gerist stofnfélagar í félagi um framtíð Íslands: www.framtidarlandid.is
Framtíðarlandið – félag um framtíð Íslands verður stofnað í Austurbæ 17. júní, kl. 12:00.
Frumkvæðið að stofnun félagsins kemur frá einstaklingum af ólíkum sviðum þjóðlífssins sem telja að nú sé þörf fyrir afl sem upplýsir, gagnrýnir og leggur til hugmyndir að nýrri framtíðarsýn á Íslandi og að nauðsyn beri til að efla lýðræði og lýðræðislega umræðu – og grundvallarþætti samfélagsins: réttlæti, menntun og skapandi atvinnustefnu.
Framtíðarlandið er þverpólitískur mótsstaður með víðtækri þátttöku frumkvöðla, fræðimanna, viðskiptafólks, listamanna og einstaklinga af öllum sviðum atvinnulífsins. Framtíðarlandið á að vera vettvangur frjórra hugmynda um virkjun mannauðs og hugmyndaríkra einstaklinga.
Framtíðarlandinu er stefnt gegn einhæfri, úreltri atvinnustefnu þar sem höfuðáhersla er lögð á stóriðju með tilheyrandi vatnsaflsvirkjunum og stórfelldri og óáfturkræfri eyðileggingu náttúru og lands. Félagið hafnar ríkisrekinni byggðastefnu og stórfelldum „ríkisstýrðum“ stórverkefnum. Félagið vill sporna við fótum áður en kostir og möguleikar lands og þjóðar verða þrengdir enn meir en þegar hefur orðið.
Framtíðarlandið er vettvangur einstaklinga sem lætur sig framtíð – og nútíð – Íslands varða. Félagið vill jákvæða, skapandi atvinnustefnu í mannvænu, vistvænu, og lýðræðislegu andrúmslofti. Félagið vill kvikan og frjóan jarðveg þar sem frumkvöðlar og sprotafyrirtæki dafna; þar sem snjallar viðskiptahugmyndir fá að njóta sín; þar sem einstaklingurinn – og samfélagið – er skapandi.
Gerist stofnfélagar, takið þátt í mótun Íslands: www.framtidarlandid.is
17 júní 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli