11 desember 2006

Helgin

þessi var alger fjölskyldu og vina helgi. Ég held að ég verði heimakærari sem árin líða. Nenni ekki að fara neitt út á skemmtanir í desember vegna offramboðs. Fæ hræðilegan valkvíða og enda með að fara bara snemma upp í stóra mjúka rúmið mitt með Ísidór ísbjörn mér við hlið og eldgamlar jólabækur. Þá eru dökkar súkkulaðirúsínur aldrei langt undan og fátt notalegra en að sofna útfrá einhverri bók. Er að ljúka við Gunnlaðarsögu. Mér finnst hún frábær en samt fullvæmin á köflum. Ég ætla ekki að kaupa neinar jólabækur í ár. Bíð eftir að þær bækur sem mér ber að lesa í þessu lífi detti í fang mitt eins og þær gjarnan gera. Ég kaupi aldrei neitt dót, nema kannski prentara og ristavélar en samt sogast að mér dót úr öllum áttum og bækur, ég held að innra með mér búa lítið dýr sem heiti bókasegull og hann hefur einstakt lag á að soga til síns alls konar furðulegar bækur sem flögra inn um bréfalúguna mína. Verð reyndar að viðurkenna að ég er að safna bókum eftir Alan Moore (v for vendetta gaurinn) og Sacco og fleiri teiknimyndasöguhöfunda (graphic novel) og kaupi þær gjarnan á amazon, svo er líka verið að safna jack vance en hans bækur kaupi ég notaðar í gegnum amazon marketplace. Þær eru aðallega fyrir herra N, en ég dett í þær líka þegar ég hef nægan tíma. Enginn höfundur með eins ótrúlega mikinn og undarlegan orðaforða og vance.

Ég hreinlega elska að versla á netinu. Ég á bágt með að pína mig til að ráfa um verslanir, verð svo utan við mig að skyndilega er ég búin að kaupa eitthvað allt annað en ég ætlaði að kaupa og ráfa um í óráði uns ég finn leiðina heim. Held að það sé lyftutónlistin sem geri mér þetta. Hún er svo hryllileg að maður verður að loka á öll skynfæri.

Bakaði eðal döðluköku fyrir herra N sem heppnaðist afar vel. Ég er búin að vera að ýta því undan mér í meira en mánuð að baka hana og svo var þetta ekkert mál. Merkilegt þetta fyrirbæri sem heitir að mikla fyrir sér hlutina. AKA að gera úlfalda úr mýflugu. Ég er rosalega góð í þessari íþrótt. Þarna er kannski minn fyrsti möguleiki á að vinna mér inn meistaratitil í einhverju.

Engin ummæli: