17 október 2006

Skemmtilega undarlegir dagar

þar sem draumar verða að veruleika. Dagbók kameljónsins hefur fengið enn eina rósina. Hrifla eftir Viðar Hreinsson birtist á kistan.is í síðustu viku og verð ég að viðurkenna að ég hefði ekki getað óskað mér betri rýni um bókina. Hún einkennist af virðingu og fagmennsku, tíma og vandvirkni. Bæði hann og Úlfhildur hafa gert henni þannig skil að ég get ekki annað en verið þakklát fyrir þeirra vinnubrögð. Þegar verk manns eru tekin fyrir þá er maður alltaf hálf hræddur um að einhvers miskilnings gæti eða eitthvað fari forgörðum. En þau bæði hafa náð að lesa í kjarna hennar og skilið hvað tilraun mín snérist um. Hvað meira gæti maður farið fram á? Ekkert, nema kannski að þeir sem enn hafa ekki gefið sér tíma til að lesa hana, drífi sig núna til þess. Held að margir séu hræddir um að þetta verk sé eitthvað sem það ekki er.

Í tilefni af þessum miklu mæringum mun ég bjóða bókina til sölu á aðeins 1000 krónur í nákvæmlega eina viku. Til að nálgast hana er best að nálgast mig; birgitta at this.is.

Smellið HÉR til að lesa hrifluna hans Viðars.

Í morgunn fékk ég svo fasta viðveru á bokmenntir.is. Þar fann ég frábæra grein sem Úlfhildur hefur skrifað um verk mín frá upphafi til dagsins í dag. Finnst hún ná því að lýsa brambolti mínu í ritheimum eins og mig hefði dreymt um að einhver sæi það. Ég er henni hjartanlega sammála þegar kemur að öllu sem hún skrifar. Bæði það sem flokkast mætti sem málskrúð mitt og allt hitt sem jákvæðara er. Ég er hreinlega að springa af innri gleði og ytra þakklæti. Það er ekkert sjálfgefið að fá réttilegar umfjallanir og ég hef oftar en einu sinni séð verk mín túlkuð á einhvern fljótfærnislegan hátt.

Þá kom út í síðustu viku ein af þýðingunum sem ég hef verið að vinna að í ár. Samtalsbók Ikdea og Gorbachev. Hefur verið undarlegur rússíbani... en mest um vert að bókin sé komin út og að þessar gagnlegu og oft á tíðum stórmerkilegu hugmyndir og hugmyndafræði sé orðin aðgengileg Íslendingum.

Í nóvember koma svo út Lífsreglurnar fjórar, þýddi þá bók fyrir Sölku.

Undanfarið hef ég verið að finna mig aftur. Hef verið hálf týnd í öllu þessu vinnuálagi og ekkert er skemmtilegra en að finna sig með svona marga jákvæða hluti að taka á móti manni.
Þegar ég vinn mikið hverf ég inn í einhvern heim þar sem ég vinn eins og sílarflökunarkona. Fylli hverja tunnuna eftir aðra og hætti ekki fyrr en allt er komið í tunnurnar, svo líð ég útaf í burn out ástandi, er tóm og langar ekkert annað að gera en að sofa, lesa, sofa, éta nammi, sofa, lesa, lesa meira og sofa.

En nú er tími til að fagna. Hvernig gerir maður það aftur?

Engin ummæli: