09 október 2006

Að axla

ábyrgð á eigin lífi og örlögum virðist vera flestum afar erfitt. Fólk er yfirhöfðuð ekki ánægt með hlutskipti sitt, hvernig samfélagið er keyrt áfram og mikið er tuðað yfir hinu og þessu hérlendis. En sárasjaldan fylgja verk orði. Ef til dæmis maður er óánægður með eitthvað, eins og vinnuálag, að hafa lítinn tíma með börnunum sínum, skuldir, þjónustu, yfirmenn, laun, mengun, stóriðju, spillingu, ríkistjórn þá er ekkert einfaldara en að gera eitthvað í því. Ef maður vill verja meiri tíma með börnunum sínum, þá verður maður að breyta um lífstíl sem flestir eru kannski ekki alveg tilbúnir að gefa upp á bátinn. Það verða nákvæmlega engar breytingar í veröldinni nema við séum tilbúin að breytast. Ef við höldum áfram á fullu í neysluhyggju og gerviþarfa veruleika þá verðum við að sætta okkur við fórnirnar sem þarf að færa.

Ég skil í raun og veru ekki alveg hvað gerðist. Af hverju gengur allt út á að varpa ábyrgðinni yfir á aðra. Heilbrigt samfélag er samfélag þar sem einstaklingar bera ábyrgð á sér og sínum. Þar er ekki ætlast til þess að stofnanir sjái um yngstu og elstu fjölskyldumeðlimi svo maður geti keypt sér meira og meira af gagnslausu drasli sem verður úrelt eftir eitt ár. Við erum óheyrilega óábyrg. Með neysluhyggju okkar stuðlum við að eyðileggingu jarðarinnar, við búum til samfélag þar sem sívaxandi fjöldi barna á sér enga ósk heitari en að deyja. Ein meginástæða þess er að börn eru í sívaxandi mæli tilfinningalega afskipt af foreldrum sínum sem þurfa að vinna svo mikið til að framfleyta sér. Þegar ég var að alast upp, þótti sjálfsagt að safna sér fyrir því sem maður ætlaði að kaupa og ef maður fékk eitthvað þá var það sérstakt. Pabbi til dæmis keypti allt sem við áttum fyrir beinharða peninga og aldrei voru tekin lán á okkar heimili. Ég aftur á móti byrjaði í vítahring yfirdráttarlána og sér ekki fyrir endann á því hvenær mér muni takast að greiða það niður. En ég hef alla vega gert einn skynsaman hlut á lífsleið minni og það er að velja minni efnisleg gæði fyrir meiri tíma með krökkunum mínum.

Þetta hefur aldrei verið erfitt val. Af hverju ætti ég ekki að bera fulla ábyrgð á því að sinna mínu hlutverki sem foreldri ef ég á annað borð vel að eignast börn. Ég fæ þá allt annað seinna eða aldrei sem mætti flokkast undir efnislega velsæld og ég hef ekki haft fyrir því að moka í börnin mín merkjavöru eða öllu því sem þeim langar í. Fyrir vikið er ég reyndar ríkari en mig hefði nokkru sinni órað fyrir.

Ef ég vil breytingar þá er enginn nema ég sem get hrundið þeim í framkvæmd. Það væri fásinna að bíða eftir að einhverjir aðrir geri það fyrir mig. Það minnir mann bara á söguna um lata Geir á lækjarbakka.

Eftir að hafa séð mynd Al Gore um gróðurhúsa áhrifin er eitt alveg ljóst: ég verð að gera meira sem einstaklingur og ég verð að fræða aðra um þá miklu vá sem við stöndum frammi fyrir með aðgerðarleysi okkar. Mín kynslóð og kynslóð foreldra minna bera ábyrgð á þessum ósköpum og ef ekkert verður gert til að snúa þessari þróun við munu milljónir manna liggja í valnum.

Ein ástæða þess að ég hef varið svo miklum tíma í umhverfismál er sprottin frá þeirri þörf á að gefa til baka það sem mér hefur verið gefið. Ég ætti ekkert ef náttúran hefði ekki viðstöðulaust gefið mér af sér. Furðulegt að sparka stöðugt í höndina sem fæðir og klæðir mann, svo ég tali nú ekki um nærir sálina með fegurð sinni.
Ef heimurinn á að breytast verð ég að breytast. Neysluvenjur og gildismat.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill. Ég held líka að stór hluti af þessu er að því er haldið svo að fólki að það er ekki nóg að vera það sjálft, heldur þarf að "vera einhver", fá titil, fá viðtal í fjölmiðlum, græða sem mest. Orðstír völuspáar í kapítalískum nútímabúningi. Þess vegna finnst fólki að það verði að gera hlutina núna, fyrir 25, þrítugt o.s.frv., annars verði það of seint og það verði alltaf bara einhver nóboddí. Ég var lengi vel fastur í svona hugsunarhætti, og finn stundum fyrir þessu ennþá.

Birgitta Jónsdóttir sagði...

Þetta er mikið rétt og það er auðvelt að falla í þessa gryfju. Henni er bæði ýtt að manni og börnunum í þessu risavaxna samfélags draumi. En þessi draumur er bara hilling og maður fær aldrei það sem maður þráir því það er ekki í ytri heiminum. Hljómar kannski eins og klisja en ytri heimurinn er alltaf speglun á ástandinu innra með manni.

uppáhalds kvótið mitt þessa dagana er "betra er að vera hataður fyrir hver maður er en elskaður fyrir hver maður er ekki" :)