16 maí 2006

Í gærkvöldi

fór ég á fund með nokkrum aðilum sem hafa áhuga á að stofna einhverskonar hóp til að styðja við bakið á aðstandendum sjálfsvíga. Ég hef verið einskonar tilraunadýr í íslensku samfélagi. Þ.e.a.s. hef fengið að upplifa ansi oft kerfisgalla og sem betur fer er til fólk sem vill hjálpa við að laga svo meinlegar veirur í kerfinu .... blóðrásinni. Alla vega ætla ég að taka þátt í að búa til 12 spora hóp fyrir aðstandendur sjálfsvíga... og leggja mitt af mörkunum til að hann verði að alvöru lausn fyrir þennan týnda hóp í samfélaginu.... flestir hafa aldrei hugleitt þetta sem hóp enda er einhver einkennileg skömm ennþá hvílandi yfir þessu formi af dauða... en virðist vera að lagast samkvæmt því sem fundarmenn sögðu í gær....

en allavega þá var þessi fundur haldinn í föngulegu húsi Geðhjálpar og ég hef í tvígang gefið Geðhjálp allar plönturnar mínar þegar ég hef flutt til útlanda og það var alveg ótrúlega gaman (ok ég er pínu blómanörd) að hitta þessi grænu börn mín, (já ég tala við plönturnar mínar og finnst það gaman), þau hafa stækkað heil ósköp og fjölgað sér í nýja potta... ég fékk mér afleggjara....


ég hef góða tilfinningu fyrir þessum hóp ... þessu starfi ... eðalfólk ... ja svo bara bretta upp ermarnar og klóna mig

þýddi tvö ljóð um helgina
fékk þau ekki birt hjá tregawöttum það er allt í lagi
er reyndar með eina þýðingu þar núna á frábæru ljóði Diane di Prima og mér finnst frábært að það sé svona vettvangur til fyrir íslensk skáld... ég svaraði reyndar nýhilskallinu eftir bókum en fékk ekkert svar
er ég ennþá litli ljóti andarunginn í bókmenntaheimum landsins
ég vona það:)

já ljóðin eftir uppáhalds palestínska skáldið mitt í útlegð í boði þýðingarkameljónsins Brihida

palestínska skáldið Mahmoud Darwish - úr safnbókinni, Því miður, var það paradís í þýðingu Birgittu Jónsdóttur
Darwish er þekktasta útlagaskálda Palestínumanna og sum ljóðin hans sungin á ökrunum þegar fólk er við vinnu. Þorpið sem hann ólst upp í hefur verið jafnað svo rækilega við jörðu og jafnvel beinin í kirkjugarðinum voru færð annað...

Ég á heima þar

Ég á heima þar. Ég á margar minningar. Ég fæddist eins og allir fæðast.
Ég á móður, hús með mörgum gluggum, bræður, vini og fangaklefa
með kuldalegum glugga! Ég á bylgju sem mávar hrifsuðu til sín, mína eigin yfirlitsmynd.
Ég á gegnumsýrt engi. Í djúpum sjónsviðs orða minna, á ég tungl
næringu fugls og ódauðlegt ólífutré.
Ég hef búið á þessu landi löngu áður en sverðin breyttu manninum í fórnarlamb.
Ég á heima þar. Þegar himininn syrgir móður sína, þá skila ég himni til
móður sinnar.
Og ég græt svo að skýið sem snýr til baka beri tár mín.
Til að brjóta lögin, hef ég lært öll orðin sem eru nauðsynleg fyrir blóðprófið.
Ég hef lært og tekið í sundur öll orðin til að hægt sé að draga frá þeim
eitt stakt orð: Heim.


Nóttin þar

Nóttin þar er kolsvört ... og rósirnar eru færri.
Vegurinn mun klofna jafnvel meira en áður. Dalurinn rifna í sundur
og hlíðarnar falla á okkur. Sárin galopnast. Ættingjar flýja.
Fórnarlömbin drepa hvort annað til að eyða fórnarlambssýn sinni og finna huggun.
Við vitum meira en við vissum áður. Eitt hyldýpi mun leiða til annars.
Þegar við tileinkum okkur hugmynd sem ættbálkarnir tilbiðja og er brennimerkt á
hverfandi líkömum þeirra,
munum við verða vitni að einræðisherrum sem skera út nöfn sín á hveitikornin til að sýna
vald sitt.
Höfum við ekki breyst? Menn fylgja kennisetningum sverðsins
og úthella blóði. Láta sandinn hlaðast upp.
Konur sem trúa á það sem er milli læra sinna fylgja kennisetningum
lostans.
Láta skuggana skreppa saman.

Samt mun ég fylgja vegi söngsins, þó rósirnar mínar séu færri.

2 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Þetta var ekki viljandi með bækurnar. Pósturinn þinn misfórst bara eitthvað - Viðar hefur samband við þig fyrir opnun.

Birgitta Jónsdóttir sagði...

já hann hafði samband áðan
takk fyrir að láta mig vita
þið eruð jarðýtur
og nú þarf ég að fara að sauma fleiri bækur
verð því væntanlega handlama á laugardaginn