26 júlí 2006

Öræfaævintýr




Þá er ég komin aftur til byggða eftir ógleymanlegt óbyggðaævintýr. Fjölskyldubúðirnar okkar tókust eru að takast miklu mun betur en ég þorði að vona. 150 manneskjur örkuðu um í 9 tíma undir traustri leiðsögn Grétu frá Vaði og Ástu síðasta laugardag. Mikilfengleiki og titrandi tár, reiði og gleði. Tilfinningaskalinn spilaður innra með okkur öllum í undarlegum samhljóm á meðan á göngunni stóð. Þarna voru manneskjur frá öllum skala lífsins. Gangan sjálf endaði svo í þögulli mótmælastöðu á útsýnispalli Landsvirkjunar. Stíflustæðið eitthvað svo óraunverulegt, eins og brothættur glerveggur inn í óþekkta ógn. Ég vildi óska að allar þær upplýsingar sem streyma upp á yfirborðið núna hefðu fundið farveg fyrir nokkrum árum. Ég hef af því þungar áhyggjur að stíflan bresti ef vatninu verði hleypt á og ég veit að ég er ekki ein um það og að tilfinningar mínar eru við rök studdar. Ég trúi enn á kraftaverk. Ég trúi því enn að af þessu verði aldrei. Dreymi enn Töfrafossa sem framleiða regnboga með þungum jökulsárkrafti. Ég trúi á vætti og huldufólk. Ég er íslendingur, það er mér eðlislægt að hlusta á hjartslátt jarðar. Megi landinu okkar verða hlíft við sturluðum draumórum Jakobs nokkurs sem skipti landinu í álland og fiskeldisland. Ekkert annað. Landið á aðeins að nýta, nýta á þann hátt að við eigum allt okkar undir stökkbreyttum álfisk og bandarískum síkópatafyrirtækjum ala the corperation....

jakob jakob jakob... ætli hann dreymi enn um glitrandi álfiska... með gullhjörtu

enn og aftur lesið draumalandið... enn og aftur þá hefur þjóð okkar verið blekkt... rekja má frumorsök þessarar blekkingar í staðreyndum sem andri setti saman í þessari bók... þetta er hans beina aðgerð... ásta og ósk í augnabliki stýra skrefum um feigðarinnar land í átt að von um að bjarga megi feigum.... ég trúi því að upplýst þjóð taki skynsamar ákvarðanir... núna erum við bara hrædd hrædd hrædd við ekkert... nema orðin tóm

ég vildi ekki fara heim eftir að hafa upplifað þetta landslag enn einu sinni, eftir að hafa tekið þátt í aðgerð sem á hæglátan hátt risti svo djúpt að ég finn landið anda í gegnum mig. ég vildi ekki fara heim vegna þess að fólkið þarna var svo einstaklega skemmtilegt, fróðleiksfúst, gefandi og sérstakt. ég vildi ekki fara heim vegna þess að maturinn frá belgísku anarkistakokkunum frá belgíu var ógleymanlegur, vegna þess að snæfell kallaði á mig að klöngrast upp í skjólgóðar hlíðarnar, vegna þess að niður lækjarins var raunverulegri en niður umferðarinnar, vegna þess að tónlistin var rétt að koma og ég rétt að fara, vegna þess að ég á enn eftir að lesa svo margt í þessa náttúru og átti enn eftir að komast nær hreindýrunum, hvet alla sem eru að spá í að fara að drífa sig upp að snæfelli fyrir næstu helgi.... sætaferðir frá egilsstöðum fyrir hina bíllausu og allt um það á vefnum okkar http://www.islandsvinir.org

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nice idea with this site its better than most of the rubbish I come across.
»