Engin mörk á milli listgreina
Hávar Sigurjónsson
Má ég gefa þér dagbókina mína," sagði Birgitta Jónsdóttir rithöfundur við starfsfélaga sinn á dögunum og segir hann hafa fölnað.
Má ég gefa þér dagbókina mína," sagði Birgitta Jónsdóttir rithöfundur við starfsfélaga sinn á dögunum og segir hann hafa fölnað. Þegar hún svo dró Dagbók kameljónsins upp úr tösku sinni og rétti honum með þeim orðum að þetta væri nýja skáldsagan hennar þá létti honum verulega.
Birgitta hefur verið nokkuð einstakt blóm í flóru íslenskra skálda og farið sínar eigin leiðir og stundum ótroðnar í sköpun sinni. Hún setti upp fyrstu vefsíðu íslensks skálds árið 1995 og hefur verið í fararbroddi þeirra sem yrkja á netinu, blogga og hefur komist í samband við skáld og rithöfunda um allan heim í gegnum netheima. Hún hefur þó gefið út einar 15 bækur af ýmsu tagi, mest smábækur, sem hún vinnur sjálf að mestu leyti og hliðargrein við skáldskapinn á undanförnum árum er útlitshönnun og kápuhönnun bóka annarra skálda. "Mér finnst þetta mjög skemmtileg vinna þar sem hún heldur mér í nánu sambandi við aðra rithöfunda en er um leið aðferð til að vinna fyrir salti í grautinn."
Dagbók kameljónsins er að hluta byggð á dagbókum Birgittu sjálfrar fram að tvítugu en eftir það segist hún lítið hafa ritað í dagbækur, "...kannski einu sinni á ári eða svo, eftir að ég eignaðist börn."
Birgitta gefur bókina út sjálf en bókaútgáfan Salka sér um dreifingu en Birgitta á allan heiður af útliti bókarinnar sem ber þess greinilega merki að nostrað hefur verið við hana og fléttast texti og myndvinnsla, umbrot og frágangur órjúfanlega saman svo lestur bókarinnar verður heildstæð upplifun þar sem eitt getur ekki án hins verið. "Margir sem lásu yfir fyrir mig hafa þó sagt að textinn standi alveg sjálfstæður en ég vildi hafa þetta svona, enda finnst mér að listgreinarnar eigi að renna hver inn í aðra, þar eiga engin mörk að vera."
Sagan sem sögð er í bókinni er saga stúlku, sem upplifir mikla þjáningu þegar faðir hennar fremur sjálfsvíg. "Hún týnir sjálfri sér og þetta er því lýsing á leit hennar að sjálfinu og til þess þarf hún að hverfa aftur til upphafsins, fæðingarinnar og síðan er sagan hennar sögð í minningarbrotum, ljóðum og hugleiðingum fram til þess að hún er þrettán, fjórtán ára gömul. Hún er kameljón vegna þess að hún tekur alltaf á sig yfirbragð umhverfisins, veit ekki hver hún sjálf er. Örugglega kannast einhverjir við þetta, að skipta t.d. alveg um skoðun af því að einhver segir eitthvað annað en manni hefur fundist fram að því."
"Ég þrái að vera hamingjulindin í lífi þeirra sem flögra inn um lífsgluggann minn, breiða mig eins og hlífðartjald um þau og galopna kviku hjarta míns. Ég vil vera allt sem þau þrá. Ég leik kameljón, fell inn í umhverfi þeirra og væntingar eins og stofuskraut í híbýlum sálna þeirra. Ég dirfist ekki að sýna minn rétta lit. Ég er hrædd um að þeim geðjist ekki að því sem þau sjá. Ég óttast kannski mest að verða yfirgefin."
Texti Birgittu er á víxl raunsær og draumkenndur, stundum lýsir hún draumum sínum og í annan stað verður hún rómantísk og viðkvæm.
"Ég hef alltaf verið hrifin af aðferð súrrealistanna, þar sem undirmeðvitundin fær að ráða og ég skrifa þannig að allt fær að flæða óheft fram og síðan fer ég yfir það síðar. Ég vildi líka hafa texta bókarinnar þannig að hann væri aðgengilegur sem flestum, bæði ungum lesendum af þeirri kynslóð sem vill stutta texta og myndrænar útfærslur og svo líka þeim eldri og bókmenntalegar sinnuðum sem gera aðrar kröfur um mál og stíl. Ég fékk margt og ólíkt fólk til að lesa yfir bókina í handriti en hún hefur verið mjög lengi í vinnslu hjá mér og er núna loksins orðin eins og ég vil hafa hana."
Birgitta segir að sjálfsvíg föður hennar hafi haft gríðarlega mikil áhrif á hana og sé í vissum skilningi þungamiðja bókarinnar. "Þetta er ekki sjálfshjálparbók fyrir fórnarlömb sjálfsvíga en sýnir þó hvernig hægt er að breyta svona hræðilega neikvæðri reynslu í jákvæða afstöðu til lífsins og ég hef fundið fyrir því að þetta er það sem fólk vill helst spyrja um og ræða við mig þegar ég hef verið að lesa upp úr bókinni á undanförnum vikum. Eitt af því sem erfitt er að tala um er reiðin í garð þess sem hefur framið sjálfsvíg, fólk gengur kannski með slíka reiði í mörg ár og fær hvergi útrás fyrir hana. Með því að horfa á sjálfsvíg sem sjúkdóm, tímabundna sinnisveiki, þá hefur mér tekist að sættast við föður minn og þessi sátt er eitt af því sem bókin fjallar um."
Birgitta hefur á undanförnum árum staðið fyrir ótal uppákomum tengdum ljóðalestri og gjörningum og gjarnan tengt saman fleiri listgreinar, myndlist, tónlist og skáldskap. "Þetta er eiginlega allt sprottið af eigingirni," segir hún. "Mér finnst sjálfri svo gaman að lesa upp ljóðin mín. Og til þess að fá tækifæri til þess hef ég skipulagt uppákomur og fengið fleiri skáld og listamenn með mér. En á fimmtudagskvöldið 15. desember í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu ætla ég í fyrsta sinn að lesa upp ein úr bókinni minni og hafa með mér Hjörleif Valsson fiðluleikara og Jón Sigurðsson píanóleikara en mér finnst svo spennandi að lesa upp við spunaleik á hljóðfæri. Þetta kalla ég sjálfselskukvöld, af því að ég er ein að lesa upp en mér finnst þetta orð eiga skilið að fá jákvæðari merkingu í tungumálið. Við erum alltaf að tala um að maður þurfi að elska sjálfan sig til að geta elskað aðra. Er það ekki sjálfselska? Og er það ekki frábært? Mér finnst það."
©Morgunblaðið 9. desember 2005
22 desember 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli