07 september 2006

Skapandi dagur gegn stóriðju

Listamenn taka höndum saman og sýna stuðning við náttúruvernd á Íslandi með listsköpun og tónlistarviðburðum á laugardaginn þann 9. september. Ávallt bætast fleiri og fleiri í hóp þeirra sem eru tilbúnir til að mótmæla þeim stóru mistökum sem ríkisstjórn Íslands er að gera núna og eru allir hvattir til að mæta í miðbæ Reykjavíkur og sýna baráttunni gegn stóriðjustefnunni stuðning og hvetja ríkisstjórnina til verka í átt að uppbyggingu umhverfisvæns samfélags sem stuðlað getur að atvinnusköpun í sátt og samlyndi við náttúruna. Öllum er opið að taka þátt með beinum hætti, hvort sem þeir vilja lesa ljóð, spila, mála eða hvað sem þeim dettur í hug.

Ætlunin er að byrja daginn kl. 13 á Hlemmi með karnivalgöngu sem fer niður Laugaveginn og endar á Austurvelli. Í hana eru allir hvattir til að mæta í búningum eða einhverju litríku gervi, taka upp hlóðfæri, dansa, syngja eða bara vera með. Á Austurvelli verða síðan tónleikar, uppákomur og lifandi málverk mun skapað af gestum og gangandi sem síðar verður gefið núverandi ríkisstjórn sem ábyrg er fyrir stærstu umhverfisspjöllum af mannavöldum í allri Íslandssögunni. Meðal þess tónlistarfólks sem fram mun koma má nefna Mr. Sillu og Mongoose, Ghostdigital, Palindrome, Cocktail Vomit, Bent og Magga Legó.

Einnig verður opnun í Gallerí Gyllinhæð og silkiþrykk fyrir utan Nakta apann. Þangað getur fólk komið með flíkur og töskur til að láta prenta á. Þeir sem vilja vita meira eða gefa kost á sér við aðstandendur dagsins er bent á að skrifa tölvupóst á skapandiskodun@hotmail.com.

Allir þeir sem vilja stuðla að verndun íslenskrar náttúru og uppbyggingu umhverfisvænna atvinnuvega eru hvattir til að mæta á staðinn og tjá skoðun sína.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ frænka. Ég týndi þér um tíma en fann þig í dag, setti hlekkinn á þig.
Kær kveðja!