26 nóvember 2006

Upplifanir

undanfarið hafa verið með fjölbreytilegasta móti undanfarin mánuðinn og af svo miklu að taka að ég ætla aðeins að rifja upp nóvember í þessu tilliti::::::

Fyrst : Hin alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils: Ég hef farið á margar alþjóðlegar ljóðahátíðir og þessi er sú næstskemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í og farið á. Held að enginn muni slá út þessa í hinni ofurmögnuðu borg Medellín í Kólumbíu. En skemmtanagildi Nýhilshátíðarinnar slagaði vel upp í Prometo. Menningarsnobb hefur alltaf farið ákaflega í taugarnar á mér og ég fann enga slíka strauma í Stúdentakjallaranum. Það var bara nokkuð inspirerandi að sjá þessi útlensku skáld í mixi við þessi íslensku og ekki skemmdi tónlistin og performanse snildartaktar sem sum þeirra bjuggu yfir.

Auðvitað var ekki allt jafn skemmtilegt en í heildina séð þá var þetta ógleymanlegt hátíð og ég vona að næst verði staðurinn stærri, ég varð frá að hverfa seinna kvöldið vegna þess að það var svo þétt setið og ég orðin fótafúin.... og nennti ekki að standa í marga tíma.

Svo fór ég á alveg magnaða tónleika með Sykurmolunum. Ég var ein af þeim fáu heppnu sem sáu þessa hljómsveit spila í eldgamla daga. 20 ár síðan... ótrúlegt. Ef eitthvað var þá voru þau hreinlega betri núna en þá. Það var eitthvað svo fullkomið jafnvægi á milli þeirra allra. Hér á árum áður var ég hálf hrædd við Einar Örn. Hann var oft frekar andstyggilegur við mig þegar ég rakst á hann í partíum og ég ákaflega viðkvæmur unglingur undir pönkarabrynju minni. Ég var meira segja farin að hafa martraðir þar sem hann var eins konar skrímsli sem lagði mig viðstöðulaust í einelti og ég vaknaði kófsveitt og vonaði að ég myndi ekki rekast á hann í þessari litlu borg. (ég er löngu hætt að vera hrædd við Einar Örn og hafa martraðir með hann í aðalhlutverki:) Og í eldgamla daga þá fannst mér hann bara vera skemmdarverk í Sykurmolunum. En 17. nóvember þessa á þessum ógleymanlegu tónleikum þá fannst mér hann vera það sem stóð upp úr á tónleikunum. Alveg frábær skemmtikraftur og óendanlega meinhæðin komment sem runnu frá honum í stríðum straumum fengu ekki bara mig til að velltast um að hlátri. Um miðbik tónleikana var runnið á mig einskonar æði og langaði mig mest að hoppa sem óð væri eins og í gamla daga en það var ekki hægt vegna þrengsla. Eldri sonur minn (15 ára) var þarna ásamt vini hans sem átti líka afmæli 17ánda. Þeir voru ekki síður hrifnir af þessum tónleikum en ég. Þó Múm væri skemmtilega skringileg sveit, þá voru Rass bara flottastir. Alter egó Ótt(arrrrrs) er eins og teiknimyndapersóna úr einhverri súrealískri japanskri teiknimynd og hrá og einföld lögin algerlega fullkomlega fyndin en þó ekki. Það eina sem ég get sett út á tónleikana voru þessi löngu hlé á milli atriða. Ég var gjörsamlega ónýt í fótum og baki að standa svona hreyfingarlaus í þvögunni. En ég vildi ekki missa hina fullkomnu staðsetningu við miðju nálægt sviðinu og varð því að standa eins og þvara. Þoli ekki að sitja á tónleikum og það eina sem bjargaði mér var að geta hoppað smá þegar Sykurmolarnir spiluðu. Enda útlendingarnir allt um kring líka að hoppa. Þá leið nálardofinn úr fótunum.

Hápunkturinn var svo Johnny Triump... og hinn ódauðlegi Luftgitar. Mjög glöð að N fékk að upplifa þetta. Ætla að gefa okkur plötuspilara í jólagjöf og draga svo allar gömlu plöturnar út úr geymslunni og hafa almennileg tónlistarjól. Á að eiga tvær Sykurmolaplötur. Ég er með alvarleg fráhvörf frá öllum gömlu plötunum mínum. Gaf reyndar flestar uppáhaldsplötur mínar í einhverju kasti þegar ég var um tvítugt til að sanna að ég væri ekki þræll efnislegra hluta (damm) ....

Ég hélt svo ræðu á leynifundi síðasta laugardag sem tókst ótrúlega vel að sögn þeirra sem hlýddu á og ég fékk að gefa til baka eitthvað af því sem mér hefur verið gefið.

Langþráður tími hjá tannlækni varð loks að veruleika. Já það eru með sanni forréttindi að fá að fara til tannlæknis enda óheyrilega dýrt og furðulegt að að tennur og munnur séu ekki hluti af líkamanum í almannatryggingarkerfinu.

Já fátt finnst mér skemmtilegra en að fara til tannlæknis og skil ekki fólk sem kvartar undan því. Hef reynt að fá Fríðu frænku til að setja spegil í loftið hjá sér en mér hefur enn ekki tekist að sannfæra hana..

Þá hitti ég og átti langa fundi með þýskri kvikmyndagerðakonu og byrjuðum við að vinna ljóðavídeó saman. Hún er fremur framúrstefnuleg og veit ég ekki hvernig þetta mun þróast en með okkur tókst ágætur vinskapur. Hún varð fyrir því óláni að stranda út á Gróttu, símalaus og illa klædd. Hún var þarna í kulda og roki orðin raddlaus og köllum um hjálp og hræddist mjög að verða úti. Loks heyrði einhver til hennar og lögreglan kom á bát og bjargaði henni úr sjálfheldunni. Hún var samt þakklát fyrir þessa upplifun og ætlar að nota hana sem skapandi drifkraft.

Ég lagði óhemju vinnu á mig að búa til slideshow fyrir earth first global warming daginn en veður var válynt og enginn mætti. Notum þetta vonandi síðar. Þá lagði ég líka mikla vinnu á mig að tímasetja slideshow og tónlist sem ég fékk hjá Jóa Eiríks fyrir nýhilshátíðar hlut minn, en tónlistin var sett í vitlaust kerfi og eitthvað klikkaði að setja myndasýninguna af stað um leið og tónlistina .... næst hef ég með mér hljóðmann .... eða konu.

En það var hellingur af öðrum upplifinum í nóvember sem ég vildi gjarnan tala um ... og bæti einu við en svo er ég hætt... þarf að fara að vinna í conversations with ghosts NÚNA eða hinn ítalski vinnifélagði minn mun senda mér voldug og lamandi hugskeyti frá ítalíu og gefa hana út alla í klessu.... ég las bókina Svavar Pétur og tuttugusta öldin eftir Hauk Má og hún heillaði mig nógu mikið til að ég las hana til enda. Er núna að lesa verðlaunabók frá því í fyrra og er skemmt...
ásamt því að lesa the teachings of don juan.... sem ég hef reyndar lesið áður en hún datt í fang mitt um daginn og þrábað um að verða endurlesin....

Ég nenni ekki að lesa þessa færslu yfir til að leita að innsláttarvillum eða málfarsvillum

enda er ég veik og því ætti mér að vera allt fyrirgefið sem ég skrifa...

bara eitt og svo ekki meir... bókin sem ég var að þýða fyrir sölku er ekki nýaldarvæmni og ekki nýaldartexti og ekki mjúk ... heldur vægarlaust heiðarleg... og ég hef hafið að særa út sníkjudýrin í huga mér....

25 nóvember 2006

Jæja

þá ætti hin þýðingin mín að vera komin út, en auðvitað þá bilaði eitthvað í prentsmiðjunni, saumavélin í rusli og kalla þarf til viðgerða erlendan sérfræðing.

Ég ætla að gefa nokkur eintök af dagbók kameljónsins í ókeypisbúðina á eftir og kaupa ekkert í dag. Svindlaði smá í gær og keypti heil ósköp af mat. Annars mæli ég ekki með því að keyra bíl þegar maður er með hita. Mér leið sem ég væri á einskonar ofskynjunarferðalagi þegar ég keyrði út á nes. Og ekki skánaði þessi upplifun þegar ég kom inn í Bónus og allt þetta jóla jóla dæmi blasti við. Ég hef reynt að leiða hjá mér þetta jóladæmi. Það er svo margt í sambandi við jólin sem fer svo hryllilega í taugarnar á mér. En ég ætla samt að baka haug af smákökum. En ekki með hita. Maður ætti ekki að búa til mat þegar maður er veikur. Bara borða epli og sælgæti og drekka te og kaffi og djús og vatn og malt.

Þetta finnst mér alger snilld


Nýhil kynnir: Hannes - Nóttin er blá, mamma

Hannes - Nóttin er blá, mamma er fyrsta bindi í einlægu meistaraverki
um einn umdeildasta hugmyndafræðing 20. aldarinnar, Hannes Hólmstein
Gissursson. Um er að ræða sannkallað stórvirki í íslenskri
bókmenntasögu sem varpar nýju og fróðlegu á manninn á bak við bláa
skjöldinn.

Bókin er 2 blaðsíður á lengd og aðeins til sölu í bókabúð Máls og
menningar á Laugavegi og Pennanum-Eymundsson í Austurstræti. Hún
kostar 99 kr. og rennur allur ágóði til Mæðrastyrksnefndar. Þess má
geta að bókin stökk beint í 9. sæti metsölulistans, eftir einungis
einn dag í sölu!

Óttar Martin Norðfjörð er ungur og metnaðarfullur rithöfundur. Þetta
er fyrsta ævisaga hans

Uppskeru

hátíð Sölku næsta miðvikudagskvöld í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan 20:00
Hér er dagskráin: Hvernig væri nú að þeir vinir og vandamenn sem þetta blogg lesa komi svo ég gleymi ekki hvernig þeir líta út vegna þess að ég hitti ykkur svo sjaldan :)

Enda líður tíminn hratt á gervihnattaöld.... hraðar sérhvern dag...


Kristín Ómars: Jólaljóð (4-5 mín.)

Helga Einars/ Vala: Njála (Jóhann Eiríks.) (8 mín.)

Valgeir Skagfjörð: Fyrst ég gat hætt ... (handbók) (8 mín.)

Fríða Ingvarsd.: Dætur hússins (þýdd skáldsaga)(8 mín.)

Steingrímur J. Sigf.: Við öll (8 mín.)

Tónlistaratriði: Valgeir Skagfjörð (5-8 mín.)

---------------------------------------------------------

Sigurður A. Magnússon: Garður guðsmóður (ferðabók)(10 mín.)

Birgitta Jónsd.: Lífsreglurnar fjórar (þýdd indjánaspeki)(8 mín.)

Pjetur Hafstein: Vökuborg og draums (ljóðabók)(5 mín.)

Kristian Guttesen: Brekkan (þýdd skáldsaga)(8 mín.)

Súsanna Svavarsd.: Rauðhettuklúbburinn (þýdd handbók)(8 mín.)

24 nóvember 2006

Takk takk
kæru sjálfstæðismenn fyrir að hafa valið Árna Johnsen sem ykkar mann á þing.

Frábært að fá mann með slíkt siðferðisþrek og heiðarleika að leiðarljósi til að annast fjársýslu ríkisins.

Mæli með því að þið berjist fyrir því að fá hann í embætti dómsmálaráðherra.

Skellið honum svo í embætti fangelsismálastjóra ef dómsmálaráðuneytið er ekki laust.

Nei sjaldan hefur maður séð aðra eins táknmynd heiðarleika og Árna.
.
Til hamingju með valið, svona er lýðræðið gott og réttlátt.
Árni greyið er aðeins fórnarlamb tæknilegra mistaka og kannski eilítillar græðgi. Freistingarnar líka þess eðlis að hvernig ætti nokkur lifandi maður að standast þær. Tælandi ókeypis timbur á kostnað sambræðra sinna.

En var það ekki einmitt hann Gísli Marteinn ofurkrútt sem sagði að við þurfum ekkert velferðarkerfi vegna þess að ríka fólkið aumkar sig yfir þá sem eiga bágt!!?? Kannski eru sjálfstæðismenn að aumka sig yfir aumingja vesalings Árna.

Lifi bananinn!

Hin

árlegu serial veikindi á heimilinu eru hafin. Allir búnir að vera veikir. Í gær fór ég til tannlæknis með hita. Mæli ekki með því ef það þarf að deifa. Annars þá var þetta súrealísk upplifun. Ég lá þarna í einskonar móki og inn kemur Fríða frænka sem hefur alla tíð verið uppáhalds tannlæknir minn. Eftir að hafa legið alein um stund á meðan deifingin byrjaði að virka og hlustað á veðurfregnir, Hallormstaður, suðsuðvestan tveir, hiti við frostmark og svo framvegis, komu þær stöllur inn og um leið hófst harmonikkuþáttur. Fríða fékk mikla löngun til að gera við mína skemmdu tönn dansandi. Ég í mínu hitamóki átti ekkert erfitt með að sjá hana fyrir mér í hröðum dansi með borinn taktfastann, gat ekki hlegið með gúmmíklút í munni og tunguna svo dofna að ég var smámælt í nokkra klukkutíma.

Það er undarleg tilfinning að hafa hita. Allt verður óáþreifanlegt og tíminn er stórfljót sem rennur inn og út úr draumheimum. Veit ekkert hvað er raunverulegt lengur. Væri alls ekki viss um tannlæknaheimsóknina nema vegna þess að skjannahvít fylling blasir við tungunni þegar ég snerti hana með tungubrodd.

21 nóvember 2006

1. desember

mun ég hefja hina nýju vinnu sem ég er mjög spennt fyrir og auðvitað kvíði ég líka fyrir því, alltaf stress að gera eitthvað nýtt. Ég er að fara að vinna á skrifstofu VG fram yfir kosningar. Held að þetta verði einhverjar þær mikilvægustu kosningar sem við höfum sem þjóð staðið frammi fyrir. Þar eð ef við viljum sporna við risaeðluskrímslinu sem virðist hafa komið fyrir áleggjum allstaðar um landið. Þar eð ef við viljum eiga eins og einn foss eftir sem er ekki stýrt af manna höndum og aðeins hleypt af fyrir ferðamenn.

Annars þá er margt sem á mér brennur. Finnst svo margt algerlega skakkt og skælt í þessu samfélagi og við íslendingar eins og börn að leik með skæri.

Ég vil ekki græna konu í gönguljósin, ég vil að öll vinna mín sé metin. Líka þetta sjálfsagða, sem aldrei telst til tekna.

Ég vil geta verið meira heima, mamman sem er heima þegar krakkarnir koma heim úr skólanum. Skil ekki af hverju fjarvinnsla hefur ekki rutt sér meira til rúms hérlendis. Ég gæti gert allt sem ég geri í vinnunni upp á Blaði hér heima.

Hnífurinn stendur í yfirmannskúnni. Þeir óttast að maður vinni ekki alla tímana, en vinna er afköst ekki klukkustundir. Og ég afkasta miklu meira heima en þar. Enginn samtöl, bara ég og hlý tölvan mín og almennilegt kaffi.

Ekki

dauð, ekki löt, aðeins hin fullkomna afsökun að gera ekkert.

"harmakvein nútímamannsins: það er svo mikið að gera hjá mér"

Hvað er það eiginlega? hvað er þetta mikla að gera?!

Það má segja að maður sé einskonar þræll offramboðs af afþreyingu og munaði.

Ég held að þrátt fyrir ýmsa skemmtun undanfarið, sem með sanni var mjög skemmtileg þá hafi það að moka snjó sem ég gerði í gær í klukkutíma verið toppurinn á tilverunni undanfarnar vikur.

08 nóvember 2006

Delphin

átti afmæli í gær. Orðin sex ára. Ótrúlegt hvað tíminn er bæði hægur og hraður. (klisja en satt) Ég er svo óendanlega heppin með hvað ég á frábæra krakka. Í gærmorgun(n) gaf ég Delphin hljómborð og hann hoppaði og skoppaði af gleði en var samt alveg til í að eiga það með mér og Neptúnusi. Verð að viðurkenna að ég mun sennilega nota það meira en þeir báðir. Það er nefnilega kennslaforrit í því og ég hef alla tíð dreymt um að kunna að spila á píanó. Svo er alls ekki leiðinlegt að búa til tónlist, hávaða og prófa alla þessa girnilegu takka.

Eftir að við tókum upp pakka og svoleiðis neyddist ég til að fara til vinnu en Neptúnus sótti afmælisbarnið í skólann. Hann hafði búið til ratleik fyrir litla bróður sinn og eytt óhemjumiklum tíma og hugarflugi í það. En ratleikurinn færði Delphin gamlan glanspókemonkarl sem hann ágirntist mjög. Ég kom svo heim rétt fyrir átta og bjó til óskamat fyrir hr D, ala pítu og síðan var snæddur ís og horft á tvo fyrstu futurama þættina.

Eins og

sjá má í fréttatilkynningunni frá Nýhil þá mun ég hljómorða á hátíðinni um helgina. Veit ekki hvort kvöldið ég ætla að skapa draugagang en held að það verði á laugardagskvöld. Ég hlakka til að upplifa hin stórfurðulegu erlendu skáld sem án efa munu hafa áhrif. Ég er nú einu einu sinni kameljón.

Ég ætla að lesa úr Samtölum við Drauga með draugalegri tónlist eftir product 8 sem jafnvel fær mig til að fá gæsahúð ef ég spila hana hátt.

Kannski ef ég finn tíma mun ég varpa draugum af netinu á mig meðan ég hljómorða.

Nýhil kynnir: Nú fyrst riðlast líf ykkar!

Um komandi helgi verður alþjóðleg ljóðahátíð Nýhils haldin í annað sinn og verður ekkert til sparað að gera dásemdirnar sem fyllstar ofsa og ást. Færustu sérfræðingar Nýhils í alþjóðlegri og innlendri ljóðlist hafa lagt nótt við nýtan dag síðastliðinn misseri og sett saman allra mögnuðustu mögulega ljóðadagskrá og verður blásið til sannkallaðs ljóðasvalls föstudaginn 10. nóvember næstkomandi og stendur orgían yfir fram á sunnudagsmorgun. Dásemdirnar verða slíkar að andans menn og konur munu froðufella höfuðstöfum og svitna stuðlum langt fram eftir næsta ári, krafturinn slíkur að orð munu ríma sjálfkrafa hvert við annað og allir læsir menn munu falla í stafi, orð, setningar, erindi, kvæði, heilu bálkana!

Hátíðin verður haldin í Stúdentakjallaranum og í Norræna húsinu. Dagskrá er eftirfarandi:

Föstudagur 10. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý
Laugardagur 11. nóvember - Norræna húsið kl. 12.00-15.00 Málþing um samtímatilraunaljóðlist
Laugardagur 11. nóvember - Norrænahúsið kl. 16.00-18.00 Ljóðaupplestur
Laugardagur 11. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý

Erlendir þátttakendur eru að þessu sinni þau Kenneth Goldsmith, Matti Pentikäinen, Leevi Lehto, Anna Hallberg, Jörgen Gassilewski, Derek Beaulieu, Jesse Ball, Christian Bök, Katie Degentesh, Gunnar Wærness og Jane Thompson. Frekari upplýsingar um erlendu þátttakendurna má finna í viðhengi.

Auk hinna erlendu gesta, sem að þessu sinni eru helmingi fleiri en síðast, eru fjölmargir Íslendingar, og má þar helst nefna: Þórdís Björnsdóttir, Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir, Óttar Martin Norðfjörð, Ingibjörg Magnadóttir, Valur Brynjar Antonsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Ófeigur Sigurðsson, Haukur Már Helgason, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, Bjarni Klemenz, Birgitta Jónsdóttir, Kabarettinn Músífölsk , Stórsveit Áræðis, Donna Mess, Berglind Ágústsdóttir, Reykjavík!, og Skakkamanage.