24 desember 2005

Gleðilega JólaBirtuMessu 2005


Þetta ár sem er að renna sitt skeið hefur verið eitt það albesta sem ég man eftir í lífi mínu. Ég byrjaði að kyrja að hætti SGI á vordögum og fékk spegil sálar minnar GoHonZon 17. júní afhendan. Síðan þá hefur margt ótrúlegt gerst. Sérstaklega innra með mér. Ég gaf mig alla í umhverfisbaráttuna í sumar og haust, og galdraði smá á laun. Vefurinn minn Womb of Creation átti tíu ára afmæli, ég fermdi eldri son minn og fór á alþjóðlega skáldahátíð í Makedóníu. Ég gaf út skáldsöguna mína Dagbók Kameljónsins sem ég hef verið að vinna með í ein átján ár og ég fór á fjöll bæði við rætur Hveragerðis og fyrir Austan. Settist í hringiðu Bessastaðafoss og hét því að gleyma aldrei að þetta land á mig. Ég eignaðist nokkra dýrmæta vini og endurnýjaði tengsl mín við nokkra gamla vini. Það sem stendur upp úr þessu öllu er ÞAKKLÆTI.

Þakka þér fyrir að hafa átt þinn þátt í að gera þetta ár svona sérstakt.

Með einlægum hlýhug og birtu

Birgitta "Karls" Jónsdóttir

p.s. Jólamyndin í ár er teiknuð af Maurizio di Bona aka "theHand"

Innbrot í geymsluna mína!

Ég geymi slatta af bókinni minni í geymslunni sem að er á jarðhæð í blokkinni minni hér vestur í bæ. Ég er því alltaf að þvælast í geymslunni. Ég geymdi líka jólagjafir barnanna minni í geymslunni. Þessi blokk hefur rosalega margar og þungar og læstar hurðir á jarðhæðinni til að fyrirbyggja að þjófar komist inn í geymslurnar og þvottahúsið. Á sunnudaginn var ég að fara að lesa upp á litlu jólunum hjá VG og kom við í geymslunni eins og venjulega, sá þá að það geymslunni minni hafði verið rústað um nóttina. Brotið upp þvottahúsglugga og ég sauðurinn gleymt að læsa minni geymslu. Þjófurinn granni hafði gramsað í öllum kössunum mínum, stolið jólagjöfum barnanna, 7 tommu plötunum mínum og fína bornum mínum, horfið út um geymsluglugga með brosmildar dúkkurnar. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að vera töluvert mikill töffari þá brá mér, en ég hafði engan tíma til að vera allt of lengi í því hugarástandi varð að arka í upplesturinn og halda andliti. Sem og tókst. Upplesturinn var frábær, þorði að tala við frænku mína hana Guðrúnu Evu um skyldleika okkar. En hún og Gummi frændi eru það fólk sem er mér hvað skyldast í blóðbandapabbaætt sem ég þekki til. Ég var svo spennt yfir því að hitta ömmu hennar á nýju ári, (held að hún og amma hafi verið systur) og að skiptast á bók við hana að geymslumálið gufaði upp sem eitthvað stórmál. Varð bara að smá rispu sem sveið undan í smástund. Ég hef verið að geyma nýju bókina hennar Guðrúnar Evu til jóla, ætla að éta hana eins og hið besta konfekt í kvöld, vil geta sökkt mér í hana og gleymt stund og stað.

Það hefur svo margt frábært gerst í lífinu mínu síðan ég flutti heim algerlega gjaldþrota veraldlega og andlega frá Nýja Sjálandi fyrir rétt tæpum tveimur árum. Einskonar röð kraftaverka. Mér líður eins og lótusblómi sem hefur verið að safna orku úr daunillum undirdjúpunum til að blómstra öllum að óvörum, sér í lagi sjálfri mér, og ég er fyrst og fremst þakklát, og lofa að verða aldrei hrokafull og full af illgresinu sjálfsþótta. Nei þetta Kameljón er fyllt elsku á sínu sjálfi: SjálfsElsku.

22 desember 2005

Blysfararfundarstjóri


Mér veitist sá heiður að vera fundarstjóri eftir friðargönguna niður Laugarveg að Ingólfstorgi á Þorláksmessu. Hef aðallega stjórnað fundum hjá aktívistum í gegnum tíðina en það mun víst vera allt annað snið:) Gangan hefst við Hlemm klukkan 18:00.

Mér finnst þessi hefð fyrir blysförinni frábær, í fyrra dreifði ég jólakorti til fólksins sem hlustaði á ræðuhöldin, ég útbjó þetta kort vegna þess að mér fannst það stríða gegn minni betri vitund að við sem þjóð erum þátttakendur í stríði. Við vitum svo harla fátt um þetta stríð nema það sem að okkur er rétt í fjölmiðlum, en sú mynd á sér litla stoð í veruleikanum. Hér er kortið og ef að fólki finnst vont að horfa á það, þá ætti það að spyrja sig hvernig það hafi verið að vera þetta barn. Fallujah, Fallujah, draugavélar og hryðjuverk gegn hryðjuverkum. Við getum sem einstaklingar breytt þessum heimi. En aðeins með því að gera eitthvað, engin breyting verður ef við gerum ekkert. Allar byltingar hefjast í manns eigin hjarta.

Viðtalið í Morgunblaðinu

Engin mörk á milli listgreina

Hávar Sigurjónsson

Má ég gefa þér dagbókina mína," sagði Birgitta Jónsdóttir rithöfundur við starfsfélaga sinn á dögunum og segir hann hafa fölnað.

Má ég gefa þér dagbókina mína," sagði Birgitta Jónsdóttir rithöfundur við starfsfélaga sinn á dögunum og segir hann hafa fölnað. Þegar hún svo dró Dagbók kameljónsins upp úr tösku sinni og rétti honum með þeim orðum að þetta væri nýja skáldsagan hennar þá létti honum verulega.
Birgitta hefur verið nokkuð einstakt blóm í flóru íslenskra skálda og farið sínar eigin leiðir og stundum ótroðnar í sköpun sinni. Hún setti upp fyrstu vefsíðu íslensks skálds árið 1995 og hefur verið í fararbroddi þeirra sem yrkja á netinu, blogga og hefur komist í samband við skáld og rithöfunda um allan heim í gegnum netheima. Hún hefur þó gefið út einar 15 bækur af ýmsu tagi, mest smábækur, sem hún vinnur sjálf að mestu leyti og hliðargrein við skáldskapinn á undanförnum árum er útlitshönnun og kápuhönnun bóka annarra skálda. "Mér finnst þetta mjög skemmtileg vinna þar sem hún heldur mér í nánu sambandi við aðra rithöfunda en er um leið aðferð til að vinna fyrir salti í grautinn."

Dagbók kameljónsins er að hluta byggð á dagbókum Birgittu sjálfrar fram að tvítugu en eftir það segist hún lítið hafa ritað í dagbækur, "...kannski einu sinni á ári eða svo, eftir að ég eignaðist börn."

Birgitta gefur bókina út sjálf en bókaútgáfan Salka sér um dreifingu en Birgitta á allan heiður af útliti bókarinnar sem ber þess greinilega merki að nostrað hefur verið við hana og fléttast texti og myndvinnsla, umbrot og frágangur órjúfanlega saman svo lestur bókarinnar verður heildstæð upplifun þar sem eitt getur ekki án hins verið. "Margir sem lásu yfir fyrir mig hafa þó sagt að textinn standi alveg sjálfstæður en ég vildi hafa þetta svona, enda finnst mér að listgreinarnar eigi að renna hver inn í aðra, þar eiga engin mörk að vera."

Sagan sem sögð er í bókinni er saga stúlku, sem upplifir mikla þjáningu þegar faðir hennar fremur sjálfsvíg. "Hún týnir sjálfri sér og þetta er því lýsing á leit hennar að sjálfinu og til þess þarf hún að hverfa aftur til upphafsins, fæðingarinnar og síðan er sagan hennar sögð í minningarbrotum, ljóðum og hugleiðingum fram til þess að hún er þrettán, fjórtán ára gömul. Hún er kameljón vegna þess að hún tekur alltaf á sig yfirbragð umhverfisins, veit ekki hver hún sjálf er. Örugglega kannast einhverjir við þetta, að skipta t.d. alveg um skoðun af því að einhver segir eitthvað annað en manni hefur fundist fram að því."

"Ég þrái að vera hamingjulindin í lífi þeirra sem flögra inn um lífsgluggann minn, breiða mig eins og hlífðartjald um þau og galopna kviku hjarta míns. Ég vil vera allt sem þau þrá. Ég leik kameljón, fell inn í umhverfi þeirra og væntingar eins og stofuskraut í híbýlum sálna þeirra. Ég dirfist ekki að sýna minn rétta lit. Ég er hrædd um að þeim geðjist ekki að því sem þau sjá. Ég óttast kannski mest að verða yfirgefin."

Texti Birgittu er á víxl raunsær og draumkenndur, stundum lýsir hún draumum sínum og í annan stað verður hún rómantísk og viðkvæm.

"Ég hef alltaf verið hrifin af aðferð súrrealistanna, þar sem undirmeðvitundin fær að ráða og ég skrifa þannig að allt fær að flæða óheft fram og síðan fer ég yfir það síðar. Ég vildi líka hafa texta bókarinnar þannig að hann væri aðgengilegur sem flestum, bæði ungum lesendum af þeirri kynslóð sem vill stutta texta og myndrænar útfærslur og svo líka þeim eldri og bókmenntalegar sinnuðum sem gera aðrar kröfur um mál og stíl. Ég fékk margt og ólíkt fólk til að lesa yfir bókina í handriti en hún hefur verið mjög lengi í vinnslu hjá mér og er núna loksins orðin eins og ég vil hafa hana."

Birgitta segir að sjálfsvíg föður hennar hafi haft gríðarlega mikil áhrif á hana og sé í vissum skilningi þungamiðja bókarinnar. "Þetta er ekki sjálfshjálparbók fyrir fórnarlömb sjálfsvíga en sýnir þó hvernig hægt er að breyta svona hræðilega neikvæðri reynslu í jákvæða afstöðu til lífsins og ég hef fundið fyrir því að þetta er það sem fólk vill helst spyrja um og ræða við mig þegar ég hef verið að lesa upp úr bókinni á undanförnum vikum. Eitt af því sem erfitt er að tala um er reiðin í garð þess sem hefur framið sjálfsvíg, fólk gengur kannski með slíka reiði í mörg ár og fær hvergi útrás fyrir hana. Með því að horfa á sjálfsvíg sem sjúkdóm, tímabundna sinnisveiki, þá hefur mér tekist að sættast við föður minn og þessi sátt er eitt af því sem bókin fjallar um."

Birgitta hefur á undanförnum árum staðið fyrir ótal uppákomum tengdum ljóðalestri og gjörningum og gjarnan tengt saman fleiri listgreinar, myndlist, tónlist og skáldskap. "Þetta er eiginlega allt sprottið af eigingirni," segir hún. "Mér finnst sjálfri svo gaman að lesa upp ljóðin mín. Og til þess að fá tækifæri til þess hef ég skipulagt uppákomur og fengið fleiri skáld og listamenn með mér. En á fimmtudagskvöldið 15. desember í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu ætla ég í fyrsta sinn að lesa upp ein úr bókinni minni og hafa með mér Hjörleif Valsson fiðluleikara og Jón Sigurðsson píanóleikara en mér finnst svo spennandi að lesa upp við spunaleik á hljóðfæri. Þetta kalla ég sjálfselskukvöld, af því að ég er ein að lesa upp en mér finnst þetta orð eiga skilið að fá jákvæðari merkingu í tungumálið. Við erum alltaf að tala um að maður þurfi að elska sjálfan sig til að geta elskað aðra. Er það ekki sjálfselska? Og er það ekki frábært? Mér finnst það."

©Morgunblaðið 9. desember 2005

21 desember 2005

Dómur Úlfhildar á bokmenntir.is

Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kamelljónsins
Radical útgáfa, 2005

“Kona verður til”: Dagbækur, minningar, dætur og mæður

Í bók sinni Borderlines: Autobiography and Fiction in Postmodern Life Writing (2003) fjallar Gunnþórunn Guðmundsdóttir um þátt skáldskaparins í æviskrifum (ævi- og sjálfsævisögum, dagbókum, bréfum, minningabókum) og sýnir fram á hvernig skáldskapurinn er ævinlega órjúfanlegur þáttur slíkra skrifa. Meðal annars birtist skáldskapurinn í því hvernig æviskrifin skapa sjálf, sjálfsmynd þess sem skrifar (eða er skrifað um), en slíkt sjálf hlýtur ávallt að vera tilbúið, samsett úr völdum minningum og hugmyndum, skrifað sem hefðbundin frásögn með upphafi, miðju og endi. Gunnþórunn fjallar meðal annars um æviskrif kvenna og bendir á að slík einkennast af sköpun þessarar sjálfsmyndar í gegnum togstreitu móður og dóttur, auk þess sem mótun sjálfsins helst í hendur við mótun konunnar sem rithöfundar.

Í eftirmála bókar sinnar, Dagbók kamelljónsins, segir höfundurinn, Birgitta Jónsdóttir, að sagan sé “hugmyndafræðilega séð að hluta til byggð á mínum eigin dagbókum sem ég hélt í kringum tvítugsaldurinn.” Hún bætir því við að hún hafi séð bókina fyrir sér sem “einskonar scrap book, þarsem ljósmyndir, teikningar, orð, ljóð, minningarbrot og dagbókarfærslur myndu spinnast saman í eina margbrotna heild.” Þessi samsetning úr ólíkum brotum er einmitt eitt af því sem Gunnþórunn bendir á sem einkenni framsækinna æviskrifa, þarsem skáldskapur, minningar, saga og heimildir blandast saman.
Dagbók kamelljónsins er sett saman úr tveimur meginþráðum, annarsvegar er það dagbókin sjálf, sem hefst á þorláksmessu með þessum orðum:

Það er feigðarilmur í lofti og hann blandast jólalyktinni. Ég dreg fram dagbókina mína og skrifa erfðaskrá aftast í hana. Ég á ekki margar veraldlegar eigur. Ákveð að gefa vinkonu minni allar bækurnar mínar og bróður mínum plöturnar. Ég finn að núna gerist eitthvað. Eitthvað sem ég veit í hjarta mínu en þori ekki að hugsa um. Á morgun er aðfangadagur jóla, en ég finn enga tilhlökkun. Ljósin eru dauf í ár.

Daginn eftir fremur faðir stúlkunnar sjálfsmorð. Dagbókin lýsir síðan tilraun stúlkunnar til að takast á við það áfall, jafnframt því sem hún glímir við samband sitt við móðurina. Inni á milli dagbókarfærslanna eru síðan minningarbrot frá æsku til unglingsáranna, en þar er lýst erfiðum uppvexti, átökum við móður og föður, ást á öfum og ömmum og litlum bróður, og svo auðvitað bókum. Átökin við móðurina eru þó í forgrunni, svo og átökin við sjálfsmyndina, en stúlkan lýkir sér við kamelljón að því leyti að hún er svo áhrifagjörn, tekur á sig þann lit sem er í bakgrunni hverju sinni. Þannig verður samband skáldskapar og sjálfsmyndar skýrt, sjálfsmyndin er mótuð í myndmáli og minningarbrotum, og átökin við sjálfsmyndina halda svo áfram í gegnum dagbókarbrotin - skrifin - og enda með dramatískri uppljómun.

Skáldsagan - því bókin er gefin út sem skáldsaga, þrátt fyrir að æviskrifin séu áberandi þáttur - ber mörg einkenni svokallaðrar neðanjarðarútgáfu, bæði í útliti og stíl, og kemur þar helst til nokkuð yfirdrifin dramatík sem í fyrstu virðist truflandi og óþörf, en þegar á leið fór þessi þráður að styrkjast og virka betur innan hinnar brotakenndu heildarmyndar verksins. Ljósmyndir og myndefni leika einnig stóran þátt í verkinu og skapa enn annan áhugaverða flötinn á þessari samþáttun minninga og skáldskapar, en ekki er betur hægt að sjá en að myndirnar sýni höfund á unga aldri. Þessi þáttur sögunnar, minningar sem myndir eða myndbrot, minnir dálítið á skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur frá árinu 2002, Albúm, en þar var einnig spilað á þessa hugmynd um lífið sem röð ljósmynda úr fjölskyldualbúmi. Munurinn er auðvitað sá að í Dagbók kamelljónsins eru ljósmyndirnar með, en þær voru fjarverandi í sögu Guðrúnar Evu.

Rithöfundarþátturinn er grannur en sterkur þráður í gegnum söguna, en stúlkan lýsir sjálfri sér sem heillaðri af orðum og bókum og fer fljótlega að setja saman eigin sögur. Inni í dagbókinni rekst lesandi svo á ljóð hennar, og þannig er gefið til kynna að skrif, hvort sem er dagbókarskrif eða skáldskaparskrif, eru ríkur þáttur tilveru stúlkunnar.

Dagbók kamelljónsins er áhrifamikil og flott saga, sem býður lesanda uppá ýmiskonar átök við tilfinningar og texta og vangaveltur um form og mörk skáldskapar og sjálfsævisögu. Textinn er vel unninn og á köflum afar fallegur og öll hönnun og útlit verksins skapa bókinni sterka nærveru.

©Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005. http://www.bokmenntir.is

19 desember 2005

SjálfsElskuKvöld Kameljónsins og Afmæli Eyvindar

Vikan sem var að líða er ein af alskemmtilegustu vikum lífs míns. Fór í sjötugs afmælið hans Eyvindar P. á þriðjudagskvöldið og hef aldrei skemmt mér eins vel í afmæli. Skemmtileg blanda af fólki. Kynlegir kvistir og kræklótt tré sem höfðu munninn fyrir neðan nefið á sér. Að ógleymdum magadansinum og Mímishöfðinu og afmælisbarninu sjálfu. Heill sé þér Vestfjarðagoði og Strandamaður.

Ég fór svo á minn vikulega fund og heyrði um blóm á lífsins akri og sá fyrir mér undurfurðuleg og litbrigðarík blóm þegar ég hugsaði til allra þeirra sem ég þekki sem eru allt nema rósir eða önnur hverdagsleg blóm. Nei frekar myndi ég vilja hitta mannætublóm en túlipana. Náði í mótmælanda Íslands á flugvellinum sem er alltaf að verða minna skemmtilegur. Ég fyllist alltaf ægilegri notalgíu í gamla tíma þegar ég fer út á Keflavíkurflugvöll. Fannst alltaf svo gaman að sjá fólkið koma niður, límast svo við glervegginn og hvísla fögnuði í gegnum hann. Lára Marteins var með sama flugi og mótmælandi Íslands, finnst hún áhugaverð mannvera. Við tókum hana með til bæjar. Og ég fékk súkkulaði að launum. Flugið var seint þannig að ég var komin seint heim og um leið og ég kom heim vaknaði yngri sonur minn. Búinn að vera veikur og svefninn langt í frá eðlilegur. Ég er enn frekar vansvefta, en það er reyndar ástand sem mér finnst best til þess fallið að gleyma öllum hefðum og svífa á milli svefns og vöku í sköpunargleðiorgíu.

Fimmtudagurinn var svo dagurinn minn, ekki ósvipað fermingarveislu. Reyndar þá hefur desember verið eins og ein samfelld fermingarveisla. Gjafirnar kannski ekki veraldlegar en svona gjafir sem búa með manni alla tíð. SjálfsElskuKvöldið var fullkomið. Þarna komu saman fjölskyldurnar mínar, þeas andlega og blóðbanda, ég færist stöðugt nær takmarki mínu:)
Það gerist einhver undarlega magísk kemistría á milli tóna og orða þegar við Hjölli vinnum saman
þetta var sem betur fer allt saman tekið upp af bróður mínum og mun ég setja brot af því besta hér á netið þegar ég hef vélað dvd diskinn af honum... En semsagt innilegt þakklæti til Ósk Óskarsdóttur, Kristians Guttesen, Ólafs Páls Sigurðssonar, Jóns Sigurðssonar, Kristjóns Kormáks og Hjörleifs Vals.... fyrir að gera SjálfsElskuKvöldið mögulegt. Ósk var ekki í stuði að koma fram en sá um hljóðið fyrir mig og dröslaðist með hljóðkerfið sitt alla leið frá Rokholti niður í bæ. Og svo TAKK allir sem komu...

18 desember 2005

Ekki missa af

Upplestur og tónlist á kaffi Hljómalind sunnudagskvöldið 18. des. kl. 21:00

Kristjón Kormákur les úr Frægasti maður í heimi, Birgitta Jónsdóttir les úr Dagbók kameljónsins, Kristian Guttesen flytur ljóð úr Litbrigðamyglu, Haukur Már les úr Rispa Jeppa og Eyvindur P. Eiríksson les úr Örfoki á kaffi Hljómalind á sunnudagskvöldið 12. des.

Tónlistina sjá Simon Jermyn og Eiríkur Orri Ólafsson um. En Eiríkur hefur komið reglulega fram með Múm og þeir báðir með Benna Hemm Hemm.

17 desember 2005

Í RÚV á eftir ...

les upp úr dagbókinni á Bókaþingi RÚV, kl: 16:10. Var í Víðsjá á fimmtudaginn, þann þátt ætti að vera hægt að hlusta á fljótlega. Held að það hafi verið fínt viðtal. Náði ekki að hlusta á það sjálf. Enda var fimmtudagurinn einn af þessum dögum þar sem tíminn er stórfljót í leysingum og ég var hinn klassíski íslendingur að gera allt á síðustu stundu. Ég var að senda einhver ljóð í samkeppni sem var á deadlæni 15ánda þó að ég hafi ekkert meira álit á samkeppni í orðum en fegurð, eða pólitík, já eru kosningar ekki einskonar fegurðarsamkeppni í skoðunum og stefnum. Hver er með fallegustu skoðunina, hver ber sig best og er skorinortur. En semsagt ég hafði ákveðið að brjóta odd af oflæti mínu og fínpússa nokkur nýleg ljóð fyrir stafinn hans Jóns úr Vör.. enda hefur mig alltaf langað að ganga við staf.

Svo þurfti ég að fara tvisvar upp í útvarp og í jólaboð Rithöfundasambandsins sem mér fannst skemmtilegt. Hitti alltaf fólk þar sem ég hitti annars sjaldan en hef mjög skemmtilegt að tala við.
Svo beint í Alþjóðahúsið þar sem ég stóð fyrir SjálfsElskuKvöldi Kameljónsins... ég var mjög ánægð með það. Meira um það á eftir eða á morgunn... hef alls ekki nógu margar útgáfur af sjálfri mér...

13 desember 2005

Forsíðustúlkan Bjé cover B þó ekki Joy B

ok þetta er dálítið vanræðalegt, ég er ekki beint svona á hverjum degi þó svo að ég trúi því rétt eins og eitt gott franskt skáld að jólin séu á hverjum degi. og hver dagur er sparidagur.
©vikan> sigurjón ragnar 2005

click on the image to get a bigger imageclick on the image to get a bigger imageclick on the image to get a bigger image

smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri

12 desember 2005

serial flensur og umfjöllun

þetta er sá árstími sem að á mitt heimili hlaðast serial flensur í ótal afbrigðum. ég ætlaði á fullt af uppákomum þessa helgi og átti sjálf að lesa upp í hléinu hjá mfík en varð að afboða. lá rænulaus með öfgakennda verki í hitamóki alla helgina. og svo tók yngri sonur minn við af mér. en sem betur fer eru til símar og internet. hef því getað haldið áfram að herja á blaða og útvarpsmenn og konur. bókin mín virðist hafa týnst í bókafjöllum sumstaðar en það er allt í lagi. ég er alveg einstaklega æðrulaus þessa dagana. kem sjálfri mér á óvart. en ég kem allavega til með að vera í bókaþing á rúv. les í 6 mínútur eða svo upp úr dagbókinni. þegar ég veit nánar í hvaða þætti þá skelli ég linki hér á bloggið. ég er mjög ánægð með vitalið sem hann Hávar tók við mig. það var eitthvað svo fallegur tónn í því sem hann setti. ég set það hér inn þegar ég hef fengið blaðið. það fór fram hjá mér að það kom í mbl á föstudaginn var þá komin með óráð light. en kristian er að redda mér blaði svo að ég geti séð þetta og átt í mínum fórum. ég er nefnilega sjúklegur safnari á skringilega hluti. steina, orð og myndir. allt frekar þungt til flutninga.

er á fullu að undirbúa sjálfselskukvöldið
hlakka mjög mikið til.. er að reyna að stefna þarna sem flestum sem ég þekki og er vensluð. maður hittir þetta fólk svo sjaldan. en þá er gráupplagt að búa til tilefni. hlakka til að búa til seið með Hjölla, hef gert það svo oft og alltaf eitthvað sérstakt komið útúr okkar samspili. þá er ég ekki síður spennt að sjá hvernig við Jón vinnum saman en ég hef aldrei unnið með honum áður. nema að hanna fyrir hann geisladisk...

Sérstakar þakkir

fær vinur minn Kristian Guttesen. Án hans hefði þessi bók aldrei komið út þessi jól. Mér finnst eitthvað alveg sérdeilis fallegt við það þegar vinir gefa út bækur á sama tíma að það komi ekki upp samkeppni eða öfund. Hef oft séð til Kristians vera að hjálpa öðrum með hugmyndum sem yfirleitt svínvirka. Og hann hefur aldrei farið fram á neitt í staðinn. Jamm Kristian er drengur góður.

Ég hef fylgst lengi með honum á ritvellinum og nýja ljóðabókin hans Litbrigðamygla er hans besta verk til þessa. Hefur þessa auka dýpt sem ég fann fyrir í sumum fyrstu ljóða hans. Ég vona bara að hún týnist ekki í þessu bókaflóði. Hún á að vera lesin. Mér finnst heildarhugmyndin að bókinni vera mjög sannfærandi og virkar sterkt á mig.

09 desember 2005

Úr fyrsti dómurinn eftir hana Auði

Bókin er byggð á sönnum atburðum, að grunni til. Hún fjallar um sjálfsvíg, sem margir forðast að tala um, hvað þá lesa bók um þetta efni. Dauðann, sjálfseyðingarhvötina, hvernig aðstandendur taka út sitt sorgarferli. Sértaklega fjallar bókin um lífshlaup uppeldisdóttur mannsins sem tók sitt eigið líf, á aðfangadag. Bókin er öðruvísi heldur en ég bjóst við, bæði hvernig hún er sett upp og innihaldið. Hún er skrifuð í dagbókaformi, inn í hana fléttast líka ljóð, draumar, ljósmyndir og teikningar. Hún er sorgleg en það er líka oft á tíðum sem ég brosti örlítið. Oftar komu þó tár í hvarma mína en svo tekst höfundi að koma inn mörgu skemmtilegu, án þess þó að gera lítið úr þessum efnivið.

Aðalpersónan er stúlka sem skrifar dagbókina.

Þegar kom í ljós að uppeldisfaðir hennar hafði framið sjálfsmorð. Bls. 11. „ Næturnar eru langar. Reyni að finna tilgang með öllum sigrunum yfir kráku sársaukans. Styrkur. Í hlutverki kameljónsins ljóma eins og frelsandi engill meðan sál mín öskrar í hljóði í angist...Dreymi dauðann sem draumaprins á hvítum hesti...Gamlar minningar lykjast um mig.... “ Frábær hugmynd hjá höf. að nota kameljónið sem samlíkingu, það skiptir um ham eftir aðstæðum, alveg eins og stúlkan.

Lesandinn fær að fylgjast með stúlkunni vaxa og síðar dafna. Hún er ótrúlega þroskuð og sterkur karakter mjög ung. Þrátt fyrir vanlíðan sína hefur hún skap og getur oft á tíðum stjórnað því sem hún vill að nái fram að ganga, þess á milli er hún feimin, innilokuð, hefur ógeð á sjálfri sér og líkama sínum. Með miklu baráttuþreki og innri átökum, tekst henni að ná áttum. Hún finnur að minningarnar eru ekki lengur svartar í huga hennar, heldur marglit blóm. Eins og kemur fram á bls. 157. „Ég er meðvituð um að lífið muni aldrei hætta að gerast, en ég hef val um að láta þær byggja mig upp eða brjóta mig niður.” Hún er meðvituð um það einnig að hún þarf að treysta á sjálfa sig, ekki gera neinar væntingar til fólks eða til atburða sem munu henda hana.

Sagan er hreinskilin, listavel skrifuð, höf. hefur mjög gott vald á íslenskri tungu, kafar djúpt niður og tekst að kalla fram ýmsar tilfinningar. Maður sér á stundum þetta svo ljóslifandi fyrir sér. Ljóðin eru gullfalleg. Bókin er margslungin og vekur mann til umhugsunar um lífið og tilveruna.

Ég tel tvímælalaust að þessi bók sé holl og góð lesning fyrir alla, þó að þeir hafi ekki orðið fyrir þessari lífsreynslu. Þessi bók snart mig svo sannarleg.


Stjörnur 3 af 5
©Auður, http://www.rithringurinn.is

Að vera í flæði við tilveruna

það skemmtilegasta sem ég geri er að lesa upp. hef alltaf litið á það sem ákveðið listform. hef loksins fundið kaflana í bókinni sem mér finnst passa best til upplestrar. datt inn á þá fyrir eina af þessum óendanlegu fullkomnu tilviljunum sem virðast alltaf verða stærri og meiri um sig þessa dagana. ótrúlegt hve tímasetningar geta verið fullkomnar ef maður hefur bara augun opin fyrir þeim. er að læra að þora að labba í gegnum opnar dyr og yfirstíga mína alræmdu feimni! já þetta kameljón er nefnilega alveg ótrúlega feimið og að flestir sem ég þekki trúi mér alls ekki. jamm birgitta er bæði feimin og líka satt best að segja algerlega vanfær um að líta upp eða niður á fólk. fólk er bara fólk. held að það sé ekki til sú mannvera sem ég vildi vera önnur en ég sjálf.

hef tekið eftir því að það virðist vera alveg gríðarlega þörf á að tala um sjálfsvíg. alla vega við mig. sem er bara gott mál. notaði sjálf þá tækni (kannski vegna þess að ég kann ekkert annað) að tala opinskátt um sjálfsvígið hans pabba strax og það hafði gerst, stundum þá leið kunningjum og vinum mínum ekkert sérstaklega vel þegar ég var að romsa þessu upp úr mér en held að þegar ég lít til baka að það hafi í raun og veru verið það besta sem ég gat gert. ég er náttúrulega kaldhæðnispúki og það hefur líka hjálpað mér í gegnum svo margt. þeas að reyna að sjá einhvern flöt sem er fyndinn við hinar viðkvæmustu aðstæður lífs míns. svo hefur líka alltaf hjálpað að búa til smásögur um allan þennan absúrdisma sem ég hef upplifað og í staðin fyrir að skrifa það niður á blað að segja þær og þá verða þær að einskonar þjóðsögum birgittu í huga mér.....

upplestur á morgunn hjá mfík, les reyndar í hléinu vegna þess að það var búið að setja dagskránna saman fyrir svo löngu síðan, en samt gaman að fá að vera með valkyrjunum og formæðrum sem ég ber ómældan hlýhug til..

ætla að reyna að finna orku til að fara á nýhilsdæmið í kvöld

las upp í gærkvöldi á súfistanum á sölkukvöldi, átti von á mjög fáum en það var þétt setið. kynntist svo einstakri manneskju sem var eins og ég hefði þekkt alla tíð.. hún er eitt best geymda leyndarmálið í íslenskum bókmenntum

svo er frábært að fá marló til íslands þó að stutt sé... bókin hennar nýja tímasetningar er hennar besta verk
hvet alla til að næla sér í þessa bók, ég hámaði hana í mig í græðgiskasti ...

Skildumæting næsta fimmtudag!

Smelltu á myndina til að sjá litla sæta flæerinn minn fyrir SjálfsElskuKvöld Kameljónsins

06 desember 2005

SjálfsElskuKvöld Kameljónsins

Aldrei upplifað tíman líða jafn hratt og síðan þessi bók kom út, kem bara brotabroti í verk af því sem ég ætlaði mér. er að skipuleggja SjálfsElskuKvöld Kameljónsins í Alþjóðahúsinu, það verður 15. des. klukkan 21:00. Meira af því seinna en það mun meira og minna snúast um sjálfa mig og bókina. Hjörleifur Valsson næstum því uppeldisbróðir og Jón Sigurðsson ætla að spila bæði undir upplestri úr bókinni og sóló.

Er ekki annars merkilegt þversögn að það er talað um að ekkert sé mikilvægara en að vera fær um að elska sjálfan sig og á sama tíma er orðið sjálfselskur eitthvað það neikvæðasta í íslenskri tungu.

Ég er sjálfselsk, elska mig mig mig
og skammast mín ekkert fyrir það....

05 desember 2005

Streymandi Draumur

Smelltu hér til að hlusta á HljómOrðið: Draumur og blaðsíður úr dagbókinni með draumljóðinu.

02 desember 2005

Upplestur: Iða næsta þriðjudagskvöld



48. Skáldaspírukvöldið verður haldið í Iðu þriðjudagskvöldið 6. des. klukkan 20 á jarðhæð, í bókahorninu. Birgitta Jónsdóttir og Kristian Guttesen lesa úr nýútkomnum bókum þeirra. Birgitta les úr skáldsögunni: Dagbók kameljónsins, bók sem brýtur upp margar hefðir skáldsöguformsins. Hún mun jafnframt spila hljómOrð úr safni sínu sem tengjast dagbókinni á einhvern hátt. Kristian les úr nýrri ljóðabók: Litbrigðamygla og eftir lestur skáldanna er fólki frjálst að spyrja skáldin, bækurnar eiga það sammerkt að fjalla um það sjálfgefna í þessu lífi: dauðann og áhrif hans á mannsálina.

01 desember 2005

Ótrúlegt kvöld

Oftast þá finnst mér upplestrar leiðinlegir, höfundarnir kunna sér yfirleitt ekki hóf, lesa heilu og hálfu bækurnar og færast allir í aukana ef þeir heyra góð viðbrögð úr sal. En það var undantekning þar á í gær, langflestir sem lásu upp hjá Sölku lásu feiknavel og flest sem þeir lásu var alls ekki leiðinlegt og ALLIR virtu tímamörkin. Ég er nefnilega þannig gerð að ef ég hlusta á einhvern lesa mjög lengi sér í lagi ef upplesarinn er ekkert sérstakur þá fer ég bara að heyra finnsku eða dett inn í alvarlegan athyglisbrest og blanda öllum saman í hugarfarslegan hrærigraut. Einn vinur minn sem gjarnan kallar sig fallegasta skáld Íslands fór þó í hléinu og sagði að þetta væri allt hundleiðinlegt og honum væri skapi næst að rífa míkrófóninn af upplesurunum og lesa úr sinni eigin bók. Mér finnst að hann hefði átt að gera það.

Upplestur sjálfrar mín tókst alveg ótrúlega vel upp, hefði mátt heyra saumnál detta, þó svo að ég væri næst síðust á frekar langri dagskrá. Sum brot bókarinnar virka miklu betur en aðrir til upplesturs og ég er svona hægt og sígandi að skilja hvaða kaflar það eru. Það er alveg ótrúlega erfitt að finna réttu brotin til að lesa hverju sinni.

Rúsínan í pylsuendanum á kvöldinu í gær voru svo albestu tónleikar MegaSukk sem ég hef farið á, og ég hef ekki séð þá ósjaldan. Það var búið að tvíbóka Þjóðleikhúskjallarann þannig að þeir stigu á svið um leið og við höfðum látið orðin falla. Ég sat sem fastast á besta stað og lofaði bók í stað miða þegar skipuleggjandinn sagði bókapakkinu að drífa sig út ellegar verða rukkuð, var aldrei rukkuð þannig að þeir eiga þá bók inni hjá mér næst þegar ég rekst á einhvern þeirra.

Ég hafði séð MegaSukk spila hjá Mikka Pollock fyrir viku og var sannfærð um að þetta yrði ógleymanlegt. Eitthvað svo þéttir og vel æfðir, maður skildi meira að segja næstum 1/3 af öllum textum. Þeir voru með frábæra tónlistarmenn með sér þarna í gær og GodChrist kom svo óvænt eftir hlé og var ótrúlegur í sínum brjálaða gítarLeik og svipbrigðum. Nú verð ég að fara og finna plötuna þeirra og vonast svo til að sjá þá aftur félagana.