27 maí 2006

Fjallkonan

Óhamin ást
flæðir inn í þungar jökululsár
streymir í gruggugan sjóinn sem umlykur
viðkvæman svörð landsins

Órólegir draumar
fylltir
gráti og öskrum
meðan þeir skera djúpt í móðurkviðinn

Risabor
treður sér í sköp náttúrunnar
Hleypir af með sífellt meiri græðgilosta
—álsæðinu

Drunur og jarðhræringar
vekja okkur
við dögun þjóðarblekkingar

Henni blæðir
Sárin eru djúp
Fóstrið sem inni í henni vex
hefur hundrað höfuð
nartandi í hvort annað
með hvössum tönnum skammtímagræðginnar
—eitruð úrgangsframtíð

Í fjarlægð sjáum við stóriðjuvininn
með áhyggjulaust glott sitt
Konungur fjallsins
blindaður græðgi
og metnaði

Hún var hið ævaforna helgitákn
Tilbeiðslutákn til þessarar öfgakenndu náttúru
Villt fegurð sem sindrar í kristaltærum augum
—tákngerving hins íslenska hálendis

Öldungar, vættir, hulin öfl og Íslandsvinir
mynda skjaldborg um landið
galdurinn stigmagnast
fóstureyðing
fóstureyðing
á marghöfða álfóstrinu
á stóriðjudraumnum

Galdurinn er ást okkar
á sérhverjum fossi
á sérhverjum steini
á sérhverju fjalli
á sérhverju lífi
sem er á útrýmingarlistanum

26 maí 2006

Svo þetta

Ekki missa af þessu!

Karnival - Tónleikar - Áskorun til stjórnvalda - 27. maí

Nú verður að sýna stjörnvöldum að íslendingar vilja ekki tapa sjálfstæði sínu og náttúru á altari fjölþjóða stórfyrirtækja, líkt og öll önnur þriðjaheimsríki.

Við villjum uppbyggilegt skapandi samfélag sem getur lifað í sátt og samlyndi við náttúruna.

Stórsveit valinkunnra tónlistarmanna leiða gönguna. Sigurrósarstrákarnir klæða sig upp og þenja drumbur, djasstríóiðflís og lúðrasveitir djamma niður laugarvegin ásamt Gus Gus, Leaves og fleirum og fleirum og þér!

Stórtónleikar með KK, Hjálmum, Flís og Bógómíl font, Benna Hemm Hemm, Steindóri Anderssen, Birgitta Jónsdóttir, Dr. Disko Shrimp o.fl.

Unga kynnslóðin kynnir kröfu sína um framtíðarlandið Ísland.

Áskorun kynnt um breyttar áherslur stjórnvalda í umhverfismálum.

Fyrst þetta

Næst komandi föstudag 26.maí verður Tónlistakarnival á Stúdentakjallaranum aðgangseyrir verður 1000kr sem rennur óskertur til ABC barnahjálpar. Húsið opnar 20.

Eftirfarandi listamenn koma fram:
Aizyou
Andrúm
Helgi Valur
Laylow
Kvartett Þóru Bjarkar.
Birgitta Jónsdóttir kemur og les uppúr verkum sínum.

20 maí 2006

Tveir



upplestrar í næstu viku...

einn á kosningahátíð Vinstri Grænna í Borgarleikhúsinu vafinn í fiðlutóna Hjörleifs Vals og annar í Stúdentakjallaranum á föstudagskvöld....

meira um þetta þegar nær dregur

ég er að reyna að temja mér að sofna snemma á kvöldin svo ég geti gert eins og í morgunn að vakna hálf fimm
sumum finnst þetta hálffurðulegt háttarlag en eina leiðin fyrir mig að anna öllu því sem ég þarf að gera

besti tíminn til að skrifa er áður en allir vakna
heyri andardrátt borgarinnar og enginn á sjái nema eftirlegukindur og einstaka fugl

18 maí 2006

Draumur

eftir mig á tíuþúsund tregawöttum ... hljómorð sem ég gerði með Pollock bræðrum 1999

Smákverin mín verða til sölu í nýju ljóðabókabúðinni sem Nýhil er að stofna.

Ljóðabókabúðin opnar kl. 16 laugardaginn 20. maí 2006, að Laugavegi 59 (Kjörgarði, inn af Smekkleysubúðinni).

Ég er ákaflega ánægð að það séu til Nýhilingar, þessi hópur varð til þegar ég var í útlöndum og það sem þau eru að gera er ansi nálægt því sem ég hef dreymt um að myndi verða til hér á landi.

takkog afturtakk fyrir frumkvæðið og tilgerðaleysið.....

16 maí 2006

Í gærkvöldi

fór ég á fund með nokkrum aðilum sem hafa áhuga á að stofna einhverskonar hóp til að styðja við bakið á aðstandendum sjálfsvíga. Ég hef verið einskonar tilraunadýr í íslensku samfélagi. Þ.e.a.s. hef fengið að upplifa ansi oft kerfisgalla og sem betur fer er til fólk sem vill hjálpa við að laga svo meinlegar veirur í kerfinu .... blóðrásinni. Alla vega ætla ég að taka þátt í að búa til 12 spora hóp fyrir aðstandendur sjálfsvíga... og leggja mitt af mörkunum til að hann verði að alvöru lausn fyrir þennan týnda hóp í samfélaginu.... flestir hafa aldrei hugleitt þetta sem hóp enda er einhver einkennileg skömm ennþá hvílandi yfir þessu formi af dauða... en virðist vera að lagast samkvæmt því sem fundarmenn sögðu í gær....

en allavega þá var þessi fundur haldinn í föngulegu húsi Geðhjálpar og ég hef í tvígang gefið Geðhjálp allar plönturnar mínar þegar ég hef flutt til útlanda og það var alveg ótrúlega gaman (ok ég er pínu blómanörd) að hitta þessi grænu börn mín, (já ég tala við plönturnar mínar og finnst það gaman), þau hafa stækkað heil ósköp og fjölgað sér í nýja potta... ég fékk mér afleggjara....


ég hef góða tilfinningu fyrir þessum hóp ... þessu starfi ... eðalfólk ... ja svo bara bretta upp ermarnar og klóna mig

þýddi tvö ljóð um helgina
fékk þau ekki birt hjá tregawöttum það er allt í lagi
er reyndar með eina þýðingu þar núna á frábæru ljóði Diane di Prima og mér finnst frábært að það sé svona vettvangur til fyrir íslensk skáld... ég svaraði reyndar nýhilskallinu eftir bókum en fékk ekkert svar
er ég ennþá litli ljóti andarunginn í bókmenntaheimum landsins
ég vona það:)

já ljóðin eftir uppáhalds palestínska skáldið mitt í útlegð í boði þýðingarkameljónsins Brihida

palestínska skáldið Mahmoud Darwish - úr safnbókinni, Því miður, var það paradís í þýðingu Birgittu Jónsdóttur
Darwish er þekktasta útlagaskálda Palestínumanna og sum ljóðin hans sungin á ökrunum þegar fólk er við vinnu. Þorpið sem hann ólst upp í hefur verið jafnað svo rækilega við jörðu og jafnvel beinin í kirkjugarðinum voru færð annað...

Ég á heima þar

Ég á heima þar. Ég á margar minningar. Ég fæddist eins og allir fæðast.
Ég á móður, hús með mörgum gluggum, bræður, vini og fangaklefa
með kuldalegum glugga! Ég á bylgju sem mávar hrifsuðu til sín, mína eigin yfirlitsmynd.
Ég á gegnumsýrt engi. Í djúpum sjónsviðs orða minna, á ég tungl
næringu fugls og ódauðlegt ólífutré.
Ég hef búið á þessu landi löngu áður en sverðin breyttu manninum í fórnarlamb.
Ég á heima þar. Þegar himininn syrgir móður sína, þá skila ég himni til
móður sinnar.
Og ég græt svo að skýið sem snýr til baka beri tár mín.
Til að brjóta lögin, hef ég lært öll orðin sem eru nauðsynleg fyrir blóðprófið.
Ég hef lært og tekið í sundur öll orðin til að hægt sé að draga frá þeim
eitt stakt orð: Heim.


Nóttin þar

Nóttin þar er kolsvört ... og rósirnar eru færri.
Vegurinn mun klofna jafnvel meira en áður. Dalurinn rifna í sundur
og hlíðarnar falla á okkur. Sárin galopnast. Ættingjar flýja.
Fórnarlömbin drepa hvort annað til að eyða fórnarlambssýn sinni og finna huggun.
Við vitum meira en við vissum áður. Eitt hyldýpi mun leiða til annars.
Þegar við tileinkum okkur hugmynd sem ættbálkarnir tilbiðja og er brennimerkt á
hverfandi líkömum þeirra,
munum við verða vitni að einræðisherrum sem skera út nöfn sín á hveitikornin til að sýna
vald sitt.
Höfum við ekki breyst? Menn fylgja kennisetningum sverðsins
og úthella blóði. Láta sandinn hlaðast upp.
Konur sem trúa á það sem er milli læra sinna fylgja kennisetningum
lostans.
Láta skuggana skreppa saman.

Samt mun ég fylgja vegi söngsins, þó rósirnar mínar séu færri.

10 maí 2006

Ég hef

einstakt lag á að koma mér í allt of mörg verkefni...

en ég er viss um að tíminn sé teygjanlegt fyrirbæri og á einhvern hátt tekst mér alltaf að gera allt sem ég hef lofað

er reyndar að reyna að minnka við mig sjálfboðaliðavinnuna, hún var orðinn svo yfirþyrmandi stór partur af lífi mínu
en verð samt að segja að ég hef lært alveg óendanlega mikið af þessari vinnu og er líka sannfærð um að öll sú orka sem ég gef komi til baka til mín á einn eða annan hátt...

og loksins loksins fékk kameljónið ljóð birt í TMM

08 maí 2006

Nýtt vefrit

um ljóð... loksins á Íslandi... 1000 Tregavött - endilega að nota og lesa ef þú hræðist ekki ljóð

annars er ég í algeru gleðikasti vegna þess að ég sé fram á það að veturinn er ekki endalaus og fæ eitthvað ægilegt kikk út úr því að sjá plönturnar mínar vaxa af slíku offorsi að þær verða næstum því vanskapaðar. Stundum blómstra þær einhverjum alfurðulegustu blómum sem ég hef augum litið... ég er með veikleika fyrir kaktusum og þykkblöðungum og blómin þeirra sum eru alveg ótrúlega ójarðanesk. Var á rölti í gærkvöldi og var að kafna úr einskærri væmni gagnvart vorinu. Sá fegurðina í öllum þessum grænu sprotum og einhverja litla fugla á leik sem voru svo kátir og sungu svo hátt. Ég er hætt að halda mest upp á haustið... vorið er aftur minn tími... þegar lífið fyrir eitthvað óútskýrt kraftaverk springur út úr dauðanum.

ég er í dilemma gagnvart vinnunni... fékk mun minna í laun en ég hélt mig hafa samið um... yfirmaður deildarinnar minnar er hættur og man ekkert eftir því sem okkur fór á milli og hvað gera menn þá...

það virðist vera eitthvað lögmál í mínu lífi að ef hlutirnir geta farið útskeiðis ... þá gera þeir það
aldrei þetta smooth ride sem ég vonaðist eftir

fór að heimsækja hafið í gær ... ég elska íslenskar fjörur... að þvælast um steina og renna og detta og láta sjóinn ná sér og verða távotur og finna vatnið sullast í skónum...

03 maí 2006

Íslandsvinir kynna

"Takið þátt í göngu fyrir Íslandi og náttúru Íslands.

STÓRSVEITIN:

Planið er að búa til RISASTÓRA l stórsveit Lúðrasveit sem mun þramma niður laugarveginn. Í þessari lúðra/stórsveit eru ALLIR sem vilja spila velkomnir og helst sem flestir sem láta sig lýðræði-og náttúru Íslands varða.

Nánari upplýsingar og tíma setningar eru í bréfinu frá Helenu Stefánsdóttur hér að neðan.

Vinsamlegast látið þetta ganga sem víðast og helst af öllu gefiði mér afdráttarlaust svar ef þið komist örugglega í gönguna.


Eins og ég segi þá er mikilvægt að sem FLESTIR taki þátt, þannig höfum við áhrif og líklegra að málefnið komist til skila. Þannig að ég ítreka beiðni mína um að þið talið við ALLA sem þið þekkið og vitið að vilja taka þátt.

Allar hugmyndir varðandi önnur atriði en tónlist í göngunni eru líka vel þegnar.

Heyrumst og sjáumst 27.maí."

Koma svo.... þetta verður meiriháttar gaman og ógleymanlegt í alla staði:)