18 september 2006

Mér

tókst hið ómögulega. Að þýða tvær bækur, að brjóta um eina bók, að skrifa eina ljóðabók, að byrja í nýrri vinnu og halda geðheilsu í öllu þessu fári á þessu ári. Að ógleymdu allri sjálfboðaliðavinnunni sem ég þó hef skorið við nögl.
Ég held að sjaldan hafi ég lært eins mikið um sjálfa mig eins og í þessari hálfs árs geðveiku vinnutörn.
Kannski vegna þess að mér tókst að sleppa sjálfsvorkunarfuglinum emjandi út úr lífi mínu. Engar fleiri krossfestingar í eldhúsinu. Ég hef aftur á móti fengið smá bölsýni í blóðið. Sá Al Gore myndina og þrátt fyrir að í henni væri smá von þá er enn svo langt í að fólk fari að gera eitthvað til að hoppa út úr vítahringnum sem við erum búin að koma okkur í. Svefngenglar.

En nóg um það: fór á Þingvelli með Delphin og Guðborgu Gná um helgina. Fórum leið sem ég hef ekki gengið áður. Langi stígur og enginn var á ferðinni nema við, löbbuðum inn í vættagjá og hámuðum í okkur aðalbláber og krækiber, fullkomin hrútaber og böðuðum okkur í úðanum af Öxarárfossi.

Sá líka myndina hans Nick Cave. Hún er víkingamynd ástralalalala og meðan ég horfði á hana mundi ég af hverju ég vildi ekki búa í Ástralalalíu. En samt var eitthvað við þetta land. Eitthvað sem skaut rótum og ég held að ég muni alltaf sakna einhvers sem mér er fyrirmunað að skilja. Kannski framandleikanum. En myndin var góð, nei hún var meira en góð. Hún syngur í mér eins og hlátur Kookaburra, sem mér þótti frekar óhugnalegur um dimmar nætur í húsinu við jaðar skógarins, en þessi söngur sem minnti á barnsgrátur laumaði sér inn í mig og mig dreymir um að fanga hann ásamt hitanum sem ég sakna án afláts.

Engin ummæli: