09 nóvember 2005

Fréttatilkynningin:::::

Skáldsagan Dagbók kameljónsins eftir Birgittu Jónsdóttur er komin út

Birgitta Jónsdóttir hefur í fjöldamörg ár unnið að því að þurrka út mörkin sem aðskilja listgreinar. Í Dagbók kameljónsins tekur hún skáldsöguna ofurlítið nær teiknimyndasöguforminu, þar sem hin myndræna upplifun fær aukið vægi miðað við það sem við eigum að venjast sem lesendur. Þá leikur hún sér með söguformið, tekur dagbókina alla leið með því að þurrka út mörkin á milli veruleika og ímyndunar. Bókin hefur verið í vinnslu í með nokkrum hléum í 18 ár en segja má að vinna Birgittu við hinn myndræna heim internetsins í áratug hafi nokkuð mikið vægi í því hvernig þessi saga þróaðist. Síðast en ekki síst notar höfundur heilmikið efni úr sínum eigin dagbókum frá því þegar hún er um tvítugt, til að ná frá raunsærri mynd af hugarheimi söguhetjunnar, hvaða síður eru alvörufærslur og hvaða síður eru uppspuni er erfitt að átta sig á, en þær dagbækur sem stuðst er við áttu aldrei að koma fyrir sjónir annarra, þannig að þær ættu að sína djúpt inn í sálarkviku söguhetjunnar og setja tóninn fyrir annað í bókinni.
Söguhetjan sem skrifar dagbókarfærslurnar er sett inn í þannig kringumstæður að hún verður að pína sig til að horfast í augu við það sem hún óttast mest til þess að halda lífi, minningarnar sínar. Ef að hún horfist ekki í augu við sína eigin sjálfseyðingarhvöt þá fer fyrir henni eins og pabba hennar sem í upphafi bókarinnar fremur sjálfsmorð. Með dauða sínum gefur hann Argitt tækifæri á að byrja upp á nýtt. Því verður sjálfsvíg hans til þess að gefa henni líf. En tekst Argitt að komast út úr sjálfspíslinni og draumórum um dauðann sem einni allsherjar lausn á sinni vanlíðan. Það er staðreynd að lótusblómið verði aðeins fallegt og stórt ef undir því sé nógu mikill skítur og myrkur. Aðeins með því að horfast í augu við myrka og hryllilega bernsku sína getur söguhetjan orðið heil. Lesandinn fær að fylgjast með sálarstríði hennar í dagbókarfærslum og minningum sem á meðan Argitt umbreytir sínu innra ástandi, breytast úr hryllingi í eitthvað manneskjulegt og jafnvel grátbroslegt. Hún gerir sér grein fyrir því að enginn nema hún getur haft áhrif á upplifun sína á fortíðinni. Það er ekki hægt að skilgreina þessa bók, hún er fyndin, sorgleg, fallegt, ljót, hrá, fáguð. Dagbókin er kviksjá, full af vísbendingum um eitthvað sem gefur sögunni meiri dýpt eða tekur hana í aðrar víddir upplifunar, hún er ríkulega myndræn, þar sem úir og grúir af listaverkum, ljósmyndum og kroti.

Það er bókaútgáfan Radical sem gefur bókina út og er hún fáanleg í öllum helstu bókaverslunum landsins, en bókaútgáfan Salka sér um dreifingu.

Engin ummæli: