Vikan sem var að líða er ein af alskemmtilegustu vikum lífs míns. Fór í sjötugs afmælið hans Eyvindar P. á þriðjudagskvöldið og hef aldrei skemmt mér eins vel í afmæli. Skemmtileg blanda af fólki. Kynlegir kvistir og kræklótt tré sem höfðu munninn fyrir neðan nefið á sér. Að ógleymdum magadansinum og Mímishöfðinu og afmælisbarninu sjálfu. Heill sé þér Vestfjarðagoði og Strandamaður.
Ég fór svo á minn vikulega fund og heyrði um blóm á lífsins akri og sá fyrir mér undurfurðuleg og litbrigðarík blóm þegar ég hugsaði til allra þeirra sem ég þekki sem eru allt nema rósir eða önnur hverdagsleg blóm. Nei frekar myndi ég vilja hitta mannætublóm en túlipana. Náði í mótmælanda Íslands á flugvellinum sem er alltaf að verða minna skemmtilegur. Ég fyllist alltaf ægilegri notalgíu í gamla tíma þegar ég fer út á Keflavíkurflugvöll. Fannst alltaf svo gaman að sjá fólkið koma niður, límast svo við glervegginn og hvísla fögnuði í gegnum hann. Lára Marteins var með sama flugi og mótmælandi Íslands, finnst hún áhugaverð mannvera. Við tókum hana með til bæjar. Og ég fékk súkkulaði að launum. Flugið var seint þannig að ég var komin seint heim og um leið og ég kom heim vaknaði yngri sonur minn. Búinn að vera veikur og svefninn langt í frá eðlilegur. Ég er enn frekar vansvefta, en það er reyndar ástand sem mér finnst best til þess fallið að gleyma öllum hefðum og svífa á milli svefns og vöku í sköpunargleðiorgíu.
Fimmtudagurinn var svo dagurinn minn, ekki ósvipað fermingarveislu. Reyndar þá hefur desember verið eins og ein samfelld fermingarveisla. Gjafirnar kannski ekki veraldlegar en svona gjafir sem búa með manni alla tíð. SjálfsElskuKvöldið var fullkomið. Þarna komu saman fjölskyldurnar mínar, þeas andlega og blóðbanda, ég færist stöðugt nær takmarki mínu:)
Það gerist einhver undarlega magísk kemistría á milli tóna og orða þegar við Hjölli vinnum saman
þetta var sem betur fer allt saman tekið upp af bróður mínum og mun ég setja brot af því besta hér á netið þegar ég hef vélað dvd diskinn af honum... En semsagt innilegt þakklæti til Ósk Óskarsdóttur, Kristians Guttesen, Ólafs Páls Sigurðssonar, Jóns Sigurðssonar, Kristjóns Kormáks og Hjörleifs Vals.... fyrir að gera SjálfsElskuKvöldið mögulegt. Ósk var ekki í stuði að koma fram en sá um hljóðið fyrir mig og dröslaðist með hljóðkerfið sitt alla leið frá Rokholti niður í bæ. Og svo TAKK allir sem komu...
19 desember 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
til hamingju með ritdóminn
- kg
hvaða ritdóm?
Skrifa ummæli