21 janúar 2006

Hætti

að reykja, drap í síðasta stubbinum í stóru ólívukrukkunni klukkan 21:21 á fimmtudagskvöldið úti á svölunum mínum, og auðvitað eins og allir fíklar er ég með það á heilanum að ég sé hætt. Skil ekki af hverju sumir eru svona miklir fíklar í nikótín eins og ég og aðrir geta bara reykt þegar þeim sýnist. Ég arkaði um alla borgina í gær með Neptúnusi, það var gaman, allt of langt síðan við höfum gert eitthvað saman. Fórum í Hljómalind og lásum adbusters. Ætli það sé kúl eða nördalegt?? Who cares. Í nótt svaf ég alls ekki vel. Var næstum farin út og kyrkja einhvern bílatöffara sem var alltaf að þenja bílinn sinn, og ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur gekk þetta svona út í hið óendanlega: alger monthani. Draumarnir mínir voru algerlega súrrealískir og ég svitnaði blásýru, skordýraeitri og nikótíni.
Annars þá er það svolítið fyndið hvað maður er mikill fíkill. Mynd: Birgitta vafin í gult flísteppi í svefnpokaúlpunni út á svölum í blindbyl klukkan sjö að morgni. Reykir hálfblauta sígarettu og hóstar en reykir meira. Þetta er náttúrulega fáránlegt. Hver gerir svona nema algerir fíklar. Af hverju fæ ég ekki almennilega meðferð við þessari fíkn minni sem á að vera eins erfið og heróín fíkn. Nei reynum að hafa meira fé af þessum nikótínþrælum og fáum þá til að ánetjast nikótíntyggjói sem er jafnvel dýrara en helvítis sígaretturnar. Ég vil betri þjónustu, ég vil að minnsta kosti jafn góða þjónustu og alkarnir og hana nú. Maður er jú að spara ríkinu helling af pening með því að spara sér lungnaþembu og krabbamein og hvað nú þetta allt heitir.

Það er allavega eitt frábært við það að hætta að reykja, tíminn líður alveg ótrúlega hægt.

Engin ummæli: