17 desember 2005

Í RÚV á eftir ...

les upp úr dagbókinni á Bókaþingi RÚV, kl: 16:10. Var í Víðsjá á fimmtudaginn, þann þátt ætti að vera hægt að hlusta á fljótlega. Held að það hafi verið fínt viðtal. Náði ekki að hlusta á það sjálf. Enda var fimmtudagurinn einn af þessum dögum þar sem tíminn er stórfljót í leysingum og ég var hinn klassíski íslendingur að gera allt á síðustu stundu. Ég var að senda einhver ljóð í samkeppni sem var á deadlæni 15ánda þó að ég hafi ekkert meira álit á samkeppni í orðum en fegurð, eða pólitík, já eru kosningar ekki einskonar fegurðarsamkeppni í skoðunum og stefnum. Hver er með fallegustu skoðunina, hver ber sig best og er skorinortur. En semsagt ég hafði ákveðið að brjóta odd af oflæti mínu og fínpússa nokkur nýleg ljóð fyrir stafinn hans Jóns úr Vör.. enda hefur mig alltaf langað að ganga við staf.

Svo þurfti ég að fara tvisvar upp í útvarp og í jólaboð Rithöfundasambandsins sem mér fannst skemmtilegt. Hitti alltaf fólk þar sem ég hitti annars sjaldan en hef mjög skemmtilegt að tala við.
Svo beint í Alþjóðahúsið þar sem ég stóð fyrir SjálfsElskuKvöldi Kameljónsins... ég var mjög ánægð með það. Meira um það á eftir eða á morgunn... hef alls ekki nógu margar útgáfur af sjálfri mér...

Engin ummæli: