24 október 2006

Gönguferðir

aftur komnar á dagskrá hjá mér. Var alveg búin að sniðganga fjöruna vegna anna allt of lengi. Fór með Delphin í göngutúr í fjörunni í gær og þar lét hann mig leika einhvern furðulegan leik sem vakti hjá okkur kátínu. Fann að vetrardrunginn hvarf á einu augnabragði og svei mér þá ég held að ég muni gera snjókarla á færibandi og kannski kaupa mér snjóþotu í stað þess að bölsótast.

22 október 2006

Sofandi

á frumsýningu! Ég er kannski alltof kröfuhörð en mér fannst þessi útfærsla á Amadeus svo hryllilegt að undir lokin var ég búin að loka augunum og útilokan ljótustu leikmynd sem ég hef séð og æði misjafnan leik okkar stærstu og einbeitti mér aðeins að tónlistinni. Naut sálumessunar í hálfgerðu móki inní mínum haus og fannst að þetta hefði verið flott útvarpsleikrit.

Ætla að kaupa mér sálumessuna, var búin að gleyma klassískri tónlist. Kannski gerist hið sama um ljóð. Maður verður svo upptekinn af samtímanum og þessu endalausa áreiti að maður hættir að sjá tæra snilld.

Sumir njóta bara viðbjóðar og vilja lesa um þarma sem festast í niðurföllum.

Ég er að spá í að hætta að ganga með linsurnar og sjá heiminn aftur í móðu.

Eru

íslensk skáld löt? Hvert er hlutverk skálda? Eiga þau að vera framsækin, gagnrýnin, sjálfhverf? Er einhver starfslýsing á því að vera ljóðskáld? Er einhver þörf fyrir ljóðskáld? Er þetta ekki starfsstétt sem er algerlega tilgangslaus?

Samkvæmt rannsóknum mínum á gegni þá eru ljóðabækur eiginlega aldrei í útláni á bókasöfnum. Nýjasta bókemenntasögubókin gerir skáldum lítil skil og það er ákveðin stefna hjá fjölmiðlum sér í lagi ljósvakamiðlum að fá ekki ljóðskáld til að lesa upp því það þarf að borga þeim höfundagjöld. Og ekki eru ljóðabækur nægilega vinsælar til að fjalla um þær í sjónvarpi.

Ljóðið er eins og dauður hestur og enginn les það nema hráætur orða. Ljóð eru hallærisleg, verða aldrei töff, sama hve mikið þau eru blönduð. Niður með ljóðið, kominn tími fyrir líknardauða enda ömurlegt að horfa á það engjast í sífelldum tilgangslausum endurtekningum einskis.

21 október 2006

Hér með

tilkynnist að ég hef ákveðið að bjóða mig fram í hálsakoti fyrir Framsókn.

Eftir að hafa gaumgæft þetta og þrálát bónorð um að bjóða mig fram fyrir framsýnasta og hjartahlýjasta flokk landsmanna þá komst ég að þeirri niðurstöðu að fólkið sem leiðir þann flokk á mesta samleið með þjóðinni. Og vegna þess hve hógvær og stillt ég er þá virðist þetta vera hinn fullkomni flokkur fyrir mig.

Ég hef aldrei verið í neinni klíku, en þarna er stóra tækifærið til að fá að vera með. Ég hef alltaf verið frekar einföld og trúgjörn og hvergi annars staðar fyrirfinnst eins mikið af samherjum mínum á því sviði.

Framsókn er framsækinn flokkur og einstaklega hugmyndaríkur. Fersk framsókn, frjáls framsókn, freistandi framsókn.

Annars hef ég alltaf verið pínu skotin í Sjálfstæðisflokknum. Finnst til dæmis enginn eins traustvekjandi og Björn Bjarnason, vildi gjarnan sjá hann koma fram í hvítum sjóliðabúning. Veit ekki hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn sé ríkari af einfeldningum í ríkisstjórn, held að Framsókn eigi vinninginn. Þess vegna ætla ég að bjóða mig fram fyrir Framsókn.

Mér fannst það vera svo örlagaþrungið og skýr merki um þetta þegar ég mætti til vinnu í gær og fyrsta verkefnið mitt var að gera auglýsingu fyrir Framsókn þar sem auglýst var eftir frambjóðendum. Hafði reyndar haft fyrir því áður en ég fór að heiman að næla í úlpuna mína sæta merkið mitt þar sem á stendur aldrei kaus ég Framsókn. Ég vona að þeir erfi það ekki við mig landsfeðurnir.

19 október 2006

Meira

fjör! Ég er að skipta um vinnu. Hef unnið á Blaðinu síðan í mars en elskulegir yfirmenn mín þar voru eitthvað svo hægfara þegar kom að því að fella úr gildi uppsögn sem ég fékk þar á bæ fyrir tæpum tveimur mánuðum að ég ákvað að hafa smá stolt og sækja bara um vinnu annarsstaðar.

Mér hefur fundist alveg ótrúlega lærdómsríkt að vinna á dagblaði. Að sumu leiti skil ég betur af hverju vinnubrögðin eru svona slöpp oft á tíðum. Of lítill tími og mikið álag og burn out, þetta venjulega. Hef kynnst helling af skemmtilegu og sérstaklega áhugaverðu fólki og ef ekki hefði verið hið mikla álag og svona léleg laun þá hefði ég kannski barist enn frekar fyrir því að fá að vera með áfram.

Mér finnst ég ríkari fyrir vikið og er bara ánægð með þetta allt saman. Finnst reyndar alveg ótrúlega leiðinleg þessi hefð sem er að skapast hér með að vera alltaf að endurnýja starfsfólk eins og skítugar nærbuxur. Ég hef eiginlega aldrei unnið neins staðar þar sem fyrirtækið annað hvort gerbreytist vegna samruna við annað, nýr yfirmaður eða gjaldþrot. Mjög mjög furðulegt. Lífið virðist bara endurtaka sig með ólíkum blæbrigðum. En einhver sagði, að þá sé einhverjir lærdómsgullmolar þar að finna, þeas í endurtekningunni. En ég stundum kölluð Pollýanna hef ekki fundið þá í þetta sinn.

Nýja vinnan mín er reyndar alveg rosalega rosalega spennandi og á örugglega alveg fullkomnlega við kameljón. Byrja þar 1. desember. Meira um það síðar.

17 október 2006

Skemmtilega undarlegir dagar

þar sem draumar verða að veruleika. Dagbók kameljónsins hefur fengið enn eina rósina. Hrifla eftir Viðar Hreinsson birtist á kistan.is í síðustu viku og verð ég að viðurkenna að ég hefði ekki getað óskað mér betri rýni um bókina. Hún einkennist af virðingu og fagmennsku, tíma og vandvirkni. Bæði hann og Úlfhildur hafa gert henni þannig skil að ég get ekki annað en verið þakklát fyrir þeirra vinnubrögð. Þegar verk manns eru tekin fyrir þá er maður alltaf hálf hræddur um að einhvers miskilnings gæti eða eitthvað fari forgörðum. En þau bæði hafa náð að lesa í kjarna hennar og skilið hvað tilraun mín snérist um. Hvað meira gæti maður farið fram á? Ekkert, nema kannski að þeir sem enn hafa ekki gefið sér tíma til að lesa hana, drífi sig núna til þess. Held að margir séu hræddir um að þetta verk sé eitthvað sem það ekki er.

Í tilefni af þessum miklu mæringum mun ég bjóða bókina til sölu á aðeins 1000 krónur í nákvæmlega eina viku. Til að nálgast hana er best að nálgast mig; birgitta at this.is.

Smellið HÉR til að lesa hrifluna hans Viðars.

Í morgunn fékk ég svo fasta viðveru á bokmenntir.is. Þar fann ég frábæra grein sem Úlfhildur hefur skrifað um verk mín frá upphafi til dagsins í dag. Finnst hún ná því að lýsa brambolti mínu í ritheimum eins og mig hefði dreymt um að einhver sæi það. Ég er henni hjartanlega sammála þegar kemur að öllu sem hún skrifar. Bæði það sem flokkast mætti sem málskrúð mitt og allt hitt sem jákvæðara er. Ég er hreinlega að springa af innri gleði og ytra þakklæti. Það er ekkert sjálfgefið að fá réttilegar umfjallanir og ég hef oftar en einu sinni séð verk mín túlkuð á einhvern fljótfærnislegan hátt.

Þá kom út í síðustu viku ein af þýðingunum sem ég hef verið að vinna að í ár. Samtalsbók Ikdea og Gorbachev. Hefur verið undarlegur rússíbani... en mest um vert að bókin sé komin út og að þessar gagnlegu og oft á tíðum stórmerkilegu hugmyndir og hugmyndafræði sé orðin aðgengileg Íslendingum.

Í nóvember koma svo út Lífsreglurnar fjórar, þýddi þá bók fyrir Sölku.

Undanfarið hef ég verið að finna mig aftur. Hef verið hálf týnd í öllu þessu vinnuálagi og ekkert er skemmtilegra en að finna sig með svona marga jákvæða hluti að taka á móti manni.
Þegar ég vinn mikið hverf ég inn í einhvern heim þar sem ég vinn eins og sílarflökunarkona. Fylli hverja tunnuna eftir aðra og hætti ekki fyrr en allt er komið í tunnurnar, svo líð ég útaf í burn out ástandi, er tóm og langar ekkert annað að gera en að sofa, lesa, sofa, éta nammi, sofa, lesa, lesa meira og sofa.

En nú er tími til að fagna. Hvernig gerir maður það aftur?

09 október 2006

Að axla

ábyrgð á eigin lífi og örlögum virðist vera flestum afar erfitt. Fólk er yfirhöfðuð ekki ánægt með hlutskipti sitt, hvernig samfélagið er keyrt áfram og mikið er tuðað yfir hinu og þessu hérlendis. En sárasjaldan fylgja verk orði. Ef til dæmis maður er óánægður með eitthvað, eins og vinnuálag, að hafa lítinn tíma með börnunum sínum, skuldir, þjónustu, yfirmenn, laun, mengun, stóriðju, spillingu, ríkistjórn þá er ekkert einfaldara en að gera eitthvað í því. Ef maður vill verja meiri tíma með börnunum sínum, þá verður maður að breyta um lífstíl sem flestir eru kannski ekki alveg tilbúnir að gefa upp á bátinn. Það verða nákvæmlega engar breytingar í veröldinni nema við séum tilbúin að breytast. Ef við höldum áfram á fullu í neysluhyggju og gerviþarfa veruleika þá verðum við að sætta okkur við fórnirnar sem þarf að færa.

Ég skil í raun og veru ekki alveg hvað gerðist. Af hverju gengur allt út á að varpa ábyrgðinni yfir á aðra. Heilbrigt samfélag er samfélag þar sem einstaklingar bera ábyrgð á sér og sínum. Þar er ekki ætlast til þess að stofnanir sjái um yngstu og elstu fjölskyldumeðlimi svo maður geti keypt sér meira og meira af gagnslausu drasli sem verður úrelt eftir eitt ár. Við erum óheyrilega óábyrg. Með neysluhyggju okkar stuðlum við að eyðileggingu jarðarinnar, við búum til samfélag þar sem sívaxandi fjöldi barna á sér enga ósk heitari en að deyja. Ein meginástæða þess er að börn eru í sívaxandi mæli tilfinningalega afskipt af foreldrum sínum sem þurfa að vinna svo mikið til að framfleyta sér. Þegar ég var að alast upp, þótti sjálfsagt að safna sér fyrir því sem maður ætlaði að kaupa og ef maður fékk eitthvað þá var það sérstakt. Pabbi til dæmis keypti allt sem við áttum fyrir beinharða peninga og aldrei voru tekin lán á okkar heimili. Ég aftur á móti byrjaði í vítahring yfirdráttarlána og sér ekki fyrir endann á því hvenær mér muni takast að greiða það niður. En ég hef alla vega gert einn skynsaman hlut á lífsleið minni og það er að velja minni efnisleg gæði fyrir meiri tíma með krökkunum mínum.

Þetta hefur aldrei verið erfitt val. Af hverju ætti ég ekki að bera fulla ábyrgð á því að sinna mínu hlutverki sem foreldri ef ég á annað borð vel að eignast börn. Ég fæ þá allt annað seinna eða aldrei sem mætti flokkast undir efnislega velsæld og ég hef ekki haft fyrir því að moka í börnin mín merkjavöru eða öllu því sem þeim langar í. Fyrir vikið er ég reyndar ríkari en mig hefði nokkru sinni órað fyrir.

Ef ég vil breytingar þá er enginn nema ég sem get hrundið þeim í framkvæmd. Það væri fásinna að bíða eftir að einhverjir aðrir geri það fyrir mig. Það minnir mann bara á söguna um lata Geir á lækjarbakka.

Eftir að hafa séð mynd Al Gore um gróðurhúsa áhrifin er eitt alveg ljóst: ég verð að gera meira sem einstaklingur og ég verð að fræða aðra um þá miklu vá sem við stöndum frammi fyrir með aðgerðarleysi okkar. Mín kynslóð og kynslóð foreldra minna bera ábyrgð á þessum ósköpum og ef ekkert verður gert til að snúa þessari þróun við munu milljónir manna liggja í valnum.

Ein ástæða þess að ég hef varið svo miklum tíma í umhverfismál er sprottin frá þeirri þörf á að gefa til baka það sem mér hefur verið gefið. Ég ætti ekkert ef náttúran hefði ekki viðstöðulaust gefið mér af sér. Furðulegt að sparka stöðugt í höndina sem fæðir og klæðir mann, svo ég tali nú ekki um nærir sálina með fegurð sinni.
Ef heimurinn á að breytast verð ég að breytast. Neysluvenjur og gildismat.