Upplestur sjálfrar mín tókst alveg ótrúlega vel upp, hefði mátt heyra saumnál detta, þó svo að ég væri næst síðust á frekar langri dagskrá. Sum brot bókarinnar virka miklu betur en aðrir til upplesturs og ég er svona hægt og sígandi að skilja hvaða kaflar það eru. Það er alveg ótrúlega erfitt að finna réttu brotin til að lesa hverju sinni.
Rúsínan í pylsuendanum á kvöldinu í gær voru svo albestu tónleikar MegaSukk sem ég hef farið á, og ég hef ekki séð þá ósjaldan. Það var búið að tvíbóka Þjóðleikhúskjallarann þannig að þeir stigu á svið um leið og við höfðum látið orðin falla. Ég sat sem fastast á besta stað og lofaði bók í stað miða þegar skipuleggjandinn sagði bókapakkinu að drífa sig út ellegar verða rukkuð, var aldrei rukkuð þannig að þeir eiga þá bók inni hjá mér næst þegar ég rekst á einhvern þeirra.

Ég hafði séð MegaSukk spila hjá Mikka Pollock fyrir viku og var sannfærð um að þetta yrði ógleymanlegt. Eitthvað svo þéttir og vel æfðir, maður skildi meira að segja næstum 1/3 af öllum textum. Þeir voru með frábæra tónlistarmenn með sér þarna í gær og GodChrist kom svo óvænt eftir hlé og var ótrúlegur í sínum brjálaða gítarLeik og svipbrigðum. Nú verð ég að fara og finna plötuna þeirra og vonast svo til að sjá þá aftur félagana.
2 ummæli:
Já, ég þraukaði ekki lengur, hefði verið áfram ef ég hefði ekki verið búinn að sjá þig lesa upp áður, en þetta var of mikið af því vonda. Þórunn var þó ágæt í túlkun sinni á leikriti eftir Benóný.
þórunn var flott
Skrifa ummæli