30 janúar 2006

Svona

leið mér á föstudaginn þegar ég fékk stóra nei umslagið...

þegar ég verð reið þá verð ég græn og stór og arka um og smass krass spalsh

hef lært að halda mig innandyra, eða fara upp til fjalla þegar ég hamskiptist í bræðisköstum í fröken Hlunku

28 janúar 2006

helv...

ritlaunin... skil ekki alveg skipulagið við að veita þau. fékk ritlaun þegar fyrsta ljóðabókin mín kom út og síðan ekki sögunni meir. skildi að það væri erfitt fyrir nefndina að veita mér ritlaun þegar ég var ekki beint að fara hefðbundnar leiðir í útgáfu. merkilegt nokk þá hafa þessar óhefðbundnu leiðir opnað allskonar dyr erlendis og ég hef aldrei haft eins marga lesendur að ljóðunum mínum eins og í netheimum. ég hef uppskorið það að vera hluti af hinu alþjóðlega samfélagi skálda og tekið þátt í nýsköpun með þeim, hef verið talin vera frumkvöðull í að koma listum á netið og allt það. ástæðan fyrir því að ég er pirruð út í úthlutunarnefndina er einfaldlega vegna þess að ég hef farið eftir öllum hefðbundnum leiðum og samt er það ekki nóg. ég hef sótt um styrk til að klára dagbók kameljónsins í meira en tíu ár og alltaf fengið nei. á endanum náði ég loksins að klára bókina og koma henni út og bókin hefur fengið mjög góða umfjöllun og dóma en það er ekki nóg. hvað þarf maður að gera til að fá styrk til að geta sinnt ritstörfum?? enginn virðist vita eftir hvaða vinnureglum nefndarmenn og konur vinna. sumir segja að maður verði að fá bók útgefna hjá forlagi, ég veit að það er ekki rétt. aðrir segja að þetta sé klíka, ég veit ekkert um það. ég veit um fullt af skáldum sem svo sannarlega áttu að fá rými til að geta unnið að ritstörfum í ár. ég hef svo sem helling að hugmyndum um hvernig ég myndi vilja sjá þetta kerfi uppfært þannig að fleiri kæmust að. ætla ekki að reifa það hér og nú, vil fyrst skrifa drög að þessum tillögum og reyna að fá rithöfundasambandið til að efna til umræðna um þetta fyrirkomulag og sjá hvort að það séu fleiri sem vilja sjá breytingar á núverandi kerfi. ég veit það allavega að þegar sjóðurinn var stofnaður þá voru vinnureglurnar nokkuð skýrar en þær eru ekki þær sömu nú og þá. ég spjallaði um þetta við Jón frá Pálmholti stuttu áður en hann dó en hann var ein af þeim manneskjum sem að komu að því að undirbúa þetta opinbera styrkjakerfi til rithöfunda. ég held að aðalvandamál sjóðsins sé einfaldlega ekki nægilegt fjármagn. ég kalla allavega eftir umræðu og tillögum að betra kerfi og að þeir sem eru ósáttir hætti að kvarta og geri eitthvað í þessu í stað þess að tuða....

25 janúar 2006

nikótín vörur

eru í raun og veru algerlega fáránlegar. til hvers að hætta að reykja en halda áfram að vera nikótín fíkill. ég veit um fólk sem hefur hætt að reykja en notar meira nikótín með allskonar plástrum og tyggjói og pillum og pennum sem eru seld á okurverði í lyfjaverslunum landsins. var að lesa í gær á mjög ganglegum andreykingavef um hinar líkamlegu orsakir og afleiðingar nikótíns. mjög áhugavert og gagnlegt fyrir mig. þar kom einmitt fram að það sé gjörsamlega tilgangslaust að halda að maður geti haldið niðri nikótín fíkn og þar af leiðandi fíkninni í að reykja með því að nota nikótín vörur. maður getur alveg eins bara haldið áfram að reykja út af því að langflestir sem nota svona vörur enda með því að kveika sér aftur í sígarettu og þá er maður fallinn, fallinn og þarf að byrja upp á nýtt á öllum heila pakkanum.
fór á doktor.is til að leita mér að upplýsingum hve lengi fráhvarfeinkennin vara og fann ekkert en ég fann eitthvað sjálfspróf um hve mikill fíkill maður er. og já það kom svo sem ekkert á óvart að maður er á hæstu skölum, það sem fór samt alveg hræðilega í taugarnar á mér er að þegar niðurstöður prófsins voru fengnar og manni ráðlegt hvernig hætta skildi, þá var þetta blygðunarlaus auglýsing frá einhverjum nikótín framleiðanda.

en hér er slóðin að WhyQuit, mjög mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir þá sem vilja hætta og þá sem eru hættir. það hjálpaði mér mjög mikið að skilja hvaða áhrif nikótín hafa á líkamann. það tekur um tvær vikur að losna við nikótínið úr kerfinu eftir það eru allar langanir eingöngu félagslegar.

23 janúar 2006

Samkvæmt

breskum vísindamanni er dagurinn í dag ömurlegasti dagur ársins...

þegar ég var í heimavistarskóla á Núpi þá stofnuðum við hinn alþjóðlega fýludag, þá var bannað að brosa eða sýna á sér nokkra kátínu; kannski væri hægt að sameina þessa tvo merkisdaga

þegar ég hætti að reykja

þá er ég eirðarlaus, fór tildæmis að sauma nýtt fóður inn í kápuna mína: í höndunum auðvitað er þetta allt skakkt og skælt og ég þarf að gera þetta allt aftur...

svo fæ ég sjúklega löngun til að labba, en veðurfarið er ákaflega labb fjandsamlegt, nenni eiginlega ekki að skríða á klakanum á móti vindinum, kannski ef ég ætti almennilegar buxur...

þegar ég hætti að reykja þá langar mig að gera eitthvað alveg nýtt, eins og tildæmis að fara í fallhlífarstökk eða fá mér kafarabúning, andstyggilegt hvað allt svona nýtt er alltaf dýrt...

þegar það er svona veður þá dreymir mig um eyðimörk, stórar kóngulær og skröltorma, brött og slétt fjöll og stóra brennandi sól, kaktusa og mjúkan heitan sand á milli tánna

21 janúar 2006

Hætti

að reykja, drap í síðasta stubbinum í stóru ólívukrukkunni klukkan 21:21 á fimmtudagskvöldið úti á svölunum mínum, og auðvitað eins og allir fíklar er ég með það á heilanum að ég sé hætt. Skil ekki af hverju sumir eru svona miklir fíklar í nikótín eins og ég og aðrir geta bara reykt þegar þeim sýnist. Ég arkaði um alla borgina í gær með Neptúnusi, það var gaman, allt of langt síðan við höfum gert eitthvað saman. Fórum í Hljómalind og lásum adbusters. Ætli það sé kúl eða nördalegt?? Who cares. Í nótt svaf ég alls ekki vel. Var næstum farin út og kyrkja einhvern bílatöffara sem var alltaf að þenja bílinn sinn, og ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur gekk þetta svona út í hið óendanlega: alger monthani. Draumarnir mínir voru algerlega súrrealískir og ég svitnaði blásýru, skordýraeitri og nikótíni.
Annars þá er það svolítið fyndið hvað maður er mikill fíkill. Mynd: Birgitta vafin í gult flísteppi í svefnpokaúlpunni út á svölum í blindbyl klukkan sjö að morgni. Reykir hálfblauta sígarettu og hóstar en reykir meira. Þetta er náttúrulega fáránlegt. Hver gerir svona nema algerir fíklar. Af hverju fæ ég ekki almennilega meðferð við þessari fíkn minni sem á að vera eins erfið og heróín fíkn. Nei reynum að hafa meira fé af þessum nikótínþrælum og fáum þá til að ánetjast nikótíntyggjói sem er jafnvel dýrara en helvítis sígaretturnar. Ég vil betri þjónustu, ég vil að minnsta kosti jafn góða þjónustu og alkarnir og hana nú. Maður er jú að spara ríkinu helling af pening með því að spara sér lungnaþembu og krabbamein og hvað nú þetta allt heitir.

Það er allavega eitt frábært við það að hætta að reykja, tíminn líður alveg ótrúlega hægt.

20 janúar 2006

á einhvern

undarlegan hátt er ég allt í einu orðin ábyrg fyrir þremur bloggum, og ég sem er algerlega vonlaus bloggari. ég kann ekki að blogga pínulítið, þetta er svona svipað og með tölvupóstinn. innboxið alltaf troðfullt, ég er þó komin niður í 120 úr 200, en ég get alls ekki skrifað mjög stutta og hnitmiðaða tölvupósta. held að þetta sé vegna þess að einu sinni skrifaði ég sendibréf á pappír með góðum penna daglega. þessi bréf voru aldrei stutt. eyddi minnsta kosti tveimur tímum á dag í þessa iðju og svo dágóðum tíma í dagbókina, en þetta var auðvitað fyrir þann tíma að ég eignaðist börn. þá urðu dagbókarskrifin frekar stopul, er reyndar að finna út um allt hús hinar og þessar bækur með dagbókarfærslum sem ég kannast ekkert við að hafa skrifað, en það er ekki um að villast að þetta er mín rithönd. þá er ég alltaf að rekast á ljóð sem ég hef líka steingleymt að ég hafi skrifað.

ég er byrjuð að skrifa nýja skáldsögu, ég ætla ekkert að segja um hana nema: að þetta er hádramatísk dammddammrarasrm ástarsaga ritglaðs geðsjúklings og heitmeyjar hans: unnin upp úr 2000 tölvupóstum: og ekki orð um það meir
var búin að steingleyma að ég ætti þetta handrit, var byrjuð að vinni í þessu út á Nýja Sjálandi fyrir tveimur árum síðan. Virkar eins og heil öld, satt best að segja síðan ég bjó á löngu eyjunni á heimsenda.

Og merkilegt nokk, þá mætti hellingur af fólki á upplesturinn í Þorlákshöfn, og upplesturinn var í gamla félagsheimilu sem var líka íþróttahús sem nú er ráðhús og gamla húsið mitt gapti eineygt á mig á meðan ég las.
Bókasafnið nýja er miklu gjörvilegra en þegar ég var að alast upp þarna. Þetta var fínt kvöld, allir svo ólíkir sem lásu upp og enginn sem gleymdi sér og las allt of lengi.

19 janúar 2006

Upplestur á eftir í bókasafninu í Þorlákshöfn

Ég, Aðalsteinn Ásberg, Eyvindur P, Kristian Guttesen, Vilborg Dagbjarts og Þorsteinn frá Hamri munum keyra niður Þrengslin í gegnum móa og á hinum víðfræga Þorlákshafnarvegi til að lesa upp á eftir; orðaveislan byrjar klukkan 18:00...

Ég ólst upp í Þorlákshöfn, var þar frá því að ég var 4 til 12 ára og sögusviðið fyrir stóran hluta dagbókar kameljónsins er fengið þaðan. Þegar ég bjó þarna var þetta með sanni endaþarmur alheimsins. Ekkert nema sandur og sandfok og ógeðsleg peningalyktin. Þá var alger rottuplága þarna vegna þess að einhverjum snillingnum datt í hug að drepa alla villiketti þorpsins. Þeir gerðu reyndar atlögu að okkar köttum, en misheppnaðist. Og ekki má gleyma hamförunum sem áttu sér stað í þorpinu og fiskiflugufaraldrinum. Þorlákshöfn er fullkomið sögusvið fyrir svo margar sögur, allavega á þeim tíma sem ég bjó þar.

Það verður semsagt alveg ferlega furðulegt fyrir hlunkinn, gleraugnanördinn bókasafnsorminn sjálfan að lesa upp í sínu eigin sögusviði...

17 janúar 2006

Sannleikurinn í fjölmiðlum

er ekki alltaf það sem sýnist. Það gekk fram af mér eins og svo mörgum öðrum áherslurnar hjá DV og þeir eftirmálar sem þær áherslur á sannleikann sem þær höfðu. Ég verð samt að segja það að aðrir fjölmiðlar eru ekkert betri þegar það kemur að því að segja sannleikann. Því miður virðist almenningur halda að þær hliðar sem sýndar eru í fjölmiðlum og það sem telst fréttnæmt er mikilvægara en það sem þeim finnst eiga að hafa minna vægi í fréttum. Ég hef eiginlega verið hálf andvaka og andsetin af hugsunum vegna þessa. Ég tók eftir furðulegum áherslum í fréttaannál RÚV og þar var sannleikanum svo sannarlega hagrætt og um algera sögufölsun að ræða þegar kom að umfjöllun um mótmælendum kennda við Kárahnjúka í sumar. Var þar látið í veðri vaka að mótmælendurnir væru allir meira og minna stjórnlausir skemmdarverkamenn og að þeir hefðu endað sína mótmælaaðgerðir á Íslandi með því að úða slagorð á Jón okkar Sigurðsson og alþingishúsið. Þó þykir ekki sannað hverjir voru þar að verki við að úða þessa mætu staði sem reyndar voru hreinsaðir af slagorðum fyrir hádegi sama dag og þau sáust. (og ekkert var minnst á sætu aðgerðirnar, picknick við alþingi og karnival og upplýsingatjald og fræðslukvöld í Snarrót). Enginn af þessum stóra hópi mótmælenda sem voru í fjölmörgum tilfellum handteknir á ólögmætan hátt og látnir sitja fangageymslur í meira enn sólarhring í senn, hefur verið kærður. Þá hefur löggjafanum ekki verið stætt á öllum sínum hótunum um brottvísun frá lýðræðiseyjunni. Engum hefur verið brottvísað. Ekkert af þessu kom fram í þessum annál. Ekki heldur aðförinni að mótmælendum sem vakti almenna og réttláta reiði þjóðarinnar, þar sem fólki var veitt eftirför og njósnað var um fólk án nokkurrar sýnilegrar ástæðu nema að fólk hafði sagt að mótmælum yrði haldið áfram. Nei RÚV kaus að sýna einhliða mynd sem þjónaði yfirvaldinu okkar. Þetta er eina fréttaumfjöllunin sem ég þekki í kjölinn en ég hlýt að spyrja mig hve mikið af þessum fréttaannál var sérvalið og sannleikurinn niðurskorinn. Hvað mikið af þeim fréttum sem maður les eru réttar. Sá tildæmis á forsíðu Fréttablaðsins að Nick Cave hafi verið á tónleikum Hætta hópsins og Paul hjá Grapevine heldur hinu sama fram. Voru þessir blaðamenn yfirhöfuð á tónleikunum, vegna þess að enginn sem á tónleikunum var eða skipuleggjendur kannast neitt við að Nick Cave hafi verið þar. Ég var líka á öðrum tónleikum og sá seinna í Fréttablaðinu frétt um þessa tónleika með Rocco nokkrum að söngkonan Beth hafi verið gítarleikari Rocco, en hún kom fram ein og hafði ekkert með hljómsveit Rocco að gera. Þá hef ég tekið eftir því að blaðið Grapevine er fullt af staðreyndavillum sem snúa að mótmælendum kennda við Kárahnjúka. Þessar staðreyndavillur eru svo margar að ég nenni ekki að týna þær allar til, ég rakst á ritstjóra þessa blaðs á tónleikum í Laugardalshöll, hann fræddi mig á því að verið væri að gera úttekt á mótmælum gegn stóriðju og virkjanaframkvæmdum, ég bauð honum að hafa samband við lögfræðing okkar eða mig sjálfa til að fá réttar upplýsingar. En auðvitað var það ekki gert, enda hafa þeir haft horn í síðu okkar síðan í sumar. Þegar ég rakst á staðreyndarvillur í netfjölmiðlum í sumar þá reyndi ég eftir fremsta megni að benda kurteisilega á þær, en Paul á Grapevine hunsaði allar þær leiðréttingar og heldur því samt fram að enginn úr hópnum vilji við hann tala. (þar er hann að vitna í Paul nokkurn Gill sem vildi ekki tala við hann og því hefur hann sett okkur öll undir sama hatt). Aftur á móti stóð ekki á mbl.is að leiðrétta augljósar villur, merkilegt nokk. Það er sorglegt þegar fjölmiðlar neita að leiðrétta það sem þeir augljóslega hafa rangt eftir. Og DV hefur svo sannarlega fengið það óþvegið þegar kemur að því, það sem ég vil bara segja að allir hinir fjölmiðlarnir gera þetta líka. Vandvirkni virðist vera á undanhaldi í blaðamennsku og því er miður. Stundum sér maður þvílíkt bull í fjölmiðlum að það ætti frekar heima í sýndarveruleika en raunveruleika.

Og það má alls ekki gleymast að sannleikurinn er ekki til. Ha, jú tja, enginn sér sama hlutinn á sama hátt, hef aldrei hitt manneskju sem að sér í huga sér nákvæmlega eins borð og ég. Hef aldrei hitt neinn sem ég er alveg sannfærð um að skilji nákvæmlega það sem ég er að segja, tungumálið er vírus eins og Burroughs hélt fram og svo er nú það. Ekkert nema einn stór misskilningur og ekki reyna að halda að það sé einhver sannleikur í því, eða lygi ef því ber að skipta.

10 janúar 2006

Að gera helst ekki neitt


er alls ekki dyggð sem mér er eðlislæg. Gerði heiðarlega tilraun til þess á milli jóla og nýárs og tókst bara nokkuð vel til. Las Yosoy eftir Guðrúnu Evu, alveg frábær bók, í topp 10 yfir bestu bækur sem ég hef lesið á Íslensku. Verð þó að viðurkenna að ég datt í teiknimyndasögur ala graphic novels um jólin, fékk fyrir seríu sem heitir Fables eftir Bill Willingham, ég og Neptúnus söfnum nokkrum seríum saman og er þessi okkar uppáhalds. Ég er líka að leita mér ramma til að vinna að teiknimynda graphic novelnum sem ég er búin að vera að vinna með theHand í rúmlega ár. Hann er mikið upptekinn og ég líka þannig að starfið hefur verið nokkuð gloppótt, en afar ögrandi. Við höfum aldrei hist í hinum raunverulega heimi en gert heilmikið saman í sköpunarheimum. Mjög gaman að vinna með honum. Alger ítali með mikinn blóðhita gagnvart því sem hann gerir. Gaman að vinna með svona ólgandi mannfólki. Ég þurfti náttúrulega að gera ýmislegt fyrir savingiceland vegna ertu að verða náttúrlaus tónleika í höllinni. Er mjög ánægð með kortið sem ég hannaði. Annars þá hef ég verið óvenju dugleg að vísa verkefnum frá mér. Þannig að ég var ekki að drepast úr stress adrenalíni fyrir tónleikana.

Núna þarf ég að þýða smá fyrir the Hand og koma savingiceland bókinni saman, þetta var nú einu sinni mitt hugarfóstur og mér sýnist best að gerast einræðisfrauka og bara ráðast á þetta verkefni með ástríðuþunga ala the Hand.

Tónleikarnir í höllinni voru frábærir, var reyndar ekki alveg sammála þessu dæmi að ekki mætti segja neitt um af hverju þessir tónleikar væri í hljóðnema og saknaði þess að tónlistarmennirnir tjáðu huga sinn, þó ekki væri nema með einföldum slagorðum eins og ekki meiri stóriðju eða ekki gera ekki neitt. Hetjur kvöldsins í þessu ljósi voru Ghostdigital og Damon Albarn. Ál lagið var frábært....

Ég fann nafnið mitt í undarlegri upptalningu hjá Fréttablaðinu um helgina. Þeir sem munu hljóta náð á komandi ári eða eitthvað svoleiðis... það kitlaði nú egóið pínu pons. Já ekki amalegt að vera ung og upprennandi svona á gamals aldri. Nei satt best að segja fannst mér þetta bara ágætt, sparkaði í afturendann á mér varðandi að gera upp við mig hvað ég ætla að gera á árinu varðandi ritstörf. Er með allt of margar hálf karaðar bækur í gangi ...
ætla að henda þeim öllum og gera eitthvað alveg nýtt.. orðin hundleið að vinna með fortíðardrauga, ....
og ljóðin og ljóðin sem ég þó elska mest eru bara ekki að hellast yfir mig, innblástur minn frekar furðulegt fyrirbæri og algerlega óútreiknanlegur. Að skrifa bók er meiri tækni en eintómur innblástur.