08 nóvember 2006

Nýhil kynnir: Nú fyrst riðlast líf ykkar!

Um komandi helgi verður alþjóðleg ljóðahátíð Nýhils haldin í annað sinn og verður ekkert til sparað að gera dásemdirnar sem fyllstar ofsa og ást. Færustu sérfræðingar Nýhils í alþjóðlegri og innlendri ljóðlist hafa lagt nótt við nýtan dag síðastliðinn misseri og sett saman allra mögnuðustu mögulega ljóðadagskrá og verður blásið til sannkallaðs ljóðasvalls föstudaginn 10. nóvember næstkomandi og stendur orgían yfir fram á sunnudagsmorgun. Dásemdirnar verða slíkar að andans menn og konur munu froðufella höfuðstöfum og svitna stuðlum langt fram eftir næsta ári, krafturinn slíkur að orð munu ríma sjálfkrafa hvert við annað og allir læsir menn munu falla í stafi, orð, setningar, erindi, kvæði, heilu bálkana!

Hátíðin verður haldin í Stúdentakjallaranum og í Norræna húsinu. Dagskrá er eftirfarandi:

Föstudagur 10. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý
Laugardagur 11. nóvember - Norræna húsið kl. 12.00-15.00 Málþing um samtímatilraunaljóðlist
Laugardagur 11. nóvember - Norrænahúsið kl. 16.00-18.00 Ljóðaupplestur
Laugardagur 11. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý

Erlendir þátttakendur eru að þessu sinni þau Kenneth Goldsmith, Matti Pentikäinen, Leevi Lehto, Anna Hallberg, Jörgen Gassilewski, Derek Beaulieu, Jesse Ball, Christian Bök, Katie Degentesh, Gunnar Wærness og Jane Thompson. Frekari upplýsingar um erlendu þátttakendurna má finna í viðhengi.

Auk hinna erlendu gesta, sem að þessu sinni eru helmingi fleiri en síðast, eru fjölmargir Íslendingar, og má þar helst nefna: Þórdís Björnsdóttir, Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir, Óttar Martin Norðfjörð, Ingibjörg Magnadóttir, Valur Brynjar Antonsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Ófeigur Sigurðsson, Haukur Már Helgason, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, Bjarni Klemenz, Birgitta Jónsdóttir, Kabarettinn Músífölsk , Stórsveit Áræðis, Donna Mess, Berglind Ágústsdóttir, Reykjavík!, og Skakkamanage.

Engin ummæli: