28 janúar 2006

helv...

ritlaunin... skil ekki alveg skipulagið við að veita þau. fékk ritlaun þegar fyrsta ljóðabókin mín kom út og síðan ekki sögunni meir. skildi að það væri erfitt fyrir nefndina að veita mér ritlaun þegar ég var ekki beint að fara hefðbundnar leiðir í útgáfu. merkilegt nokk þá hafa þessar óhefðbundnu leiðir opnað allskonar dyr erlendis og ég hef aldrei haft eins marga lesendur að ljóðunum mínum eins og í netheimum. ég hef uppskorið það að vera hluti af hinu alþjóðlega samfélagi skálda og tekið þátt í nýsköpun með þeim, hef verið talin vera frumkvöðull í að koma listum á netið og allt það. ástæðan fyrir því að ég er pirruð út í úthlutunarnefndina er einfaldlega vegna þess að ég hef farið eftir öllum hefðbundnum leiðum og samt er það ekki nóg. ég hef sótt um styrk til að klára dagbók kameljónsins í meira en tíu ár og alltaf fengið nei. á endanum náði ég loksins að klára bókina og koma henni út og bókin hefur fengið mjög góða umfjöllun og dóma en það er ekki nóg. hvað þarf maður að gera til að fá styrk til að geta sinnt ritstörfum?? enginn virðist vita eftir hvaða vinnureglum nefndarmenn og konur vinna. sumir segja að maður verði að fá bók útgefna hjá forlagi, ég veit að það er ekki rétt. aðrir segja að þetta sé klíka, ég veit ekkert um það. ég veit um fullt af skáldum sem svo sannarlega áttu að fá rými til að geta unnið að ritstörfum í ár. ég hef svo sem helling að hugmyndum um hvernig ég myndi vilja sjá þetta kerfi uppfært þannig að fleiri kæmust að. ætla ekki að reifa það hér og nú, vil fyrst skrifa drög að þessum tillögum og reyna að fá rithöfundasambandið til að efna til umræðna um þetta fyrirkomulag og sjá hvort að það séu fleiri sem vilja sjá breytingar á núverandi kerfi. ég veit það allavega að þegar sjóðurinn var stofnaður þá voru vinnureglurnar nokkuð skýrar en þær eru ekki þær sömu nú og þá. ég spjallaði um þetta við Jón frá Pálmholti stuttu áður en hann dó en hann var ein af þeim manneskjum sem að komu að því að undirbúa þetta opinbera styrkjakerfi til rithöfunda. ég held að aðalvandamál sjóðsins sé einfaldlega ekki nægilegt fjármagn. ég kalla allavega eftir umræðu og tillögum að betra kerfi og að þeir sem eru ósáttir hætti að kvarta og geri eitthvað í þessu í stað þess að tuða....

Engin ummæli: