
Gullmolinn minn er að vera boðið til Nikaragúa á alþjóðlega skáldahátíð í febrúar næstkomandi. Ég er heimshornaflakkari í eðli mínu og veit fátt skemmtilegra en að heimsækja framandi staði, sérstaklega hef ég tekið ástfóstri við Suður-Ameríku eftir að hafa farið til Kólumbíu 1996 á heimsins mögnuðust skáldahátíð sem haldin er í Medellín. Það er eiginlega frekar slæmt að hafa byrjað skáldahátíðarflandursferil minn á þeirri sem ber höfuð og herðar yfir aðrar slíkar. Ég hef farið á tvær síðan og voru þær báðar í Austur-Evrópu, ein í Rúmeníu og önnur í Makedóníu. Báðar alveg skelfilega leiðinlegar, en ég hefði umborið kakkalakkana í klósettinu, að vera með nýaldarsönggyðjum í herbergi og hryllilegan matinn ef við hefðum fengið að lesa fyrir almenning eins og í Kólumbíu, en við skáldin vorum mest að tala um ljóð við hvort annað (ekki beint það skemmtilegasta sem ég veit), lesa fyrir hvort annað og heimsækja trúarleiðtoga. En í Kólumbíu lásum við á götuhornum, í fangelsum, í háskólanum, í leikhúsinu, í risastóru útileikhúsi sem rúmaði 5000 manneskjur og það var pakkfullt og hittum framandi seiðmenn og frábæra salsadansara.
Ég er því ægilega spennt að sjá hvernig þessi hátíð verður í Nikaragúa. Hún getur ekki orðið verri en Rúmenía eða Makedónía... ég var reyndar búin að lofa mér því að fara aldrei aftur á skáldahátíð, en Nikaragúa.... allt of spennandi til að hafna....
Ég kann reyndar enga spænsku, gaf meira að segja dr k spænskukúrsinn minn áður en hann fór að landi brott.... verð víst að fá mér nýjar lærdómsbækur...
1 ummæli:
Til hamingju, þetta er kærkomið tækifæri.
Skrifa ummæli