórgóða hluti miðað við það sem þeim er boðið upp á. Spurning hvort þau ættu ekki að setja skýrari mörk og koma sér út úr þessu akkorðsaðferðum þar sem lítill tími er til að stunda vinnubrögð sem kalla mætti vönduð án þess að flokkast undir stjörnublaðamenn. (hvað er annars þetta stjörnublaðamannabull minnir mig á stjörnupopp)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli