26 desember 2006

Jæja, mind over matter

svínvirkar fyrir mig. Ég fór í heitt bað í gær og kyrjaði innra með mér, mér líður frábærlega, ég er að springa úr orku. Ég er heil heilsu og bla bla bla. Ég var alveg hundveik fram að þeim tíma. Þegar ég svo var búin að setja saman eitt legó harry potter skip og eta heil ósköp að ýmsum berjum: þá var ég heil heilsu.

Aðfangadagur var svona hjá okkur: Við Neptúnus höfum komið okkur saman um það að matarhefðir okkar á jólunum einkennast af því að hafa aldrei sama matinn tvisvar. Við borðum ekkert með andlit: fisk, fugl, ferfætlinga ýmsa. Hann fékk að velja jólamatinn í ár og vildi endilega lasagna. Því útbjó ég slíkt með nokkrum lúxustilbrigðum. Þistilhjörtu og skringilegir sveppir, allskonar ristuð fræ og aspassósa. Ég hafði ferskt salat með þessu og svo prófuðum við að eta laufabrauð með í stað hvítlauksbrauðs. Það var eins og Delphin segir það geggjað gott. Fyrr um daginn rauk ég út að ná síðustu jólagjöfinni í hús. Bol fyrir Neptúnus sem á stendur "bankanum þínum er sama um þig". Gerði vöruskipti við Sigga Pönk, hann fékk bók og ég fékk bol. Þá kom dóttir mín til okkar rétt fyrir tvö og við rukum út á Jazzinum að ná í ættarhöfðingjann: hana ömmu í rútuna.

Keyrðum hana á áfangastað og krakkarnir léku sér við hvolpinn Kóp og ég færði Grétu frænku langþráð málverk eftir mig. Hún var mjög ánægð með málverkið sem ég valdi að gefa henni. Svo kom bróðir minn og við vorum í eitt andartak næstum öll á einum stað.
Svo brunaði ég heim með krakkafjöld og við tókum upp gjafir frá dóttur minni og hún tók upp gjafir frá okkur og okkar hlið fjölskyldunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er hjá okkur á aðfangadag og það var mjög sérstök tilfinning. Hún var alsæl með gjafirnar og við líka og svo þurfti ég að bruna með hana á hitt heimilið um fjögur. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa hana þó eitthvað hjá mér, þegar hún bjó erlendis þá var það svona happa og glappa hvenær og hvernig við myndum hittast.

Þá var að klára tiltekt og byrja að elda matinn: við vorum klukkutíma of sein að borða sem var allt í lagi. Strákarnir fengu allt það sem þá dreymdi um og gott betur: og ég fékk líka allt sem mig langaði í, fékk Draumaeyjuna til að leika með mér frá strákunum og Sendiherrann til að lesa. Fórum í smá singstar og töluðum við ættingja í síma og svo man ég ekki meira vegna þess að jólaflensan tók yfir.

En allavega þá er ekki hægt að ná þeim anda sem hér ríkti með orðum. Það var eitthvað friðsælt, eitthvað kátt, eitthvað rólegt, eitthvað æst, jú nú veit ég :himnaríki á jörð: Gleðilegt nýtt ár:)

Blogga ekki aftur fyrr en á nýju ári.... ætla í dag að finna foss ef ég mögulega get og skreyta fleiri piparkökur með marsipan og óhollum litum.

Engin ummæli: