Las upp í Vin sem er athvarf fyrir geðraskaða þann tuttugasta. Hef ekki komið þarna áður, mjög fallegt athvarf og ég skemmti mér vel við spjall og laufabrauðaát. Ég ákvað að gefa Vin 20 eintök af Dagbók kameljónsins, ég deildi þeim svo út eins og jólasveinn. (Finnst að við ættum að bæta við einum jólasveini sem gæti heiti Bókarýnir eða Bókahrellir eða Bókaormur.)
Allavega þá fannst mér frábært að fá að lesa upp fyrir fólkið þarna og að spjalla bæði við gesti og starfsmenn. Það er mjög ánægjulegt að svona staðir finnist fyrir fólk með geðraskanir. Held að Bóbó frændi hefði haft mjög gaman af því að kíkja á svona stað og jafnvel Valdi afi líka. Fordómar gagnvart geðveiku fólki eru enn til staðar en það er ekki eins áberandi og áður.
Jæja það er best að halda áfram að gera piparkökulistaverk: set myndir inn í dag af listaverkunum. Mér er að takast að gera ljótustu skrímslakökurnar að litríkum abstraktlistaverkum. Það verður gaman að éta ódauðleg listaverkin, þessi gjörningur minnir mig á sandmandölur.
Og eitt enn, ég ætla eftir jól að gerast bókadraugur og skilja dagbókina eftir víða um borg handa fólki að lesa. Ég gerði svipað fyrir 10 árum eða svo þegar ég var orðin dauðleið á að halda málverkasýningar. Ég þvældist um nágrenni mitt og skildi málverk eftir í umhverfinu. Ég kallaði þetta ruslatunnusýningu en oftar en ekki skildi ég málverkin við ruslatunnur eða upp á kirkjugarðgirðingum.
Og enn eitt enn sem ekki má gleymast: Ég er að fara til Suður-Ameríku: Granadaskáldahátíð í febrúar: fékk loks að vita að ég hef fengið styrk og þá get ég leikið Sendiherra Íslands á framandi slóðum í enn eitt skiptið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli