Kvikmyndin Rauðhetta er lauslega byggð á hinu sígilda ævintýri um Rauðhettu. Söguþráðurinn er listilega vel smíðaður í kringum þetta ævintýri sem við öll þekkjum, en myndin á ekkert annað sameiginlegt með ævintýrinu. Það er ekki oft sem maður sér fjölskyldumynd sem hefur almennilegan þráð og leikfléttu sem höfðar til vitsmuna bæði barna og fullorðinna. Oftar en einu sinni hefur maður þurft að þjást í gegnum myndir með yngstu fjölskyldumeðlimunum, sem eru byggðar á úreltum söguþræði sem er búið að nota svo oft að maður getur ekki beðið eftir að komast út.
Kolsvartur húmor
Það sem heillaði mig við þessa mynd var kolsvartur húmorinn og uppbygging sögunnar. Það kom mjög vel út að notast við formúlur sakamálamynda, minnti jafnvel á Agötu Christie kvikmyndir þar sem sagan er sögð útfrá sjónarhorni allra sem liggja undir grun um glæpinn. Þá fannst mér töff að sýna sömu senurnar út frá mismunandi vinklum sem síðan juku við plottið uns það náði ákveðnu hámarki. Amman er ekki öll þar sem hún er séð en hún lifir algerlega tvöföldu lífi sem snýst um listilega gott bakkelsi og jaðaríþróttir. Þá fáum við blaðamenn smá skot með því að gera úlfinn lævísa og undirförula að rannsóknarblaðamanni og ljósmyndarinn er útúrvíraður paparazzi íkorni. Ekki má gleyma kjötsölubílstjóranum sem fer að leita að skógarhöggsmanninum innra með sér til að geta uppfyllt draum sinn um að gerast leikari. Persónusköpunin er vel gerð og myndin er brimfull af skemmtilegum persónuleikum.
Enginn teiknimyndasöngleikur
Ég fékk í upphafi myndarinnar vægan hroll þegar fyrsta lagið byrjaði í flutningi Birgittu Haukdal, hélt að þetta myndi þróast í enn eina söngvamyndina sem ég er búin að fá algerlega nóg af. Ég er enn að jafna mig á hörmungarútfærslunni á Herkúles hinum gríska í amerísku gospellandi. En þessari mynd tókst meira að segja að sneiða framhjá því að ofnota söngvana og gera úr þessu teiknimyndasöngleik. Ef að ég ætti að leita að einhverju til að kvarta yfir þá er það eitthvað sem ég pirra mig sífellt á í tengslum við íslenska talsetningu. Finnst sumir leikarar og söngvarar algerlega ofnotaðir og sama hve þau reyna að aðlaga röddina nýjum persónum þá heyrir maður bergmálið af öllum hinum persónunum sem þau hafa talsett.
Mér finnst að þeim sem standa að baki Rauðhettu, hafi tekist að gera nútímalegt ævintýri þar sem einfaldlega allt gengur upp.
Fyrsti bíódómurinn í Blaðinu, birtist 10. maí 2006
06 júlí 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli