15 júlí 2006

Að finna gullmola í sorpinu

Ég hef haft sama tölvupóst heimilisfangið síðan 1995 og var hún lengi vel mjög sýnileg á vefnum mínum sem hefur verið jafn lengi til. Því er þetta vefheimilisfang til á öllum spammmmmm diskum og listum sem eru framleiddir til að plaga saklaust fólk sem vill ekki óboðna þjónusta, en ég neita að breyta heimilisfangi mínu þrátt fyrir stöðugt ónæði af sölumönnum og svikurum og perrum og leirskáldum. Hef fengið varðhund sem þykist sjá í gegnum hverjum er treystandi að koma inn í forstofu. Í hverri viku koma um 1500 ofangreindar plágur í fýluferð til mín og enda í sorpinu án þess að ég verði mikið vör við þær. Nema ég held að hundinum sé farið að förlast því hann hleypir rolex sölumönnum inn um bakdyrnar og hendir út gullmolum. Ég fann gullmola í gær í sorptunnunni vegna þess ég treysti ekki alveg þessum hundi. Lít yfirleitt yfir sorpið áður en ég eyði því alveg.

Gullmolinn minn er að vera boðið til Nikaragúa á alþjóðlega skáldahátíð í febrúar næstkomandi. Ég er heimshornaflakkari í eðli mínu og veit fátt skemmtilegra en að heimsækja framandi staði, sérstaklega hef ég tekið ástfóstri við Suður-Ameríku eftir að hafa farið til Kólumbíu 1996 á heimsins mögnuðust skáldahátíð sem haldin er í Medellín. Það er eiginlega frekar slæmt að hafa byrjað skáldahátíðarflandursferil minn á þeirri sem ber höfuð og herðar yfir aðrar slíkar. Ég hef farið á tvær síðan og voru þær báðar í Austur-Evrópu, ein í Rúmeníu og önnur í Makedóníu. Báðar alveg skelfilega leiðinlegar, en ég hefði umborið kakkalakkana í klósettinu, að vera með nýaldarsönggyðjum í herbergi og hryllilegan matinn ef við hefðum fengið að lesa fyrir almenning eins og í Kólumbíu, en við skáldin vorum mest að tala um ljóð við hvort annað (ekki beint það skemmtilegasta sem ég veit), lesa fyrir hvort annað og heimsækja trúarleiðtoga. En í Kólumbíu lásum við á götuhornum, í fangelsum, í háskólanum, í leikhúsinu, í risastóru útileikhúsi sem rúmaði 5000 manneskjur og það var pakkfullt og hittum framandi seiðmenn og frábæra salsadansara.

Ég er því ægilega spennt að sjá hvernig þessi hátíð verður í Nikaragúa. Hún getur ekki orðið verri en Rúmenía eða Makedónía... ég var reyndar búin að lofa mér því að fara aldrei aftur á skáldahátíð, en Nikaragúa.... allt of spennandi til að hafna....

Ég kann reyndar enga spænsku, gaf meira að segja dr k spænskukúrsinn minn áður en hann fór að landi brott.... verð víst að fá mér nýjar lærdómsbækur...

3 ummæli:

Kristian Guttesen sagði...

Til hamingju, þetta er kærkomið tækifæri.

Nafnlaus sagði...

Nice idea with this site its better than most of the rubbish I come across.
»

Nafnlaus sagði...

Very best site. Keep working. Will return in the near future.
»