07 febrúar 2006

Undanfarin

vika hefur verið vika hinnar fullkomnu tilvistarkreppu. Fyrir þremur árum síðan ákvað ég að hætta algerlega að mála og sinna bara ritstörfum. Sem að ég hef gert af miklum eldmóð og ekki bara fórnað því að mála heldur haft sultarólina frekar þrönga og fundist það allt í lagi vegna þess að ég fann eftir mína síðustu tilvistarkreppu þegar ég tók þessa ákvörðun um að einfalda líf mitt og þjóna ekki mörgum listagyðjum í einu að það sem hafði alltaf laðað mig mest til sín og það sem mér finnst ég ekki geta verið án væri að skrifa. Sér í lagi ljóð. Það að hafa verið hafnað enn einu sinni af ritlaunanefnd satt best að segja setti mig all rækilega út af laginu, vegna þess að ég þrái svo mikið að getað einbeitt mér að næstu verkum mínum, sérstaklega þessum fjórum skáldsögum sem ég verð að skrifa og ég hef mótað ansi vel í huga mér og hafist handa við að setja eina þeirra á blað. Ég get ekki hugsað mér að vinna hana svona gloppótt eins og Dagbókina, enda var Dagbókin þess eðlis að það mátti skrifa hana þannig, hún þurfti langan tíma í mótun enda mitt fyrsta skáldverk.

Ég var semsagt mikið að spá í að fara að gera eitthvað allt annað. Var farin að spyrjast fyrir um skóla og var í algerrrrrrrri krísu. Svo í fyrrakvöld þá sat ég út á svölum eins og svo oft áður og starði á stjörnurnar blika í niðdimmri nóttinni og yfir mig helltist hugmynd að heilstæðri ljóðabók, og ég stökk heljarstökk inn í eldhús og hlammaði mér fyrir framan tölvuna mína, og ég byrjaði að skrifa aftur. Og ég fann einkennilega fullnægingu streyma um mig, einkennilega ró. Ég ætla ekkert að segja um bókina fyrr en ég er búin að klára beinagrindina af henni. En ég hafði áður beðið um tákn, teikn um hvað ég ætti að gera við líf mitt. Gefast upp á þessum ritstörfum og fara bara að gera eitthvað allt annað, (ég hef svo sem reynt það áður) eða ætti ég að skrifa. Næsta dag vaknaði ég mun minna þunglynd og sjálfsvorkunnin var með öllu horfin. Þá hringir í mig vinur minn og segir, "ég er með jákvæðar fréttir fyrir þig," og las svo fyrir mig það nýjasta inn á bokmenntir.is.
Þar var Guðrún Geirsdóttir Lektor við HÍ beðin um að tiltaka hvaða bækur henni fannst standa upp úr jólabókaflóðinu og hún nefndi þrjár, Steintré Gyrðis, Sumarnótt Jóns Kalmars og Dagbók kameljónsins...
Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa það sem hún sagði um bækurnar, smellið þá hér

Ég er svona nokkuð nösk á mín tákn og fannst þetta bara mjög táknrænt. Síðar sama dag fékk ég svo loksins sölutölurnar frá Sölku og ég má bara vel við una. Ég næ því að dekka kostnaðinn og ef að ég er dugleg ætti ég að geta komið einhverjum bókum í verð á þessu ári og kannski verð ég svo heppin að finna einhverja vinnu þar sem ég get skrifað áfram eða brotið um bækur. Mér finnst það mjög skemmtilegt og í raun og veru gefandi. Hef svo mikið spáð í mínar eigin bækur og finnst gaman ef að ég get gert eitthvað fyrir aðra sem þeir eru ánægðir með. Plús að öfugt við vefsíðugerð að þá er prentun bókar endanlegt dæmi. Ekki endalaust krukk í henni til eilífðarnóns. Annars þá virðast mín örlög ætla að verða í ár að lepja dauðann úr skel þegar það kemur að fjármálum. Ég hef verið á höttunum eftir verkefnum og það eina sem ég hef fengið er að setja upp bók eftir höfund sem mér er algerlega fyrirmunað að rukka fyrir.

En semsagt þegar öllu er á botninn hvolft verð ég bara að horfast í augu við það að ég get ekki gert annað en að skrifa og að það er það sem gefur mér mest í þessu lífi þegar kemur að vinnu og nú hætti ég þessari andstyggðar tilvistarkreppu. Birgitta er rithöfundur, skáld, skrifari og bókavera. Og ég er bara fjandi sátt við það.

En ég ætla samt að gera eitthvað til að kalla til endurskoðunar á þessu blessaða ritlaunakerfi. Meira um það síðar. Ég nefnilega luma á nokkrum mjög góðum hugmyndum sem að ég vil endalega koma í réttar hendur.

Ég er að reyna að venja mig af yfirlýsingaræðinu mínu og ætla ekkert að segja neitt fyrr en ég veit hvað ég er að gera...

Þannig að ég er að rífa niður krossinn sem ég setti upp til að hengja mig upp á dag hvern í tilvistarkreppunni og eymdinni og held að ég noti naglana til að hengja myndir upp á veggina mína í staðinn...

2 ummæli:

kristian guttesen sagði...

En. Hefði með engu móti verið hægt að mála þó svo þú gerðir ritstörf að aðalstarfi þínu? Að vísu mun Hallgrímur Helgason hafa hætt að mála, eða svo skilst mér. En afhverju þurftir *þú* að hætta því alveg? Það hljóta að vera til dæmi um að þessar listgreinar haldist í hendur. Já, eða að maður geti haft málaralistina sem hobby.

En „hafandi sagt þetta“ (svo ég grípi í enskt mál) þá hætti ég einhverntímann að spila á gítar án þess ég segi að það hafa skipt sköpum fyrir gítarsögu Íslands, og að sama skapi að tefla, bara út af því ég missti áhugann eða fékk áhuga á öðru. Sem fólk gerir. Að sjálfsögðu.

Það var bara þetta, hafi málaralistin verið svona fyrirferðamikil. Ég hef oft hugsað um þetta í öðrum tilvikum en þau sem ég nefndi, svo ég varð bara að spyrja „fagmanneskju“ hvað veldur.

Birgitta Jónsdóttir sagði...

að mála er eitt, að gera það af einhverri alvöru er annað, ég á helling af málverkum sem ég hef alls ekki haft tíma til að sýna. ég málaði og skrifaði jöfnum höndum og stundum þá vinn ég áfram með það sem ég málaði í tölvunni, en sem sagt það er ekki það sama, það er bara á mörkunum að ég hafi tíma til að sinna ritstörfum, því varð ég að velja.
kannski mun ég mála síðar, eftir tíu ár, lífið er algerlega ófyrirséð. ég er síbreytileg, þess vegna er það sem ég geri aldrei niðurnjörfað í einhver algild prinsip. nema kannski það að ég myndi seint vinna fyrir landsvirkjun, nema að þeir myndu breytast í kjölin, já þá meira að segja myndi ég endurskoða þessa núgildandi afstöðu. annars þá dett ég alltaf í tilvistarspurningar á þessum árstíma, veit samt alveg hvað ég vil gera þegar ég verð stór, hvort að vefa megi ritsörfin inn í það á eftir að koma í ljós:)