09 desember 2005

Úr fyrsti dómurinn eftir hana Auði

Bókin er byggð á sönnum atburðum, að grunni til. Hún fjallar um sjálfsvíg, sem margir forðast að tala um, hvað þá lesa bók um þetta efni. Dauðann, sjálfseyðingarhvötina, hvernig aðstandendur taka út sitt sorgarferli. Sértaklega fjallar bókin um lífshlaup uppeldisdóttur mannsins sem tók sitt eigið líf, á aðfangadag. Bókin er öðruvísi heldur en ég bjóst við, bæði hvernig hún er sett upp og innihaldið. Hún er skrifuð í dagbókaformi, inn í hana fléttast líka ljóð, draumar, ljósmyndir og teikningar. Hún er sorgleg en það er líka oft á tíðum sem ég brosti örlítið. Oftar komu þó tár í hvarma mína en svo tekst höfundi að koma inn mörgu skemmtilegu, án þess þó að gera lítið úr þessum efnivið.

Aðalpersónan er stúlka sem skrifar dagbókina.

Þegar kom í ljós að uppeldisfaðir hennar hafði framið sjálfsmorð. Bls. 11. „ Næturnar eru langar. Reyni að finna tilgang með öllum sigrunum yfir kráku sársaukans. Styrkur. Í hlutverki kameljónsins ljóma eins og frelsandi engill meðan sál mín öskrar í hljóði í angist...Dreymi dauðann sem draumaprins á hvítum hesti...Gamlar minningar lykjast um mig.... “ Frábær hugmynd hjá höf. að nota kameljónið sem samlíkingu, það skiptir um ham eftir aðstæðum, alveg eins og stúlkan.

Lesandinn fær að fylgjast með stúlkunni vaxa og síðar dafna. Hún er ótrúlega þroskuð og sterkur karakter mjög ung. Þrátt fyrir vanlíðan sína hefur hún skap og getur oft á tíðum stjórnað því sem hún vill að nái fram að ganga, þess á milli er hún feimin, innilokuð, hefur ógeð á sjálfri sér og líkama sínum. Með miklu baráttuþreki og innri átökum, tekst henni að ná áttum. Hún finnur að minningarnar eru ekki lengur svartar í huga hennar, heldur marglit blóm. Eins og kemur fram á bls. 157. „Ég er meðvituð um að lífið muni aldrei hætta að gerast, en ég hef val um að láta þær byggja mig upp eða brjóta mig niður.” Hún er meðvituð um það einnig að hún þarf að treysta á sjálfa sig, ekki gera neinar væntingar til fólks eða til atburða sem munu henda hana.

Sagan er hreinskilin, listavel skrifuð, höf. hefur mjög gott vald á íslenskri tungu, kafar djúpt niður og tekst að kalla fram ýmsar tilfinningar. Maður sér á stundum þetta svo ljóslifandi fyrir sér. Ljóðin eru gullfalleg. Bókin er margslungin og vekur mann til umhugsunar um lífið og tilveruna.

Ég tel tvímælalaust að þessi bók sé holl og góð lesning fyrir alla, þó að þeir hafi ekki orðið fyrir þessari lífsreynslu. Þessi bók snart mig svo sannarleg.


Stjörnur 3 af 5
©Auður, http://www.rithringurinn.is

Engin ummæli: