17 janúar 2006

Sannleikurinn í fjölmiðlum

er ekki alltaf það sem sýnist. Það gekk fram af mér eins og svo mörgum öðrum áherslurnar hjá DV og þeir eftirmálar sem þær áherslur á sannleikann sem þær höfðu. Ég verð samt að segja það að aðrir fjölmiðlar eru ekkert betri þegar það kemur að því að segja sannleikann. Því miður virðist almenningur halda að þær hliðar sem sýndar eru í fjölmiðlum og það sem telst fréttnæmt er mikilvægara en það sem þeim finnst eiga að hafa minna vægi í fréttum. Ég hef eiginlega verið hálf andvaka og andsetin af hugsunum vegna þessa. Ég tók eftir furðulegum áherslum í fréttaannál RÚV og þar var sannleikanum svo sannarlega hagrætt og um algera sögufölsun að ræða þegar kom að umfjöllun um mótmælendum kennda við Kárahnjúka í sumar. Var þar látið í veðri vaka að mótmælendurnir væru allir meira og minna stjórnlausir skemmdarverkamenn og að þeir hefðu endað sína mótmælaaðgerðir á Íslandi með því að úða slagorð á Jón okkar Sigurðsson og alþingishúsið. Þó þykir ekki sannað hverjir voru þar að verki við að úða þessa mætu staði sem reyndar voru hreinsaðir af slagorðum fyrir hádegi sama dag og þau sáust. (og ekkert var minnst á sætu aðgerðirnar, picknick við alþingi og karnival og upplýsingatjald og fræðslukvöld í Snarrót). Enginn af þessum stóra hópi mótmælenda sem voru í fjölmörgum tilfellum handteknir á ólögmætan hátt og látnir sitja fangageymslur í meira enn sólarhring í senn, hefur verið kærður. Þá hefur löggjafanum ekki verið stætt á öllum sínum hótunum um brottvísun frá lýðræðiseyjunni. Engum hefur verið brottvísað. Ekkert af þessu kom fram í þessum annál. Ekki heldur aðförinni að mótmælendum sem vakti almenna og réttláta reiði þjóðarinnar, þar sem fólki var veitt eftirför og njósnað var um fólk án nokkurrar sýnilegrar ástæðu nema að fólk hafði sagt að mótmælum yrði haldið áfram. Nei RÚV kaus að sýna einhliða mynd sem þjónaði yfirvaldinu okkar. Þetta er eina fréttaumfjöllunin sem ég þekki í kjölinn en ég hlýt að spyrja mig hve mikið af þessum fréttaannál var sérvalið og sannleikurinn niðurskorinn. Hvað mikið af þeim fréttum sem maður les eru réttar. Sá tildæmis á forsíðu Fréttablaðsins að Nick Cave hafi verið á tónleikum Hætta hópsins og Paul hjá Grapevine heldur hinu sama fram. Voru þessir blaðamenn yfirhöfuð á tónleikunum, vegna þess að enginn sem á tónleikunum var eða skipuleggjendur kannast neitt við að Nick Cave hafi verið þar. Ég var líka á öðrum tónleikum og sá seinna í Fréttablaðinu frétt um þessa tónleika með Rocco nokkrum að söngkonan Beth hafi verið gítarleikari Rocco, en hún kom fram ein og hafði ekkert með hljómsveit Rocco að gera. Þá hef ég tekið eftir því að blaðið Grapevine er fullt af staðreyndavillum sem snúa að mótmælendum kennda við Kárahnjúka. Þessar staðreyndavillur eru svo margar að ég nenni ekki að týna þær allar til, ég rakst á ritstjóra þessa blaðs á tónleikum í Laugardalshöll, hann fræddi mig á því að verið væri að gera úttekt á mótmælum gegn stóriðju og virkjanaframkvæmdum, ég bauð honum að hafa samband við lögfræðing okkar eða mig sjálfa til að fá réttar upplýsingar. En auðvitað var það ekki gert, enda hafa þeir haft horn í síðu okkar síðan í sumar. Þegar ég rakst á staðreyndarvillur í netfjölmiðlum í sumar þá reyndi ég eftir fremsta megni að benda kurteisilega á þær, en Paul á Grapevine hunsaði allar þær leiðréttingar og heldur því samt fram að enginn úr hópnum vilji við hann tala. (þar er hann að vitna í Paul nokkurn Gill sem vildi ekki tala við hann og því hefur hann sett okkur öll undir sama hatt). Aftur á móti stóð ekki á mbl.is að leiðrétta augljósar villur, merkilegt nokk. Það er sorglegt þegar fjölmiðlar neita að leiðrétta það sem þeir augljóslega hafa rangt eftir. Og DV hefur svo sannarlega fengið það óþvegið þegar kemur að því, það sem ég vil bara segja að allir hinir fjölmiðlarnir gera þetta líka. Vandvirkni virðist vera á undanhaldi í blaðamennsku og því er miður. Stundum sér maður þvílíkt bull í fjölmiðlum að það ætti frekar heima í sýndarveruleika en raunveruleika.

Og það má alls ekki gleymast að sannleikurinn er ekki til. Ha, jú tja, enginn sér sama hlutinn á sama hátt, hef aldrei hitt manneskju sem að sér í huga sér nákvæmlega eins borð og ég. Hef aldrei hitt neinn sem ég er alveg sannfærð um að skilji nákvæmlega það sem ég er að segja, tungumálið er vírus eins og Burroughs hélt fram og svo er nú það. Ekkert nema einn stór misskilningur og ekki reyna að halda að það sé einhver sannleikur í því, eða lygi ef því ber að skipta.

Engin ummæli: