01 október 2009

Frá grasrót til þings - Frá þingi til grasrótar

Hreyfingin hélt opinn fund með óháðum grasrótarhópum í gærkvöldi, miðvikudeginum 30. september, í kjallaranum á Kaffi Rót til að bjóða fram aðstoð sína og opna fyrir samstarfsvettvang grasrótarsamtaka almennt. Auk þess kynnti Hreyfingin markmið sín og stefnumál á komandi vetri.

Það er skemmst frá því að segja að aðsókn var vonum framar, enda mættu talsmenn 13 hreyfinga á fundinn og kynntu sín baráttumál:
• FSFÍ – Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
• Kortlagning iðnkerfa
• ATTAC, Association for the Taxation of Financial Transactions for the Aid of Citizens
• Kreppuvaktin
• Viðspyrna
• Gagnavinnsla um viðskiptatengsl
• Gagnsæishópurinn
• Aðgerðarhópur háttvirtra öryrkja
• Beint lýðræði, Skuggaþing
• Hugmyndaráðuneytið
• Lífeyrissjóðshópurinn
• Rauður vettvangur
• Hagsmunasamtök Heimilanna

Auk þess kynnti Daði Ingólfsson hugmyndafræði Hreyfingarinnar og Birgitta Jónsdóttir sagði frá leiðum þingmanna til að ljá sjónarmiðum grasrótarhópa rödd á Alþingi auk kynningar á stefnu Hreyfingarinnar. Eftir kynningar var orðið laust og viðstaddir ræddu stöðuna.

Það er ljóst að mikil þörf er á sameiginlegum vettvangi grasrótarsamtaka þar sem einstaklingar innan þeirra geta miðlað af reynslu sinni og starfað saman að sameiginlegum baráttumálum. Það er mikill hugur í mönnum og greinilegt að almenningur ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í baráttunni sem framundan er.
Hreyfingin verður gátt fyrir grasrótarhópa inn á Alþingi og mun hjálpa þeim að koma boðskap sínum á framfæri í gegnum þingmenn bæði Hreyfingarinnar sjálfrar og annarra stjórnmálafla eftir því sem færi gefast. Markmiðið er einnig að greiða samskiptaleiðir milli grasrótarhópa og hjálpa til við að auðvelda samskipti við stofnanir og fyrirtæki. Þannig verður til þekkingarmiðja, sem einnig gefur fleirum kost á að koma sínum málum á framfæri við stofnanir, embættismenn, fyrirtæki og almenning í gegnum fjölmiðla. Stefnt er á að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem þörf er á og er á færi Hreyfingarinnar.
Hreyfingin ætlar í framhaldinu að gera grasrótarfundi að föstum viðburði og eru forsvarsmenn hópa sem vilja taka þátt hvattir til að setja sig í samband við talsmann Hreyfingarinnar, Daða Ingólfsson á dadi@1984.is

2 ummæli:

Siggi Hrellir sagði...

Gott mál. Ég vona að Hreyfingin skapi góð vaxtarskilyrði fyrir allar þessar grasrætur. :-)

Eva Hauksdóttir sagði...

Þrennt sem mig langar að vita:

Hverju er Borgarahreyfingin búin að áorka síðan hún komst á þing?

Hefur Hreyfingin sömu stefnu og Borgarahreyfingin að leggja sjálfa sig niður þegar ákveðin mál hafa náðst fram?

Ef svo er, hver eru þau mál, þau sömu og hjá Borgarahreyfingunni eða einhver önnur eða fleiri?