25 nóvember 2005

Skringilegir dagar

Einu sinni sagði vinkona mín við mig að eitt Birgittuár væri eins og sjö ár hjá öðrum. Í fyrstu fannst mér þetta mjög svalt. Var jafnvel svolítið montin af þessu. Alltaf fundist ég hundgömul og ekkert jafnast á við að geta réttlæt fyrir sér að maður sé sérdeilis sérstakur. En sko ég er eiginlega orðin hundleið á þessu. Vildi fá eitt ár þar sem ekkert dramatískt gerist, engir furðulegir dauðdagar ættmenna og vina, enginn fáránlegur aðskilnaður, sjúkdómar, gjaldþrot. Ég er meira að segja orðin leið á ævintýrum, allavega í bili.
Jólin eru alltaf frekar skringileg, pabbi dó klukkan 18:00 á aðfangadag og þó að ég sé í raun og veru löngu búin að jafna mig á því, þá eru jólin pínulítið eins og jarðaförin hans. Núna er nýr dauði yfirvofandi og á einhvern hátt þá minnir hann mig á öll hin dauðsföllin. Ég er semsagt á dauðatrippi núna, er stöðugt að velta fyrir mér dauða í bæði jákvæðum og neikvæðum skilningi. Ég er alls ekki hrædd við dauðann, miklu frekar pirruð út í kringumstæðurnar á þessum dauðsföllum.

Nóg um þetta, fór á annað skemmtilegt ljóðakvöld, Mike Pollock sem var einu sinni minn perluvinur áttu afmæli og annar vinur minn Dr.K var að lesa upp á ljóðafmæliskvöldi Mike til heiðurs. Bragi Ólafs las nýleg ljóð og brilleraði, vex stöðugt sem skáld. Didda las líka og mér fannst sum nýju ljóðin hennar líka með því besta sem ég hef heyrt hana lesa. Ég þekki náttúrulega bókina hans KKG út og inn, eftir að hafa brotið hana um og grúskað í henni frá frumbyrjun. Hann er skemmtilegur upplesari, allavega þá fór ég ekkert að hugsa á finnsku á meðan hann las(og ég kann enga finnsku).
Ekki má gleyma MegaSukki, langt síðan ég hef séð þá í svona góðu formi. Svo tróð upp strákur sem ég man því miður ekki hvað heitir sem var helvíti góður, þó að hann væri búin að fá sér aðeins of marga bjóra. Því miður missti ég að mestu af upplestrinum hans Mike en hef heyrt hann lesa svo oft upp að það ætti ekki að koma að sök. Þetta var í allastaði eftirminnilegt afmæli og Rósenberg er góður staður fyrir upplestra.

Ég hálf kvíði fyrir að lesa upp í Iðu
hef frétt að frekar fáir mæti og staðurinn er frekar kaldur og óupplestrarvænn

Annars þá er ég á fullu að skipuleggja egósentríska uppákomu í höfðu mínu
Verður það mikil veisla til að fagna þessari bók
nánari upplýsingar þegar ég er búin að negla draumastaðinn fyrir þessa uppákomu
og mig vantar líka helling af græjum

Er alltaf eitthvað að bralla og skrifaði reyndar ljóð í dag um dauðann sem mér finnst vera í topp fimm bestu ljóð lífs míns

2 ummæli:

kristian guttesen sagði...

„Heaven is right here on earth if you don't imprison yourself.“ - J.Lydon

Hvenær verður upplesturinn í Iðu?

Birgitta Jónsdóttir sagði...

ég held að hann verði 6. desember....

hvað er aftur linkurinn í þinn vef?