02 janúar 2007

Skrauteldar

Íslendingar eru markaðssettir sem fíflin sem skjóta upp milljónum króna, dansa dauðadrukknir í kringum gullkálfinn og þeim er ekkert heilagt þegar nýju ári er fagnað. Fólk kemur hér til að upplifa þessi ósköp og er yfirleitt frekar kjaftstopp yfir geðveikinni sem við þeim blasir. En það er nú alltaf gaman fyrir litla þjóð að útlendingar sýni siðvenjum þeirra athygli: eins og til dæmis sýniþörfin á sviðakjömmum og hlandlyktinni af hákarlinum, brennivínið og bjórleysið. Ég skil eiginlega ekki þessa tegund af sýndarþörf.

En nóg um það, ég er hér að fara að tala um helvítis flugeldana sem ég fæ sífellt meiri óbeit á. Í fyrsta lagi þá væri þetta svosem allt í lagi ef fólk gæti hugsanlega mögulega tamið sér að skjóta þeim upp á réttum tíma: þ.e.a.s. klukkan tólf og svo þyrfti maður ekkert að heyra eða sjá þennan andskota í heilt ár. Þó bannað sé með lögum að skjóta þessu upp í ótíma þá gerir fólk það viðstöðulaust. Í gærmorgunn vöknuðum við upp fyrir allar aldir út af því að einhverjum datt í hug að fara að skjóta einhverjum hávaðakökum. Í nótt fór eitthvert flugeldafíflið að skjóta upp annarri hávaða Njálsbrennu eða hvað þetta nú heitir allt saman. Á gamlárskvöld byrjaði fólk að skjóta upp klukkan sjö og ekkert lát var á þessu fyrr en klukkan var um eitt. Þetta bara hættir að vera skemmtilegt þegar það er svona mikið af þessu. Mengunin var slík að allir mengunarmælar hreinlega sprungu og fólki með astma og aðra lungnasjúkdóma var ráðlagt að halda sig inni.

En það er í ljósi hinnar fullkomnu íróníu sem mér blöskrar þetta enn meir. Við Íslendingar köllum gjarnan skrautelda kínverja. Þ.e.a.s. við erum að sprengja kínverja. Nú hefur það semsagt komið í ljós að við Íslendingar meðkaupum á fugeldum frá þrælabúðum Kínverja erum í orðsins fyllstu merkingu að sprengja Kínverja. Um 10.000 Kínverjar hafa látist við að framleiða flugeldana sem við í Vesturlöndum skjótum svo ákaft upp. Fólkið í skrauteldaverksmiðjunum vinnur í sautján tíma á dag á lúsarlaunum og deyr svo við þann feril skrauteldagerðarinnar sem hve hættulegastur er.

Og gleymum ekki að mengunin sem af þessu kemur gufar ekki bara upp í ekkert. Hún fer út í andrúmsloftið og lendir einhversstaðar. Með því að fara hamförum við þetta erum við að auka við gróðurhúsaáhrifin og í ljósi þess hve alvarleg sú vá er, þá finnst mér kominn tími til að fólk styrki björgunarsveitirnar á annan hátt og borgir og sveitafélög sjái bara um skrauteldasýningarnar á miðnætti eins og gert er víðast hvar annars staðar í hinum svokallaða siðmenntaða heimi.

Engin ummæli: