29 maí 2007

Ljóð fyrir Têt

eftir Ted Sexauer

Lang Cô þorpinu, Víetnam
Á nýju tungli, 31/1/1995

Þetta er ljóðið
sem mun bjarga lífi mínu
þetta er línan sem mun lækna mig
þetta orð, þetta, orðið orð hið eina sanna

þessi andardráttur hinn eini sanni ég.

(úr Veterans of War, Veterans of Peace)

Fannst bara eitthvað við þetta ljóð sem fékk mig til að verða að þýða það...

26 maí 2007

Þetta er hreiður

Finnst erfitt að skrifa persónulega á moggabloggi. Hér líður mér eins og enginn lesi það sem ég skrifa. Er allt of meðvituð um alla sem lesa hitt bloggið. Ég er þreytt á hinu pólitíska orðgjálfi. Ætla að halda því frá kameljónshreiðrinu. Var að fara í gegnum gömul mail dröft áðan og fann nokkur ljóð sem ég skrifaði þegar ég heyrði að mamma hefði dáið og verið endurlífguð. Ætla að deila einhverju hér. Þau eru óunninn og kannski allt of persónuleg. En eftir að hafa hugsað mikið um hvað ég vil verða þegar ég verð stór, þá fæ ég alltaf bara eitt svar. Rithöfundur og skáld. Það er það eina sem ég vil gera. Held að ég geti gert best gagn þannig. Líður best þegar ég er að skrifa, hvort heldur það er að umorða annarra orð í þýðingum eða haldin þeim andans losta sem innblástur er.

Í dag dó hún
blæddi út á búðargólfið

Einkennilega órólegur friður

og svo hrökk hún inn í sig aftur

þjáningin samankreppur sektarkendarkippur
lamdi hjartað af stað

Í eitt andartak var andlit hennar
fyllt friði

og hún vildi út
inní friðinn
út úr þessum skrokki
til að finna
sig
á

heila

Lítil ljóstýra í lófa

vonin um snögga aftöku

--------------------------------------

Sjáðu mig
hvað ég þrái faðm þinn
sjáðu mig
hve mikið ég elska þig
vissi ég nokkru sinni að hvert andartak er jafn dýrmætt

Ég reyni að kalla upp krítarhvíta mynd
en sé ekkert nema liti

------------------------------------------



Einhversstaðar í hvítu rúmi
brakandi léreft
og ærandi pípið
í vélunum sem knýja þig áfram

einhversstaðar ertu
ég kafa inn í drauminn
óstyrkum höndum
ríf þig út
en kem tómhennt til baka

------------------------

hlustaðu
það er söngfugl
fastur í reykháfnum

hann syngur uns röddinn rám
sem í kráku

svolgrar í sig óendanleikan
og hann fellur
fellur
til að rísa
upp

var það sem engill eða fugl
ég veit það ekki

leita að rödd hans
en hún ferðast ekki í vindinum
heldur í óminni minninga
og vitundunni
að uppgjörið var löngu búið

það var bara biðin
þessi hryllilega bið

og öll táknin sem ég sá
voru ekki óskhyggja
heldur raunveruleikinn

25 maí 2007

Að kosningum afstöðnum

tekur introspective líf við. Stundum þá langar mig bara að draga mig inn í mína kameljónsskel og fá frí. Þá á ég við frí frá því að hitta fólk og hefja djúpsjávarköfun innra með mér. Veiða orðin og skrifa. Hef ekki haft tíma til slíkrar iðju um langt skeið og er satt best að segja að springa.

18 febrúar 2007

Kæru

lesendur, vinir, vandamenn og gestir. Ég hef ekki tíma til að hafa mörg blogg í gangi og hef því flutt mig á moggablogg í bili. Finnst margt fyrirkomulagið þar sniðugt, sér í lagi úrvinnsla mynda, tónlistar og myndbanda. Ef þið hafið áhuga á að halda áfram lestri á minni frekar ópersónulegu dagbók þá bendi ég ykkur á að kíkja þangað. birgitta.blog.is Ég er miklu duglegri að setja inn efni þar..

23 janúar 2007

Delphin

er svolítið sérstök persóna, sumir segja að hann sé klón af mér því við erum svo lík í útliti. En hann er mun meiri rebel en ég var á þessum aldri:) Og algerlega ófeiminn að gera það sem honum langar til að gera. Ég var nú bara bókaormur og prakkari á laun. Vorum að fagna nýju ári á nýárshátíð búddistafélagsins míns um daginn og þar náði þessari mynd af honum þar sem hann tekur hið sjálfskipaða hlutverk forsöngvarans mjög alvarlega. Hann vill alls ekki fá klippingu, finnst svo gott að finna hárið strjúkast við bakið. Ég var aftur á móti á þessum aldri með algert strákahár, held reyndar að það hafi verið vegna þess að ég neitaði að láta greiða mér.

Moggablogg

slóðin á það er birgitta.blog.is Hef sett nokkur klassísk lög í jukeboxið og einhverjar örfáar myndir. Kíkið endilega við þar, ég er miklu virkari þarna heldur en hér vegna þess að það er meira samfélag í gangi og samskipti við aðra bloggara.

Er farin

að blogga á mbl.is blogginu. Verð að viðurkenna að það er mjög flott kerfi. En hef ákveðið að halda áfram með mitt persónulega blogg hér. Hitt snýr meira að mínum pólitísku skoðunum og nöldri:)

Nú styttist óðum í að ég fari til Granada sem hin íslenska Sendiherrafrú ljóðsins, hátíðin lítur vægast sagt vel út. Ég verð á besta hótelinu í bænum og fæ sérstakan grænmetisætu matseðil. Á hinum austur Evrópsku hátíðum hef ég þurft að borða sama matinn dag eftir dag vegna þess að conceptið grænmetisæta er þeim framandi.

Sá í gær að hinn nýkjörni aftur forseti Ortega mun mæta á einhverja uppákomu okkar. Það er sumar þarna og yfirleitt 24 stiga hiti. Ég mun lesa þrisvar og verð síðust á mikilvægasta kvöldinu segja þau mér. Ætla að lesa eitt ljóð úr nýju bókinni sem ég er að vinna að og tvö eldri ljóð sem ég orti á ensku fyrir einhverjum árum, annað er um stríðin í heiminum okkar og hitt og skáld heimisins. Það ljóð var einhverju sinni birt í dagblaði í Nígeríu. Hef ekki haft neinn tíma til að skella inn upplýsingum hér um skáldin sem verða þarna með mér. Hef eitt öllum stundum undanfarnar vikur í að laga smákverin, datt í að laga ljóð og myndir í þeim og hafa þau tekið stakkaskiptum. En það er nú alltaf svo með svona skapandi vinnu að hún tekur meiri tíma en maður heldur því hún er svo skemmtileg að tíminn hverfur. Var að lesa frábæra bók um daginn sem heitir Travel light og svo er maður bara að lesa Alan Moore, sá hinn sami og gerði V for Vendetta. Mjög skringilegur heimur sem hann dregur upp en jafnframt heillandi.

Annars er ég alveg himinlifandi út af vinnunni minni, hún er gefandi, lærdómsrík og í aðdraganda kosninga ákaflega spennandi.

Hér er linkur í hátíðina sem ég er að fara á: http://www.festivalpoesianicaragua.org.ni/index.htm

03 janúar 2007

Var að skoða

listann yfir þessi 113 skáld sem taka þátt í hátíðinni í Níkaragúa og ég verð þarna í afar góðum félagskap. Mikið af stórskáldum sem hafa látið að sér kveða í grasrótinni víðsvegar um heim og hinu pólitíska landslagi ljóðsins.

Ég ætla ef ég hef tíma að taka saman smá upplýsingar um þau skáld sem ég þekki til en það er ekki nema rétt rúmlega mánuður þangað til að ég fer til Granada og skella því hér á bloggið. Þessi hátíð lítur út fyrir að ætla að verða eins og sú besta sem ég hef farið á til þess, þeas hátíðin í Kólumbíu.

Var að lesa Sendiherran og hefði getað skrifað áþekka bók um upplifun mína á tveimur alveg hryllilegum austur evrópskum skáldahátíðum. Mér var svo nóg boðið eftir þá seinni sem ég fór á að ég ætlaði aldrei aftur á skáldahátíð en svo flaug boð um þessa í Níkaragúa og hún er bara of spennandi til að taka ekki þátt.

Meira um það síðar: en ég er núna ákveðin í að fjárfesta í diktafón og taka viðtöl við nokkur vel valin skáld fyrir action poet seríuna mína. Kannski verður úr því lítil bók. Er nú þegar komin með eitt mjög flott viðtal við Sam Hill sem hratt af stað Poets against the War : ég er ekkert nema spennt núna...

02 janúar 2007

Skrauteldar

Íslendingar eru markaðssettir sem fíflin sem skjóta upp milljónum króna, dansa dauðadrukknir í kringum gullkálfinn og þeim er ekkert heilagt þegar nýju ári er fagnað. Fólk kemur hér til að upplifa þessi ósköp og er yfirleitt frekar kjaftstopp yfir geðveikinni sem við þeim blasir. En það er nú alltaf gaman fyrir litla þjóð að útlendingar sýni siðvenjum þeirra athygli: eins og til dæmis sýniþörfin á sviðakjömmum og hlandlyktinni af hákarlinum, brennivínið og bjórleysið. Ég skil eiginlega ekki þessa tegund af sýndarþörf.

En nóg um það, ég er hér að fara að tala um helvítis flugeldana sem ég fæ sífellt meiri óbeit á. Í fyrsta lagi þá væri þetta svosem allt í lagi ef fólk gæti hugsanlega mögulega tamið sér að skjóta þeim upp á réttum tíma: þ.e.a.s. klukkan tólf og svo þyrfti maður ekkert að heyra eða sjá þennan andskota í heilt ár. Þó bannað sé með lögum að skjóta þessu upp í ótíma þá gerir fólk það viðstöðulaust. Í gærmorgunn vöknuðum við upp fyrir allar aldir út af því að einhverjum datt í hug að fara að skjóta einhverjum hávaðakökum. Í nótt fór eitthvert flugeldafíflið að skjóta upp annarri hávaða Njálsbrennu eða hvað þetta nú heitir allt saman. Á gamlárskvöld byrjaði fólk að skjóta upp klukkan sjö og ekkert lát var á þessu fyrr en klukkan var um eitt. Þetta bara hættir að vera skemmtilegt þegar það er svona mikið af þessu. Mengunin var slík að allir mengunarmælar hreinlega sprungu og fólki með astma og aðra lungnasjúkdóma var ráðlagt að halda sig inni.

En það er í ljósi hinnar fullkomnu íróníu sem mér blöskrar þetta enn meir. Við Íslendingar köllum gjarnan skrautelda kínverja. Þ.e.a.s. við erum að sprengja kínverja. Nú hefur það semsagt komið í ljós að við Íslendingar meðkaupum á fugeldum frá þrælabúðum Kínverja erum í orðsins fyllstu merkingu að sprengja Kínverja. Um 10.000 Kínverjar hafa látist við að framleiða flugeldana sem við í Vesturlöndum skjótum svo ákaft upp. Fólkið í skrauteldaverksmiðjunum vinnur í sautján tíma á dag á lúsarlaunum og deyr svo við þann feril skrauteldagerðarinnar sem hve hættulegastur er.

Og gleymum ekki að mengunin sem af þessu kemur gufar ekki bara upp í ekkert. Hún fer út í andrúmsloftið og lendir einhversstaðar. Með því að fara hamförum við þetta erum við að auka við gróðurhúsaáhrifin og í ljósi þess hve alvarleg sú vá er, þá finnst mér kominn tími til að fólk styrki björgunarsveitirnar á annan hátt og borgir og sveitafélög sjái bara um skrauteldasýningarnar á miðnætti eins og gert er víðast hvar annars staðar í hinum svokallaða siðmenntaða heimi.