10 desember 2006

Þetta er besti


vefurinn sem ég hef fundið til að gleða aðra í verki með jólagjöf sem er þrunginn góðum fyrirheitum og afleiðingum. Kíkið endilega í vefverslun the Hungersite. Ég keypti handa ótilgreindum ættingja þetta. Ég ætla að gefa sjálfri mér þetta. Það sem er notalegt við þessa búð er að í hvert skipti sem þú verslar þarna ertu að gefa mat. Þessi vefur er fyrsti vefurinn sem naut mikilla vinsælda með kerfinu one click a day. Þá smellti maður á hnapp og gaf bolla af mat fyrir hvern smell. Núna eru þeir komnir með allskonar aðra möguleika eins og styrkja konur til að fara í mamogram til að leita að brjóstakrabbameini og gefa skólabörnum bækur í löndum þar sem fátækt er mikil.

Ég fæ annars alltaf algert óbragð í munninn yfir öllu þessu jólafári. Ég neyddist til að fara í Smáralind í gær vegna þess að yngri syni mínum var boðið í afmæli þar. Ég var stödd í Hagkaup á meðan að versla föt á drenginn enda vex hann sem baunaspíra og allt í einu byrja Nylon að syngja. Ég vissi ekki hvert ég gæti flúið en skaut mér út hið fyrsta. Og svona var þetta allsstaðar í Smáraland. Það átti að fá mig til að standa í bókabúðum og trufla fólk við innkaup með því að lesa upp úr bókinni sem ég var að þýða og ég hreinlega gat ekki fengið mig til þess.

Ég er reyndar svo skringileg að ég reyni að hafa jól á hverjum degi. Hver dagur gæti svo sem verið síðasti dagurinn á lífi. Ég nenni ekki að stressa mig á þessum árstíma. Ég nenni ekki að setja einhverjar himinháar væntingar um að þetta eigi að vera mest spes dagur ársins. Ég nenni ekki að borða á mig gat út af því að núna er desember og ég nenni ekki að taka þátt í þessu bulli. Aðal ríkidæmið í kringum jólin er tíminn sem maður fær til að njóta með sínum nánustu, þó ár og dagur sé síðan manni tókst að smala öllum saman, enda skilja haf og heimar alltaf einhverja frá.

2 ummæli:

Uppglenningur sagði...

Ég kannast við þetta að halda jól á hverjum degi. Ég hef nefnilega reynt að gera það sjálfur. Að sama skapi fæ ég alveg nóg af stóru jólunum sem hinir halda og reyni að leiða þau hjá mér sem er reyndar ansi erfitt.

Einar

Birgitta Jónsdóttir sagði...

Það er nánast ómögulegt að hrista stóru jól af sér enda verður manni nánast flökurt af öllu auglýsingaæðinu og tilburðum kókakóla að eigna sér jólin með sínum feita jólasveini í dragfötunum.