02 júlí 2006

Brúðkaup aldarinnar í mínu lífi:)

Bróðir minn gifti sig í gær yndislegri konu. Yfirleitt leiðist mér ákaflega í kirkjum enda fer ég nú eiginlega bara í jarðafarir en presturinn sem gaf þau saman var alveg laus við helgislepju og gæti þess vegna flokkast undir "stand up" prest. Skemmtiatriðin voru frábær og einhver fullkomin fegurð hjúpaði allt og alla. Já ég veit að ég er væmin og það er allt í lagi. Ég er væmin manneskja að upplagi þó að töffarinn í mér fái nú oft að vera gríman sem ég ber. Veislan var ekki síður skemmtileg. Og maturinn ógleymanlegur, já ég tek svo djúpt í árina vegna þess að ég hef verið grænmetisæta í 20 ár og hef bara aldrei fengið svona góðan mat eins og í gær, því að sjálfsögðu var tekið tillit til sérvitringanna í fjölskyldinni og framreiddur sér matur fyrir oss. Fjölmargt var gert til skemmtunar í veislunni og vegna þess að brúðhjónin eiga sér bæði afar músíkalskar fjölskyldur var mikið um tónlistaratriði og fjöldasöng. Ég samdi eitt ljóð í tilefni dagsins og flutti það með fósturbróður okkar honum Hjörleifi Vals og tja okkur tókst að fá fólk til að tárast... það ætti að segja allt um það atriði...
hér er annars ljóðið sem ég gaf þeim það heitir "Áheitin"

Óheft ástin
óskilyrt
flæðir
streymir
hvítfreyðandi
vatnsfall
fegurstu kennda
sem í mannshjartanu býr

Hrifnæm ástfangin
með tímanum
eðalvín

Brugg, grugg úr lífsins vatni

Lífsvegurinn er
kræklóttur stígur
hindrana og reynslu
en samstíga
verða hæstu fjöll kleif
dýpstu gljúfur yfirstíganleg

Viltu taka þessa konu
eins og hún er án þess að
vilja
þurfa
breyta henni
fullkomin eins og hún er í hjarta þér
um aldir alda

Viltu taka þennan mann
eins og hann er án þess að
vilja
þurfa
breyta honum
fullkominn eins og hann er í hjarta þér
um aldir alda

tileinkað Jóni Tryggva og Lindu á brúðkaupsdaginn þeirra 1. júlí 2006

og ég er svo stolt af mínum litla bróður sem er drengur góður í alla staði...

Engin ummæli: