Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kamelljónsins
Radical útgáfa, 2005
“Kona verður til”: Dagbækur, minningar, dætur og mæður
Í bók sinni Borderlines: Autobiography and Fiction in Postmodern Life Writing (2003) fjallar Gunnþórunn Guðmundsdóttir um þátt skáldskaparins í æviskrifum (ævi- og sjálfsævisögum, dagbókum, bréfum, minningabókum) og sýnir fram á hvernig skáldskapurinn er ævinlega órjúfanlegur þáttur slíkra skrifa. Meðal annars birtist skáldskapurinn í því hvernig æviskrifin skapa sjálf, sjálfsmynd þess sem skrifar (eða er skrifað um), en slíkt sjálf hlýtur ávallt að vera tilbúið, samsett úr völdum minningum og hugmyndum, skrifað sem hefðbundin frásögn með upphafi, miðju og endi. Gunnþórunn fjallar meðal annars um æviskrif kvenna og bendir á að slík einkennast af sköpun þessarar sjálfsmyndar í gegnum togstreitu móður og dóttur, auk þess sem mótun sjálfsins helst í hendur við mótun konunnar sem rithöfundar.
Í eftirmála bókar sinnar, Dagbók kamelljónsins, segir höfundurinn, Birgitta Jónsdóttir, að sagan sé “hugmyndafræðilega séð að hluta til byggð á mínum eigin dagbókum sem ég hélt í kringum tvítugsaldurinn.” Hún bætir því við að hún hafi séð bókina fyrir sér sem “einskonar scrap book, þarsem ljósmyndir, teikningar, orð, ljóð, minningarbrot og dagbókarfærslur myndu spinnast saman í eina margbrotna heild.” Þessi samsetning úr ólíkum brotum er einmitt eitt af því sem Gunnþórunn bendir á sem einkenni framsækinna æviskrifa, þarsem skáldskapur, minningar, saga og heimildir blandast saman.
Dagbók kamelljónsins er sett saman úr tveimur meginþráðum, annarsvegar er það dagbókin sjálf, sem hefst á þorláksmessu með þessum orðum:
Það er feigðarilmur í lofti og hann blandast jólalyktinni. Ég dreg fram dagbókina mína og skrifa erfðaskrá aftast í hana. Ég á ekki margar veraldlegar eigur. Ákveð að gefa vinkonu minni allar bækurnar mínar og bróður mínum plöturnar. Ég finn að núna gerist eitthvað. Eitthvað sem ég veit í hjarta mínu en þori ekki að hugsa um. Á morgun er aðfangadagur jóla, en ég finn enga tilhlökkun. Ljósin eru dauf í ár.
Daginn eftir fremur faðir stúlkunnar sjálfsmorð. Dagbókin lýsir síðan tilraun stúlkunnar til að takast á við það áfall, jafnframt því sem hún glímir við samband sitt við móðurina. Inni á milli dagbókarfærslanna eru síðan minningarbrot frá æsku til unglingsáranna, en þar er lýst erfiðum uppvexti, átökum við móður og föður, ást á öfum og ömmum og litlum bróður, og svo auðvitað bókum. Átökin við móðurina eru þó í forgrunni, svo og átökin við sjálfsmyndina, en stúlkan lýkir sér við kamelljón að því leyti að hún er svo áhrifagjörn, tekur á sig þann lit sem er í bakgrunni hverju sinni. Þannig verður samband skáldskapar og sjálfsmyndar skýrt, sjálfsmyndin er mótuð í myndmáli og minningarbrotum, og átökin við sjálfsmyndina halda svo áfram í gegnum dagbókarbrotin - skrifin - og enda með dramatískri uppljómun.
Skáldsagan - því bókin er gefin út sem skáldsaga, þrátt fyrir að æviskrifin séu áberandi þáttur - ber mörg einkenni svokallaðrar neðanjarðarútgáfu, bæði í útliti og stíl, og kemur þar helst til nokkuð yfirdrifin dramatík sem í fyrstu virðist truflandi og óþörf, en þegar á leið fór þessi þráður að styrkjast og virka betur innan hinnar brotakenndu heildarmyndar verksins. Ljósmyndir og myndefni leika einnig stóran þátt í verkinu og skapa enn annan áhugaverða flötinn á þessari samþáttun minninga og skáldskapar, en ekki er betur hægt að sjá en að myndirnar sýni höfund á unga aldri. Þessi þáttur sögunnar, minningar sem myndir eða myndbrot, minnir dálítið á skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur frá árinu 2002, Albúm, en þar var einnig spilað á þessa hugmynd um lífið sem röð ljósmynda úr fjölskyldualbúmi. Munurinn er auðvitað sá að í Dagbók kamelljónsins eru ljósmyndirnar með, en þær voru fjarverandi í sögu Guðrúnar Evu.
Rithöfundarþátturinn er grannur en sterkur þráður í gegnum söguna, en stúlkan lýsir sjálfri sér sem heillaðri af orðum og bókum og fer fljótlega að setja saman eigin sögur. Inni í dagbókinni rekst lesandi svo á ljóð hennar, og þannig er gefið til kynna að skrif, hvort sem er dagbókarskrif eða skáldskaparskrif, eru ríkur þáttur tilveru stúlkunnar.
Dagbók kamelljónsins er áhrifamikil og flott saga, sem býður lesanda uppá ýmiskonar átök við tilfinningar og texta og vangaveltur um form og mörk skáldskapar og sjálfsævisögu. Textinn er vel unninn og á köflum afar fallegur og öll hönnun og útlit verksins skapa bókinni sterka nærveru.
©Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005. http://www.bokmenntir.is
21 desember 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli